136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[23:59]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þannig háttar bara til við þær aðstæður sem við stöndum frammi fyrir að óvissan er enn mjög mikil og hún hefur verið alveg gríðarleg. Ríkisstjórn Íslands hefur verið að ná samningum við t.d. Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um aðstoð sjóðsins við að koma íslensku krónunni aftur á flot. Menn hafa staðið í stórum og miklum deilum við erlend ríki varðandi skuldbindingar sem gætu mögulega fallið á ríkissjóð o.s.frv. Mesta óvissan er síðan um það hvernig efnahagslífinu sjálfu muni reiða af á næsta ári.

Það er ekki skrýtið þótt á þeim örfáu vikum sem við höfum haft til umráða frá því að þetta áfall varð hafi verið erfitt að ná saman einhverjum upplýsingum sem við getum raunverulega byggt á. Það að einhver leyndarhyggja hafi verið eða eitthvert pukur er fjarri öllu lagi. Þeir sem hafa fylgst með þessum umræðum, fylgst með efnahagsmálum á Íslandi undanfarna mánuði vita auðvitað að svo er ekki.

Spurningin sem til mín var beint frá hv. þingmanni, hvort ég sætti mig við þetta vinnulag, hvort mér þætti þetta eðlilegt — auðvitað er þetta vinnulag ekkert eðlilegt enda eru þetta ekki eðlilegir tímar. Ég er sannfærður um að reynt var að koma þessu máli eins snemma inn í þingið og hægt var, um leið og menn höfðu það í höndunum sem þurfti til að hægt væri að bregðast við öllum þeim breytingum sem leiddu til þess að menn fóru í þær miklu breytingar sem voru gerðar á fjárlagafrumvarpinu.

Auðvitað eru þetta ekki æskileg vinnubrögð, það segir sig sjálft. Hv. þingmaður þarf ekkert að spyrja mig af því að hann veit svarið, en ég lít svo á, og ég held að langflestir þingmenn séu mér sammála hvað það varðar, að aðstæðurnar hafi verið það óvanalegar að það réttlætti að menn hafi farið fram með þeim hætti sem gert hefur verið. Þar með er ekki verið að segja að menn hafi ekki viljað nýta þingið, enda hafa menn nýtt þingið eins mikið og hægt er, nýta sem flesta starfskrafta, nýta sem flestar hugmyndir og kunnáttu, bæði þingmanna og annarra, til að við náum þessum árangri sem núna er þó á borðinu í fjárlagafrumvarpinu, þ.e. (Forseti hringir.) að menn hafa þó náð þessum niðurskurði, en vandinn er sá, hv. þingmaður, að við munum þurfa að ganga lengra á næsta ári. Við munum þurfa að ganga harðar fram í öllum þeim vandamálum sem við erum að kljást við. (JBjarn: En það eru engar forsendur …)