136. löggjafarþing — 58. fundur,  16. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[00:02]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Það hefur margt verið sagt um frumvarpið í dag. Ég ætla að taka annan vinkil á málið allt og vísa í ræður kollega minna, sérstaklega Magnúsar Stefánssonar sem fór mjög faglega og yfirvegað yfir frumvarpið fyrr í dag.

Það er samt þannig með þetta blessaða frumvarp til fjárlaga að því miður sýnir umræðan og nefndarálit meiri hlutans að við erum algerlega í lausu lofti. Nefndarálitið er rúmlega ein blaðsíða, ekkert efnisinnihald og það mætti kannski segja að það sem stendur framan á frumvarpinu, „Stefna og horfur“, í fyrri hluta þess, séu einhvers konar öfugmæli. Það er engin stefna í gangi og því miður eru horfurnar afar slæmar. Það væri a.m.k. vert að fá að vita hvað ríkisstjórnin ætlar sér í framhaldinu.

Það er nú einu sinni þannig með þessa blessuðu ríkisstjórn að hún hefur leyft sér að tala út og suður sem því miður þýðir bara eitt. Þeir sem vinna að verkefnum, stórframkvæmdum eða eftir búvörusamningum — það er allt í lausu lofti í dag. Af hverju? Af því að fólk veit ekki hvert stjórnvöld eru að fara. Ráðherrarnir segja eitt í dag, annað á morgun. Svo koma þingmenn stjórnarmeirihlutans og segja kannski þriðja hlutinn og það þýðir bara eitt: Fólk hættir að vinna að verkefnunum vegna þess að það leggur ekki fjármuni og vinnu í eitthvað sem það getur ekki treyst að verði að veruleika.

Það er samt ein setning sem mér finnst hafa staðið upp úr í umræðum meiri hlutans og hún kom fram í ræðu hv. þm. Ármanns Kr. Ólafssonar sem hóf ræðu sína rétt áðan með þessum orðum: „Aldrei hefði það hvarflað að mér að slík ósköp mundu dynja yfir.“ Það hefur verið meginþema í málflutningi meiri hlutans, áfallið kom eins og þruma úr heiðskíru lofti og menn segja: Ja, svona er staðan og við gátum lítið gert í málinu. Við verðum að vinna með stöðuna eins og hún er.

Ég vil benda á að við framsóknarmenn ræddum um fyrir ári síðan, þegar við fórum í gegnum fjárlagaumræðuna, að það væri alger óráðsía á þeim tíma að hækka fjárlögin um u.þ.b. 20% og það frá kosningaári. Það var heldur betur lítið gert úr þeirri skoðun okkar. Við bentum á það að einkaframtakið væri í fullum gangi, að þensla væri í þjóðfélaginu. Henni mundi ljúka og þá væri gott að ríkið gæti komið sterkt inn og gæti haldið uppi atvinnu og framkvæmdum en ekki þurfa að skera niður um leið og einkaframtakið yrði verr í stakk búið til að halda verkefnum sínum áfram

Hver er staðan núna? Jú, það er allt niðri, það er allt stopp, ekki bara einkaframtakið heldur ríkisstjórnin líka. Það er gaman að rifja það upp hér að þegar skýrsla kom frá OECD um að það væri gott að búa á Íslandi og efnahagslífið hér væri traust og gott, komu þingmenn Sjálfstæðisflokksins upp, börðu sér á brjóst og þökkuðu sér einum efnahagsundrið á Íslandi. Ég held að vert væri að grafa þá ræðu upp og endurflytja hana fyrir þingmenn og Íslendinga. Hún sýnir kaldhæðnina og vitleysuna í þessu öllu saman.

Mig langar aðeins að drepa niður í ræðu hjá hv. fyrrverandi þingmanni, Bjarna Harðarsyni, sem sagði í umræðunni fyrir ári síðan, með leyfi forseta:

„Nú getur vel verið að einhver hugsi þannig í alvöru að ekki þurfi ráðdeild í ríkisfjármálunum sem stendur. Þeir hafa þá ekki lesið það plagg sem ég minntist á hér fyrr þar sem tekin eru af öll tvímæli um að aðhald í ríkisfjármálum þurfi að vera aðaláherslan í fjármálastjórninni næstu missirin þar sem hagkerfið ber öll merki ofþenslu. Ég leyfi mér hér beina tilvitnun, með leyfi forseta, í þann mæta hagfræðing Jón Sigurðsson, fyrrum iðnaðarráðherra Alþýðuflokks, sem sagði að hagkerfið bæri „enn öll merki ofþenslu sem birtist í verðbólgu, miklum viðskiptahalla og erlendri skuldasöfnun“.

