136. löggjafarþing — 58. fundur,  16. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[00:36]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Það er eiginlega bara alveg hreint við hæfi að hér sé verið að ræða þetta frumvarp í skjóli nætur og inn í nóttina. Sú afurð sem hér er á borðum þingmanna er afleiðing þess sem ríkisstjórnin hefur verið að bauka við á bak við þing og þjóð allt frá því að bankahrunið varð í byrjun október.

Stjórnarliðum er nokkur vorkunn. Ég neita því ekki að það hlýtur að vera óþægileg tilfinning fyrir hv. formann fjárlaganefndar Alþingis og varaformann fjárlaganefndar sem hér hafa setið lengst af í dag og í kvöld að hafa setið og beðið og beðið vikum saman eftir því að fá þennan pakka sem hér liggur á borðum frá ríkisstjórninni sem fékk hann aftur hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Ég kallaði þetta kranafjárlög fyrr í dag. Það er ekki að sjá að fjárlaganefnd hafi komið nærri þessu nýja frumvarpi sem hér liggur á borðum þingmanna. Það eru nákvæmlega teknar tillögurnar frá ríkisstjórn rétt eins og um nýtt frumvarp væri að ræða. Ég tek undir með þeim sem hafa talað hér fyrr í umræðunni og bent á að það væri nær að hæstv. fjármálaráðherra mælti fyrir þessu plaggi og að tryggt væri að þetta nýja fjárlagafrumvarp sem við erum hér að ræða færi í gegnum þrjár umræður. Frumvarpið sem lá hér fyrir við 1. umr. er löngu úrelt og ekkert að marka. Það sem við fáum núna er að mörgu leyti mjög óljóst og ég mun í máli mínu á eftir beina nokkrum spurningum til hv. formanns fjárlaganefndar um nokkur atriði, sérstaklega safnliði á sviði heilbrigðismála, sem ég held að væri þarft að upplýsa.

Ég sagði áðan að stjórnarliðum væri nokkur vorkunn og margir þeirra hafa hér í dag reynt að beina athyglinni annað, gert kröfur um að við sem gagnrýnum þann blóðuga niðurskurð sem hér er á ferð kæmum með tillögur um „eitthvað annað“. Við höfum ekki forsendur til þess. Við höfum ekki séð þær. Við höfum ekki fengið aðgang að þeim. Þetta er afurð þess sem ég leyfi mér bara að kalla myrkraverk ríkisstjórnarinnar á undanförnum mánuðum. Allt á bak við þing og þjóð. Þar er ég að vísa til samkomulagsins við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og þar er ég ekki síður að vísa til hnjáliðamýktarinnar gagnvart Evrópusambandinu sem birtist í því að ríkisstjórnin kyngdi kröfum Breta og Hollendinga undir þrýstingi Evrópusambandsins um að standa skil á öllum Icesave-skuldunum. Ég segi öllum Icesave-skuldunum því að vegna þess að svo lengi sem hryðjuverkalögunum er ekki aflétt og svo lengi sem eignir Landsbankans eru kyrrsettar, eignir íslensku bankanna, í Bretlandi er það fyrir mér merki um að Bretarnir muni nota þær eignir til að dekka bilið frá 20 þús. og eitthvað evrum upp í þær 50 þús. evrur sem Bretarnir hafa sjálfir lýst yfir að þeir muni standa mönnum skil á. Ég hef með öðrum orðum, herra forseti, ekki minnstu trú á því að það komi króna frá eignum bankanna í Bretlandi upp í 660 milljarða kr. skuldina.

Í því fjárlagafrumvarpi sem hér liggur fyrir er vel að merkja hvergi gert ráð fyrir því að greidd verði króna, ekki úr ríkissjóði, ekki einu sinni í lántökugjald og ekki einu sinni í vexti af þessum 660 milljörðum kr. Jafnvel þótt það væri lægri fjárhæð er það undarlegt.

Það er rétt sem hv. þm. Pétur Blöndal, formaður efnahags- og skattanefndar, benti á fyrr í kvöld, það er hvergi heldur gert ráð fyrir þeim 385 milljörðum kr. sem fyrirhugað er að leggja inn í bankana sem eigið fé í febrúar nk. Það er hvergi að finna í frumvarpinu. Mig langar til að spyrja hv. formann fjárlaganefndar hvernig standi á því.

