136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[23:57]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mitt mat er það að ekki hvað síst við þær aðstæður sem við lentum í í haust, eins og hv. þingmaður minntist á, hrun bankakerfisins og þá gríðarlegu erfiðleika sem eru fram undan í efnahagsmálum þjóðarinnar, hafi aldrei verið mikilvægara að virkja lýðræðið, þingræðið og að þetta væri unnið fyrir opnum tjöldum og af hálfu þingsins. Enda heyrum við mótmælin úti í samfélaginu gegn þessari gerræðislegu og pukurslegu leyndarvinnu í fjárlagagerðinni eins og var hér nú, og við erum hér að fjalla um nánast alveg nýtt frumvarp í öllum meginatriðum frá því sem lagt var fram í haust. Og svo kemur það inn til fjárlaganefndar sem er með það í nokkra klukkutíma og til nokkurra mínútna umfjöllunar.

Svör við spurningum sem voru bornar fram um forsendur þessa frumvarps, eins og um tekjuáætlun, greiðslugetu ríkissjóðs til næstu ára, lán og lánabyrði ríkissjóð á næsta og þarnæsta ári og áfram og um fleiri þætti sem eru grundvallaratriði einmitt við þær aðstæður sem eru nú, vantar. Frumvarpið er afgreitt með slíku hraði og nánast umræðulaust úr fjárlaganefnd til Alþingis. Ég spyr hv. þingmann: Finnst honum í raun boðlegt, forsvaranlegt, að Alþingi fjalli um svo gríðarlega breytt frumvarp, breyttar forsendur, með þessu hraði og á svona veikum grunni eins og það byggir? Hefði ekki átt að gefa sér meiri tíma og vinna þetta þannig að hér lægju raunverulegar forsendur fyrir frumvarpinu, ekki bara vinnuplagg eins og hér er um að ræða?