Í sama riti segir einnig, með leyfi forseta, og við skulum athuga að þetta er skrifað síðasta vor:

„Hættan er sú að Ísland missi trúverðugleika á alþjóðlegum fjármálamörkuðum, en þá væri voðinn vís með hækkandi vaxtaálagi, gengisfalli og verðbólgugusu.““

Fyrr í umræðunni í dag kom hæstv. utanríkisráðherra í andsvar við hv. þm. Magnús Stefánsson og sagði að þessi vandi væri allur frá síðustu ríkisstjórn, þetta væri bara ekki vandi núverandi ríkisstjórnar, eða með öðrum orðum hefði ekkert gerst á þeim 18 mánuðum sem ríkisstjórnin hefur verið við störf, ekki neitt. Þetta væri allt gamall vandi sem Samfylkingin þurfti að taka við. En hún gerði bara ekki neitt, sat og gerði ekki neitt.

Vert er að minnast orða hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar í andsvari hans við ræðu hv. þm. Bjarna Harðarsonar þar sem hann segir:

„Hún var á margan hátt skemmtileg áheyrnar, fróðleg á að hlýða og dæmigerð stjórnarandstöðuræða. Þar hleypur Bjarni fram með miklar viðvaranir um of mikla eyðslu, talar um að gassalega sé gefið á garðann, þetta séu montfjárlög og líklega verði allt í klessu á næsta ári eða kalda koli. Hann talar um að ráðherrar stundi Albaníustjórnmál o.s.frv.“

Hefði ekki verið nær að hlusta á aðvörunarorð okkar framsóknarmanna í fjárlagaumræðunni fyrir ári síðan, hefði það ekki verið ráð? Og hefði ekki líka verið ráð að hlusta og taka tillit til þeirra efnahagstillagna sem við lögðum fram í tvígang, fyrst í marsmánuði og síðan í byrjun eða lok júlímánaðar? Hefði ekki verið ráð að hlusta á viðvörunarorð seðlabankastjóra sem fullyrti á fundi viðskiptanefndar að hann hefði hitt ráðherra ríkisstjórnarinnar og sagt við þá: Það eru núll prósent líkur á því að bankakerfið muni standa þessa hrinu af sér, núll prósent líkur. Reyndar segja ráðherrar núna að þeir hafi séð skýrslu frá Seðlabankanum sem komið hafi út mánuði fyrr og þeir hafi ekki séð neina sérstaka ástæðu til þess að hlusta á þennan æðsta yfirmann Seðlabankans, það þótti ekki tilefni til þess þá. Reyndar efast ég um að þeir hafi verið nægilega vel læsir á þá skýrslu vegna þess að í henni koma greinilega fram miklar aðvaranir.

Þá veltir maður einnig fyrir sér orðum hæstv. forsætisráðherra Geirs H. Haarde sem kom fram stuttu seinna og dásamaði aðgerðaleysið. Aðgerðaleysið væri lausnin á vandanum, það hefði sýnt sig og sannað að aðgerðaleysið væri mál málanna og væri leiðin út úr ógöngum. Kannski er það einhver hagfræðileg stefna hjá sjálfstæðismönnum, einhver hluti af frjálshyggjunni sem ég þekki ekki nægilega vel til, að láta bara efnahagslífið um þetta sjálft, hafa sem minnst áhrif. Þar skilur tvímælalaust á milli Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins. Við framsóknarmenn viljum og berjumst fyrir því að hér sé öflugt samkeppniseftirlit og öflugt fjármálaeftirlit og að skapaður sé rammi utan um efnahagslíf og atvinnulíf þjóðarinnar. Hefði ekki verið nær að styrkja þann ramma enn frekar eins og við kölluðum eftir í umræðunni fyrir um ári síðan?