Það er heldur ekki gert ráð fyrir þeim 150 milljörðum kr. sem fyrirhugað er að setja í endurfjármögnun á Seðlabankanum. Það er hvergi stafkrók að finna fyrir þeim fjármunum í þessu frumvarpi. Og loks er hvergi að finna neitt um vaxtagreiðslur af öllum þessum lánum. Það sem ég hef nú talið er ein landsframleiðsla eða svo, u.þ.b. 1.200.000 millj. kr. — 1.200.000.000.000 kr. sem hvergi er gerð grein fyrir í þessu frumvarpi en svo koma menn hér og stæra sig nánast af því að skera niður svo sem eins og milljón hér og milljón þar og leggja á 1.100 millj. í nýja sjúklingaskatta.

Ég verð að segja, herra forseti, að mér kemur mjög á óvart að formenn stórra þingnefnda skuli ekki hafa tekið þátt í umræðum hér í dag. Ég fylgdist náið með því að hv. formaður heilbrigðisnefndar, Ásta Möller, var á mælendaskrá lengi vel í dag. Það var undarlegt að fylgjast með mælendaskránni því að hv. þingmaður fluttist niður eftir henni í takt við það hvernig hún styttist og endaði á því að hverfa alveg út af mælendaskránni. Það hefur því hvergi verið mælt fyrir þeim gríðarlegu niðurskurðartillögum sem hér eru á ferðinni í heilbrigðismálum. Það hafa engar skýringar verið gefnar á því misræmi sem er í yfirlýstri stefnu og vinnu heilbrigðisnefndar fram til þessa dags og til þess plaggs sem hér liggur fyrir. Sama er upp á teningnum varðandi hv. iðnaðarnefnd þar sem ég á líka sæti. Formaður þeirrar nefndar hefur ekki tekið þátt í þessum umræðum.

Mig langar til að byrja á því að nefna aðeins iðnaðarmálin, hvað hér er á ferðinni. Hér er gerð tillaga um að lækka niðurgreiðslur á húshitun á köldum svæðum. Niðurgreiðslur á hitun íbúðarhúsnæðis eiga að lækka um 200 millj. kr. Ég hefði gjarnan viljað spyrja hv. formann iðnaðarnefndar hvernig þetta hugnast Samfylkingunni og henni því að þarna er farið lengra aftur en til framlaga á árinu 2007. Það var gert ráð fyrir því að framlagið hækkaði á milli ára um 150 millj. kr. en niðurskurðurinn nemur 200 millj. kr. Það hefði verið athyglisvert að heyra hvernig fyrirhugað er að skera niður vistvæna orkugjafa í næsta lið í iðnaðarráðuneytisfjárlögunum. Ég hefði líka viljað spyrja hv. formann iðnaðarnefndar hvernig það fer saman við fyrirhugaða uppbyggingu sem allir eru sammála um að sé nauðsynleg í ferðaþjónustu á þessu landi — ef við ætlum að afla gjaldeyris er ferðaþjónustan eitt af því sem menn horfa til — að skera niður framlög til Ferðamálastofu um 15,5 millj. kr.

Það hefði líka verið mjög athyglisvert að heyra svar frá hv. formanni iðnaðarnefndar — sem ekki hefur tekið þátt í þessari umræðu hér í dag — við þeirri spurningu hvernig það samrýmist stefnu Samfylkingarinnar og hæstv. iðnaðarráðherra um nýsköpun og sprotafyrirtæki og stuðning við þau að skera framlag til Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands niður um ríflega 22 millj. kr.

Auðvitað samrýmist þetta engan veginn yfirlýsingum, ég tala nú ekki um kosningaloforðum, þessa flokks sem ég hef hér gert að umtalsefni, Samfylkingunni, langt í frá. Ég leyfi mér að efast um að hv. þingmenn Samfylkingarinnar hafi séð þetta plagg eða skoðað. Þegar hv. fjárlaganefnd treystir sér ekki til þess að gera minnstu athugasemd eða breytingu á því sem kemur frá ríkisstjórninni er þess ekki að vænta að almennir þingmenn í öðrum nefndum, þótt formenn séu, hafi haft þar eitthvað um að segja.

