136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[23:55]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er enn sömu skoðunar og ég var í fyrra, að við þurfum að endurskoða vinnuferlið við fjárlagagerðina í þinginu. Ég lýsti einmitt þeirri skoðun minni að það færi vel á einhverjum breytingum, ef ég lýsi þeim í örfáum orðum, sem lúta að því að eftir að fjárlög hafa verið lögð fram af hæstv. fjármálaráðherra ættu fagráðherrar að kynna stöðu sína og fjárlagafrumvarpið gagnvart ráðuneytum sínum og þingmenn ættu síðan að eiga þess kost við 1. umr. að spyrja fagráðherrana út úr. Síðan þyrftu viðkomandi ráðherrar að mæta fyrir fjárlaganefnd á milli 1. og 2. umr. ef breytingar frá framkvæmdarvaldinu ættu að koma til skoðunar af hálfu nefndarinnar en þeir mundu ekki bara senda embættismenn sína eða einhverja nótu um þær breytingar sem þeir legðu til á fjárlögunum. Þetta var skoðun mín og þetta er skoðun mín.

Það sem aftur á móti hefur gerst, hv. þm. Jón Bjarnason, er að í haust hrundi íslenska bankakerfið. Þar með fór hér allt á þvílíkt hvolf að af stað fóru neyðaraðgerðir, fullkomin og algjör óvissa ríkti um tekjugrunn þessa fjárlagafrumvarps og því er það svo að vinnuferlið sem verið hefur hér á undanförnum vikum og mánuðum hvað varðar fjárlagagerðina er alveg einstakt. Þetta eru ekki vinnubrögð sem við viljum nota til að hafa hér til einhvers fordæmis, það voru neyðaraðstæður sem komu upp í þjóðfélaginu og menn hafa verið að reyna að vinna þetta eins hratt og vel og samviskusamlega og hægt er, en þegar kemur að næstu fjárlögum eins og ég sagði í ræðum mínum áðan þurfum við auðvitað að horfa öðruvísi á þetta, þá höfum við betri tíma. Þá þurfum við að horfa til fleiri ára í senn og þá þurfum við að horfa betur á samspil pólitískrar stefnumörkunar og hvernig (Forseti hringir.) við getum sparað í ríkisrekstrinum.