Þeir er skemmt, þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, (Gripið fram í: Mér varð bara hugsað til Bjarna vinar míns.) og það gleður mig að ykkur sé hugsað til Bjarna vinar ykkar en ég tel að þið ættuð kannski að rifja upp ræður ykkar og andsvör við ræðu hans fyrir um ári síðan. Þær eru ansi hjákátlegar í dag, verður að segja.

Ég rifja upp þessi orð frá þingmönnum: Aldrei hefði það hvarfla að mér að slík ósköp mundu dynja yfir, bankakerfið hrundi bara allt í einu. Hvað gerðist eiginlega? má lesa út úr ræðum hv. stjórnarþingmanna.

Þá vil ég aðeins rifja upp gang mála þegar Glitnir var þjóðnýttur. Glitnir lenti í greiðsluerfiðleikum með eina afborgun 15. október, búið var að dekka fjármögnun á næstu gjalddögum þar á eftir alveg fram í aprílmánuð. Lehman Brothers fór á hausinn og þýski bankinn var búinn að lána Seðlabankanum rúmlega 90 milljarða. Að sjálfsögðu hugsuðu þeir að eðlilegt væri að leita á náðir Seðlabankans með lán. Hvað gerðist svo í kjölfarið? Jú, þeir fara og óska eftir láni, leggja fram veð en það heyrist ekkert frá Seðlabankanum fyrr en seint á sunnudagskvöldi. Þá fyrst datt þeim í hug að kalla á bankamálaráðherra sem hafði verið einhvers staðar á Suðurlandinu að taka slátur, eftir því sem ég best veit en það eru óstaðfestar sögusagnir. Að minnsta kosti var hann ekki hafður með í ráðum fyrr en seint um kvöldið.

Við skulum hafa það algerlega í huga að það var ríkisstjórnin sem tók ákvörðun um það að þjóðnýta Glitni. Var þeim og seðlabankastjóra gerð grein fyrir þeim afleiðingum sem það mundi hafa í för með sér? Já, ítarlega. Það lá fyrir ef að Glitnir mundi fara á hliðina mundi Landsbankinn fylgja með. Það vissi ríkisstjórnin. Það vissi Seðlabankinn. Það var grafalvarlegt mál.

Og hvernig dæmdu markaðirnir þessa aðgerð, á mánudegi klukkan tíu? Hvernig dæmdu erlend greiningarfyrirtæki þessa ákvörðun íslensku ríkisstjórnarinnar? Þeir dæmdu hana ónýta. Lánshæfismat ríkisins hrapaði. Lánshæfismat bankanna hrapaði. Af hverju? Vegna þess að menn komu saman og sögðu: Íslendingar hafa ekki verið að segja okkur alla söguna. Þeir sögðu okkur fyrir helgi, nokkrum dögum fyrr, að hér væri gott og sterkt bankakerfi. Nokkrum dögum seinna eru þeir búnir að þjóðnýta banka sem átti að standa vel.

Hefði ekki þá verið ráð að setjast niður og boða til neyðarfundar og fara yfir stöðuna? Nei, það var ekki gert. Það var því miður ekki gert og því miður hefur það kannski einkennt þessa ríkisstjórn að samráð, samstaða eða einhvers konar samráðshópur til þess að fara yfir öll þessi mál hefur nánast aldrei verið starfandi. Það varð til einhver vísir að honum þegar Ásmundur Stefánsson var kallaður til til að hafa yfirumsjón með málinu. Það var jákvætt skref. En hann var tekinn út úr því verkefni eins fljótt og hann var seint skipaður.

Hvað gerðist svo í kjölfarið? Neyðarlögin voru sett, illu heilli, á nokkrum klukkustundum. Það þarf að fara yfir þau, að sjálfsögðu. Það hefur ekki verið gert. Síðan kemur seðlabankastjóri í Kastljósþátt og skýrir löndunum frá því að það sé verið að bjarga íslenskum heimilum en skilja erlenda kröfuhafa eftir algerlega úti í kuldanum. Þessi ræða varð einfaldlega til umfjöllunar á breska þinginu. Það er ekkert flóknara en það.