Ég ætla í þessari tölu að fjalla um heilbrigðismálin og hvernig þau eru meðhöndluð í þessum tillögum. Heilbrigðismál eru skorin niður um 6.900 millj. kr. samkvæmt því frumvarpi sem hér liggur fyrir við 2. umr. Þar er auðvitað fyrst til að nefna Landspítalann sem skal skorinn niður samkvæmt þessu frumvarpi um 1.740 millj. kr., 1,7 milljarða. Það er sérkennilegt að hægri höndin á þessari ríkisstjórn veit ekki hvað sú vinstri gjörir því að í dag var dreift á Alþingi frumvarpi til fjáraukalaga þar sem gert er ráð fyrir því að Landspítalinn fái 1.550 millj. kr., m.a. og einkum vegna halla frá fyrra ári og því yfirstandandi. Það er fyrirhugað að greiða niður í fjárauka 2/3 af hallarekstrinum á Landspítalanum. Þetta eru 1.550 millj. kr. en á næsta ári á að skera spítalann niður um 1.740 millj.

Fagstéttir sem auðvitað vita og þekkja manna best hvernig peningum er varið á spítalanum hafa lýst miklum efasemdum um að hægt verði að komast hjá uppsögnum ef framlögin til heilbrigðismála almennt verða skorin svona mikið niður og til Landspítalans sérstaklega. Þetta gerist, eins og bent hefur verið á, á sama tíma og til að mynda Læknafélag Íslands hefur fullyrt að kreppan sem við upplifum núna kalli á aukin framlög til heilbrigðismála en ekki skerðingu.

Það er athyglisvert að sjá í Fréttablaðinu í dag viðtal við nýráðinn forstjóra Landspítalans sem segir um þennan harkalega niðurskurð upp á 1.740 millj. kr. á næsta ári að hún geti ekki lofað því á þessum tímapunkti að allir haldi vinnunni, það sé bara þannig, lögð verði áhersla á tilfærslu legudeildaþjónustu til göngu- og dagdeilda og síðan sé rekstusr á endurhæfingar- og öldrunardeildum til skoðunar.

Síðan segir forstjórinn, með leyfi forseta:

„Kjarnastarfsemi sjúkrahússins er meðhöndlun sjúklinga.“

Og síðar:

„Hulda segir að útboð verkefna sem lúta ekki að kjarnastarfsemi sjúkrahússins sé til skoðunar. „Þegar við tölum um hugsanleg útboð verkefna, svo ég sé alveg hreinskilin, getur það þýtt atvinnumissi þeirra sem starfa á okkar vegum að viðkomandi verkefnum.““

Þetta segir forstjóri Landspítalans og það er ekki nema von. Auðvitað sér hver heilvita maður að 1.740 millj. kr. niðurskurður á Landspítala Íslands þar sem yfir 70% af öllum útgjöldum eru laun kallar á uppsagnir og ekkert annað. En það kallar líka á að það sé skilgreint hvað er kjarnastarfsemi ef menn ætla að fara í það að úthýsa einhverju sem ekki er kjarnastarfsemi. Hér í þessu viðtali eru nefndar m.a. endurhæfingardeildir og öldrunardeildir, ef það er ekki kjarnastarfsemi á sjúkrahúsinu á að útvista því. Það er ekkert nýtt. Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur lagt sig í framkróka við það að bjóða út þjónustu við aldraða til einkaaðila, það hefur verið stefna hæstv. ráðherra. Afleiðingarnar af því eru auðvitað skýrar, við búum við óuppsegjanlegan samning við Sóltún til 25 ára, samning sem mikil óánægja er með á báðum vígstöðvum en ekkert er hægt að hreyfa. Þetta var flaggskipið í einkavæðingunni, þetta var samningurinn sem átti að vera fyrirmynd að öllum öðrum slíkum samningum.

