136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[23:48]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Á undanförnum árum hafa útgjöld til heilbrigðismála vaxið gríðarlega hér á landi. Við höfum náð að efla heilsugæslu og sjúkrahússtarfsemi af miklum myndarskap, en það er alveg öruggt að betur má gera og meira í þeim málum. Það er raunverulega enginn endir á þeim verkum sem þar standa fyrir framan okkur.

Auðvitað er sárt að þurfa að grípa til aðgerða í heilsugæslunni, það er sárt að þurfa að draga saman í félagsþjónustunni, það er blóðugt að þurfa að draga saman í menntakerfinu, það er erfitt að draga úr þeim framlögum sem við höfum til þess að styðja við byggðirnar í landinu sem standa höllum fæti. Allir þessir þættir eru óskaplega erfiðir. En þegar við stöndum frammi fyrir því, þetta samfélag, að tekjugrunnurinn í samfélaginu gefur svona ofboðslega eftir, langleiðina í það að hrynja saman, þegar við stöndum frammi fyrir einhverju erfiðasta áfalli sem nokkur þjóð á Vesturlöndum hefur lent í svo áratugum skiptir er það bara þannig að á öllum sviðum, hvort sem eru heilbrigðismálin, samgöngumálin, félagslegu málin eða menntamálin, verðum við að skera niður, draga úr þjónustu. Á móti kemur, og það er hið ágæta, að á undanförnum áratug eða svo höfum við náð að auka þessa þætti svo myndarlega að það er leitun að því hjá nokkru vestrænu ríki þar sem framlög, t.d. til heilbrigðismála, hafa aukist jafnhratt og jafnmikið að raungildi og gerst hefur á Íslandi.

Þess vegna er staða þessa máls, sem felst í því að við tökum alls staðar rekstur niður til að ná þessum markmiðum sem við verðum að setja okkur, alveg óháð því hvað IMF hefur sagt. Það erum við sem þurfum að borga þær skuldir sem myndast við það að halli er á ríkissjóði, íslensk þjóð þarf að borga þær skuldir, og því meiri sem hallinn er og því minna sem er gert í því að skera niður, því meiri verða byrðarnar sem við þurfum að fleyta yfir á næstu kynslóð.