Og hvernig eiga seðlabankastjórar að haga sér? Davíð Oddsson kom á fund viðskiptanefndar og sagði að seðlabankastjórar ættu að hafa eins litlar skoðanir á hlutunum og mögulegt væri. Þeir ættu að tala lítið og ef þeir töluðu þá ættu þeir helst að tala í gátum. Þá spyr maður. Hvað gerðist? Hvað varð til þess að seðlabankastjóri Íslands kom í þennan Kastljósþátt og ákvað nú heldur betur að leysa frá skjóðunni? Hefði það eitt og sér ekki verið tilefni til þess að ríkisstjórnin kallaði á seðlabankastjóra og veitti honum einhvers konar áminningu? Það er ferlið. Ríkisstjórnin ber ábyrgð á seðlabankastjóra.

Reyndar hefur Samfylkingin komið fram og sagt að hún beri enga ábyrgð á gjörðum hv. seðlabankastjóra. En holari getur nú málflutningurinn ekki verið. Seðlabankastjóri starfar á þeirra forsendum, það er á ábyrgð Samfylkingarinnar að seðlabankastjóri sé enn þá starfandi. Ég spurði seðlabankastjóra að því hvort hann hefði ekki hugsað sér í kjölfar ástandsins, hvort sem hann hefði gert rétt eða rangt, að segja af sér bara til þess að skapa frið um embættið og kannski til þess að auka tiltrúna á íslenskt efnahagslíf og þær aðgerðir sem hafa verið hér í gangi þótt afar litlar hafi verið. Hann vísaði í að hann ynni á forræði og væri starfandi á forræði ríkisstjórnarinnar. Ef hún vildi að hann færi frá þá væri það þeirra.

Hvað gerðist svo í kjölfarið? Hver er ástæða þess að fjárlagafrumvarpið er með þeim hætti sem raun ber vitni? Hver er ástæða þess að við horfum fram á gríðarlega skuldsetningu íslensku þjóðarinnar og íslensks efnahagslífs? Til að mynda það að Bretar settu á okkur hryðjuverkalög. Þeir beittu hryðjuverkalögum á Landsbankann, á ríkisstjórnina og Seðlabanka Íslands. (Gripið fram í.) Hefði þá ekki verið nær að ríkisstjórnin, forsvarsmenn hennar, hæstv. forsætisráðherra, hefði farið í strax og hitt Gordon Brown og reynt að leiðrétta þann misskilning, þann dýrkeypta misskilning sem virðist hafa orðið í samræðum hæstv. viðskiptaráðherra við Darling fjármálaráðherra Bretlands og svo á milli Darlings og hæstv. fjármálaráðherra? Hefði ekki verið ráð að fara og ræða þetta að minnsta kosti? Þetta er nefnilega ekkert sérstaklega flókið. En það var allt of langt gengið að beita Ísland hryðjuverkalögum og hvað hafði það í för með sér? Okkar stærsta fyrirtæki Kaupþing sem átti alls ekki að fara á hliðina, það voru engar forsendur fyrir því, var yfirtekið sem leiddi til þess að öll lán voru gjaldfelld. Yfirmenn bankans reyndu á einni nóttu að gera allt sem þeir gátu en síðan var fall hans staðreynd og um leið 85% af bankakerfinu.

Er enn í dag verið að reyna að leiðrétta þetta með hryðjuverkalögin? Nei, þau eru nefnilega bara enn þá á okkur Íslendingum eins undarlegt og það nú hljómar. Ég var staddur í London á friðarráðstefnu og fór yfir þetta með þingmönnum hvaðanæva að úr heiminum, frá Írlandi, Skandinavíu. Einn spurði mig hvort við Íslendingar hefðum svona skrýtinn húmor, það væri fyndinn þessi hryðjuverkabrandari. Ég hló svolítið að því og sagði þetta er ekki brandari, það væri staðreynd að Bretar hefðu sett á okkur hryðjuverkalög og hann missti andlitið.

Það er nefnilega ekkert mál að útskýra það fyrir almenningi erlendis að það var einfaldlega gengið allt of langt í þessu máli en því miður hefur ríkisstjórnin ekkert beitt sér. Ekki styrkt þann góða hóp sem stofnaði vefsíðuna indefence.is og er kannski eina vörn okkar í þessu mikilvæga hagsmunamáli.