Næsti samningur sem var gerður um þjónustu við aldraða var við Heilsuverndarstöðina ehf. Hún fór bara því miður á hausinn. Og hvað gerðist? Upp undir 30 sjúklingum var hent út. Tveir eða þrír fengu inni á Grund, einn eða tveir á Landakoti, hinir bara fóru heim til sín. Starfsemin var boðin út aftur, Hrafnista átti lægsta tilboðið en það hefur ekki verið talað við Hrafnistu. Það kom fram í fréttum í gær að það er ekkert útlit fyrir að það verði gengið til samninga við Hrafnistu þannig að tekin verði upp þjónusta við þennan hóp fólks fyrr en í febrúarmánuði eins og ráðherra hefur sagt þó að Hrafnista hafi möguleika á því að taka fólkið fyrr.

Þegar þjónustu við hópa sem eiga að eiga sér skjól í velferðarþjónustunni okkar, í heilbrigðisþjónustunni, í menntakerfinu, er hent út á akurinn til einkaaðila sem eru í rekstri til að hafa af honum hagnað, sem reynist svo ekki nægur og viðkomandi fyrirtæki fara á hausinn er þeim hópum sem þangað var vísað hent út á guð og gaddinn. Um þetta höfum við nýleg dæmi í Reykjavík við gjaldþrot Heilsuverndarstöðvarinnar ehf.

Þarna varðar þetta frumvarp veginn með niðurskurði á Landspítalanum. Orð nýráðins forstjóra staðfesta að öldrunardeildir og endurhæfingardeildir muni lenda í útvistun á undan annarri starfsemi sem þá er kölluð kjarnastarfsemi. Þetta tel ég mjög brýnt að hv. heilbrigðisnefnd fjalli um og það verði tekið á því hvað er kjarnastarfsemi. Ef það er eitthvað sem á að skera utan af, ef það er eitthvert fitulag sem hægt er að skera utan af Landspítalanum er það á vegum heilbrigðisnefndar og þings að athuga og ákveða hvar það liggur.

Hér er ekki aðeins niðurskurður á ferðinni við Landspítalann. Ég var að ræða öldrunardeildir og það er líka mikill niðurskurður á öldrunardeildum. Forstjóri Hrafnistu nefnir það einmitt í blaðaviðtali í dag, ef ég man rétt, þó að ég finni ekki blaðið á borðinu hjá mér, að niðurskurður á framlögum til Hrafnistu um 300 millj. kr. sé aðför að þjónustu við aldraða. Ég get tekið undir þau orð Péturs forstjóra, þessi niðurskurður er aðför að þjónustu við aldraða.

Menn eru sammála um að heilsugæsla sem fyrsti viðkomustaður í heilbrigðisþjónustunni sé mjög mikilvægur til þess m.a. að spara í heilbrigðisþjónustu. Við vitum að á höfuðborgarsvæðinu hefur heilsugæslan ekki verið byggð upp á sama hátt og úti um land, hér fara miklum mun fleiri beint til sérfræðings og jafnvel beint inn á bráðadeildir sjúkrahúsa í stað þess að fara í gegnum heilsugæsluna, einfaldlega vegna þess að hér eru um 8.000 manns sem eru hvorki skráðir hjá heilsugæslustöð né heilsugæslulækni. Þetta er gríðarlega dýrt fyrir samfélagið og eykur mjög á kostnað ríkisins, og reyndar einstaklinga líka, við heilbrigðisþjónustu. Einhver hefði haldið að þegar svo árar sem nú er, að menn þurfi að skera niður og spara, yrði heilsugæslunni hlíft og jafnvel frekar reynt að auka við framlög til hennar og styrkja hana til þess að fá tækifæri til að spara miklum mun stærri fjárhæðir.

Herra forseti. Það er langt í frá að svo sé.

Þó að heilsugæslan, ég vil sérstaklega nefna Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, sé í rauninni lykillinn að auknum sparnaði í heilbrigðisþjónustunni skal þar skorið grimmt. Þannig er það í þessu frumvarpi, herra forseti, að það á að skera niður um 280 millj. kr. á næsta ári beint úr Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Og enn veit hægri höndin, niðurskurðarhöndin, ekki hvað sú vinstri gjörir því að í frumvarpi til fjáraukalaga, sem hér var dreift í dag, er gert ráð fyrir því að borga niður halla á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins upp á 450 millj. kr. Það eru um tveir þriðju af halla stofnunarinnar eftir síðasta ár og þetta.