Ég óskaði eftir því í viðskiptanefnd að breskir lögfræðingar sem voru hér á snærum „In defence“ kæmu á fund viðskiptanefndar. Ég óskaði eftir því að það yrði upplýst hverjir héldu utan um málaferlin. Væri það skilanefnd gamla Kaupþings? Væri það nýi bankinn eða væri það ríkisstjórnin? Þar kom skýrt fram að það væri skilanefndin en skilanefndin þyrfti fjárstuðning frá ríkisstjórninni til þess að leiða þann málarekstur áfram. Það kom skýrt fram. Síðan eru liðnar um þrjár vikur, að mig minnir. Það kom líka skýrt fram að frestir til þess að höfða mál mundu renna út núna strax í byrjun janúar, 7. janúar og því yrði að bregðast hart við. Íslensk stjórnvöld yrðu að koma með fjármagn til þess að hægt væri að höfða þetta mál. Kaupþing væri vopn okkar Íslendinga til þess að leiðrétta það óréttlæti sem Bretar hefðu beitt okkur.

En nei, enn í dag berast fréttir af því að málareksturinn sé í miklu uppnámi og ríkisstjórnin hafi í rauninni ekkert aðhafst til þess að koma honum af stað, ekki styrkt hann með fjármunum eða reynt að koma málflutningi okkar Íslendinga til skila inn í breskt samfélag.

Hvað gerðist svo í kjölfarið og við höfum farið mjög ítarlega yfir hér á Alþingi? Ég hef margítrekað spurt viðskiptaráðherra út í hvað hafi gerst varðandi peningamarkaðssjóðina. Vegna þess að þegar gömlu stóru viðskiptabankarnir fóru niður þá hafi restin af fjármálakerfinu einfaldlega sogast með. Það bætti ekki úr skák að Seðlabankinn gerði veðköll í kröfur á hendur þessum fjármálafyrirtækjum en Seðlabankinn hafði lánað gömlu viðskiptabönkunum í gegnum þessi litlu fjármálafyrirtæki sem þau höfðu fengið vissa þóknun fyrir bara til þess að tryggja fjármagn bankanna. Maður spyr sig hvar það mál er statt í dag.

Þar er ekki lítið undir. Það er restin af fjármálakerfi þjóðarinnar. Sparisjóðirnir okkar, fyrirtæki, fjármálafyrirtæki sem sýndu ráðdeild, skynsemi í aðgerðum sínum og hafa enga ástæðu til þess að fara með niður í kjölsogið. Maður hefur það einfaldlega á tilfinningunni að það eigi að tefja þetta mál. Þreyta okkur stjórnarandstöðuþingmenn í því að vekja athygli á því að þarna séu hlutir sem sé vert að bjarga, mikilsverðir hlutir fyrir traust á íslensku fjármálakerfi í framtíðinni. En ég get sagt hv. stjórnarliðum það að við munum ekki gefa eftir í þessum málum. Við munum halda áfram að krefjast svara við því.

Ég minntist á peningamarkaðssjóðina. Við höfum margrætt þá. 200 milljarðar sem voru teknir út úr nýju ríkisbönkunum og greiddir í þessa peningamarkaðssjóði frá nýju bönkunum af þeirra eigin fé. Af hverju er það ekki rætt hér í sölum Alþingis? Þetta eru nú engar smáfjárhæðir. Maður veltir líka fyrir sér af hverju því hefur ekki verið haldið meira á lofti í fjölmiðlum landsins að um leið og hér urðu til ríkisbankar þá voru bein afskipti hjá aðstoðarmanni viðskiptaráðherra þar sem hann sendir bréf á bráðabirgðabankastjórnina um að greiða þessa fjármuni út. Þetta bréf var ekki sent á önnur fjármálafyrirtæki. Þetta bréf var ekki sent á fjármálafyrirtæki sem höfðu ekki fengið pening frá ríkissjóðnum.

En því miður er nú staðan einfaldlega þannig að Icesave-reikningarnir, lánið frá IMF, vaxtakostnaður og fjármagnskostnaður mun setja þjóðina í mikinn vanda um mörg ókomin ár og ég lýsi fullri ábyrgð á því á hendur núverandi ríkisstjórnar. Þeir voru á verðinum þegar þetta gerðist og þeir eru enn þá á verðinum.

Ég ætla að hlaupa yfir nokkrar tölur sem við framsóknarmenn höfum komist yfir. Að sjálfsögðu eru þessar tölur með þeim fyrirvara að það hafa engar áætlanir komið frá fjármálaráðuneytinu um hvernig framhaldið er. Það er nú kannski það sem háir fjárlagafrumvarpinu fyrst og fremst. En samkvæmt upplýsingum sem við fengum í Seðlabankanum voru skuldir ríkissjóðs í lok október 2008 564 milljarðar. Áætlað er að halli fjárlaga 2008 samkvæmt fjáraukafrumvarpinu sé um 5 milljarðar þannig að skuldir ríkissjóðs verða í upphafi árs 2009 um 570 milljarðar. Og ef við setjum þessar tölur í eitthvert samhengi þá kostar allt heilbrigðiskerfið okkar landsmanna um 60 milljarða á einu ári. Það er dýrasta ráðuneytið, mestu útgjöldin fara í þann málaflokk þannig að við getum svona rétt ímyndað okkur hvaða tölur við erum að horfa fram á hér.

Við framsóknarmenn teljum að halli ríkissjóðs samanlagt til og með árinu 2011 geti numið allt að 500 milljörðum eða tæplega fjárlögum eins árs. Og síðan höfum við reiknað að halli á fjárlögum ársins 2009 þegar upp verður staðið geti nálgast 200 milljarða. Þá á eftir að koma inn í að fjármögnun nýju ríkisbankanna upp á um 385 milljarða en það er gert ráð fyrir að ríkissjóður muni gefa út skuldabréf fyrir því.

Síðan er enn einn útgjaldaliðurinn sem á eftir að meta en það er endurfjárþörf Seðlabankans sem gæti numið um 150 milljörðum. Svo er það sem er nú kannski sárast af öllu og það er að við skulum hafa tekið að okkur að greiða út lágmarksskuldbindingar varðandi Icesave-reikningana þvert á ráðleggingar frá helstu lagasérfræðingum okkar sem sögðu að það væru engar lagalegar forsendur fyrir því að við þyrftum að taka á okkur þessar gríðarlegu fjárhæðir. Talan er upp á 660 milljarða. Það kom fram fyrir nokkrum vikum að eignir Landsbankans í Bretlandi mundu kannski koma á móti þannig að skuldirnar yrðu á endanum kannski um 200 milljarðar. En ég held að það sé afar varlega áætlað og tel að því miður megi reikna með því að þær verði 300–400 milljarðar þegar allt verður komið saman.

Fulltrúi Framsóknarflokksins í fjárlaganefnd og fulltrúi Vinstri grænna í fjárlaganefnd lögðu fyrir spurningar til þess að fá úr skorið hvert væri í rauninni framhaldið eftir þetta fjárlagafrumvarp. Því miður voru svörin vægast sagt fátækleg.

Hvað með nýja þjóðhagsspá? Af hverju er hún ekki komin fram? Nú eru gerbreyttar aðstæður. Er ekki brýn þörf á því að hér sé gerð þjóðhagsspá þar sem kæmi fram hvaða forsendur við Íslendingar værum að vinna með í framtíðinni? Svo er líka kannski það sem ég hnýt um og finnst í rauninni algerlega ótrúlegt að sé verið að gera. Það er hvernig búvörusamningar við bændur verða meðhöndlaðir. Það sem þeir gerðu, mjólkursamningurinn og sauðfjársamningurinn, var einfaldlega til þess að sauðfjárbændur gætu séð fram í tímann því hvaða atvinnustarfsemi sem er þarf að sjá fram í tímann, þarf að geta áttað sig á því í nokkur ár hvaða skref ríkisstjórnin ætli að stíga. Margir bændur fjárfestu í þessum búvörusamningum. Endurfjármögnuðu sig, skiptu út tækjum og tólum til þess að matvælaframleiðslan yrði hagkvæmari hér á landi og til hagsbóta okkar neytendum. Nú á að taka þá upp. Nú á að endurskoða þá og því miður sjáum við fram á að þar verður um skert framlög um að ræða.

Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra. Það er komið vel yfir miðnætti og í sjálfu sér dapurt að horfa fram á að svona mikilvæg mál séu rædd í skjóli nætur. Það er þvert á það sem var fullyrt að yrði gert þegar ný þingsköp voru samþykkt fyrir um ári en því miður þurfum við að horfa upp á að það eins og annað hefur verið svikið og ekki reynst eins og það átti að duga.