Hér er skorið grimmt á næsta ári og sama má segja um Akureyri þar sem gert er ráð fyrir að í samningnum við Akureyrarbæ um heilsugæsluna verði framlög skert um ríflega 20 millj. kr.

Fyrir utan það sem ég hef nefnt, um niðurskurð í heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu, er skorið niður, væntanlega eitthvert svipað hlutfall, til hinna einkareknu heilsugæslustöðva sem eru tvær á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. í Salahverfi í Kópavogi og í Lágmúla í Reykjavík. Þar eru skornar niður samtals um 13 millj. kr. Allt í allt er niðurskurður í heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu því um 300 millj. kr. á næsta ári. Það, herra forseti, er fráleit aðför að þeim sem þurfa að nota þjónustuna og hindrar uppbyggingu á heilsugæslunni sem fyrsta staðarins sem fólk leitar til í heilbrigðisþjónustu, en á það hafa menn einmitt lagt áherslu á undanförnum árum.

Ég vil gera athugasemd og spyrja hv. formann fjárlaganefndar um sérstakan safnlið sem er númer 08-379 og heitir Sjúkrahús, óskipt. Hvernig stendur á því að um 1.000 millj. kr., að því er mér sýnist, eru fluttar inn á þennan safnlið til ráðstöfunar fyrir ráðuneytið og ráðherra, ekki aðeins af heilbrigðisstofnunum og sjúkrahúsum heldur einnig af heilsugæslunni hér á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri og annars staðar þar sem heilsugæsla er rekin óháð sjúkrahúsþjónustu?

Í þeim liðum þar sem gerð er grein fyrir þessum tilflutningi fjármuna segir eins og hér í lið 08-506, sem er Heilsugæsla á höfuðborgarsvæðinu, að gert sé ráð fyrir að 68,8 millj. kr. verði teknar af heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu, með leyfi forseta:

„ … sem flutt er á sérstakan safnlið 08-379 til endurráðstöfunar til heilbrigðisstofnana. Í heilbrigðisráðuneytinu er unnið að endurskipulagningu heilbrigðisstofnana. Stefnt að því að ein heilbrigðisstofnun verði í hverju heilbrigðisumdæmi á landsbyggðinni. Gert er ráð fyrir að verkefni flytjist á milli stofnana og umdæma og verði fjárheimildir á liðnum nýttar í þeim tilgangi.“

Herra forseti. Ég fæ ekki betur séð en hér sé verið að flytja um 1.000 millj. kr. til ráðstöfunar til ráðherra til þess að fylgja eftir mjög svo umdeildri skiptingu landsins í heilbrigðisumdæmi með það að markmiði að ein heilbrigðisstofnun verði í hverju umdæmi á landsbyggðinni. Ekki er verið að flytja fé innan þessara heilbrigðisumdæma eða innan landsbyggðarinnar heldur er, eins og ég hef bent á, verið að taka yfir 500 milljónir í þessum tilgangi af Landspítala og tæpar 70 milljónir af heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu. Ég vil spyrja hv. formann heilbrigðisnefndar hvernig á þessu stendur og hvernig ráðstafa eigi þessu fjármagni, hvort honum finnist eðlilegt að til uppbyggingar einnar heilbrigðisstofnunar í hverju heilbrigðisumdæmi á landsbyggðinni sé tekið fjármagn úr heilsugæslunni á Akureyri, úr heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu. Ég tel að þetta sé fráleit aðför að heilsugæslunni til viðbótar við það sem ég nefndi áðan, að verið er að loka augunum fyrir því hversu mikið getur sparast ef heilsugæslan er efld.

Ég nefndi í andsvörum fyrr í dag að með frumvarpinu er lagt til að 1.100 millj. kr. verði lagðar á sjúklinga sem nýir skattar, 360 millj. kr. af þeirri fjárhæð eru vegna innlagna á sjúkrahús. Nú ber svo vel í veiði að á þessum fundi hefur verið dreift svokölluðum bandormi sem er frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum og er að finna á þskj. 357, 243. mál. Þar kemur fram nokkur skýring á þessum sjúklingaskatti því að í X. kafla frumvarpsins er gerð tillaga um að inn í 29. gr. laga um sjúkratryggingar, sem er gjaldtökuheimildargreinin, verði bætt að heimilt sé að taka gjald vegna innlagnar á sjúkrahús. Tekið er fram að ekki skuli tekið gjald vegna innlagnar á fæðingardeild og jafnframt að gjald fyrir þjónustu skuli vera lægra hjá öldruðum, öryrkjum og börnum. En, herra forseti, hér er brotið í blað. Verið er að taka upp aðgangseyri inn á sjúkrahúsin í landinu. Ég vil spyrja: Hversu hátt á þetta gjald að vera og hver á að ákveða það?

Í því frumvarpi til fjárlaga sem hér liggur fyrir við 2. umr. er gert ráð fyrir því að sjúklingaskattur geti verið breyting á komugjöldum og/eða upptaka fæðisgjalds á heilbrigðisstofnunum. Bandormurinn sker úr um það að ætlunin er að taka upp innlagnargjald, komugjald, á sjúkrahús en ekki fæðisgjald. Þetta eigum við eftir að ræða betur þegar þessi bandormur kemst á dagskrá en óhjákvæmilegt er, herra forseti, að lesa það sem segir í bandorminum, í greinargerð um 17. gr., sem fjallar um komugjaldið. Þar segir, með leyfi forseta:

„Með töku komugjalds vegna innlagnar á sjúkrahús skapast meira samræmi og jafnræði í gjaldtöku, enda er tekið komugjald vegna komu á slysadeild, bráðamóttöku og göngudeild auk gjalds vegna rannsókna hjá þeim sem ekki eru inni liggjandi.“

Það er satt og rétt að á síðustu árum hefur verið seilst æ dýpra í vasa sjúklinga og þeirra sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda. Það hefur þó ekki verið áður að menn hafi þurft að borga sig inn á sjúkrahúsin eins og inn á hótel. Ég geri lítið með það, herra forseti, þó að fyrirhugað sé að gjald fyrir börn, öryrkja og aldraða verði eitthvað lægra. Ég velti því fyrir mér, jafnvel þótt ekki verði heimilað samkvæmt frumvarpinu að taka gjald vegna innlagnar á fæðingardeild, hvort fyrirhugað er að taka gjald vegna innlagnar á meðgöngudeild. Ég velti því fyrir mér hvort fyrirhugað er að taka gjald fyrir nýbura sem þarf að fara á vökudeild. Hvert eru menn komnir þegar fólk þarf að fara að slíta upp budduna þegar það er komið inn á sjúkrahúsgang?

Það er dapurlegt að horfa upp á þetta. Ég nefndi það hér fyrr í kvöld, og það er staðreynd sem ekki verður í móti mælt, að OECD hefur ítrekað gert tillögur um að tekin verði upp gjaldtaka á sjúkrahúsunum. Við höfum haft hér í lögum ákvæði um að dvöl á sjúkrahúsi skuli vera gjaldfrjáls og við settum það síðast í lög þann 10. september sl. að dvöl á sjúkrahúsum skuli vera gjaldfrjáls. En hér er gerð tillaga um að þeir sem leggjast inn á sjúkrahús skuli borga 360 millj. kr. á næsta ári.

Ekki nóg með það, herra forseti, það er líka gert ráð fyrir því að 730 millj. kr. verði lagðar aukalega á sjúklinga í auknum lyfjakostnaði. Það er að finna í tveimur liðum í frumvarpinu sem hér liggur fyrir. Það skal breyta greiðsluþátttöku sjúkratrygginga í lyfjum þannig að hún taki mið af ódýrasta lyfi í viðkomandi lyfjaflokki. Þar eiga að sparast 320 milljónir. Síðan á að hækka lágmarksgjald sjúkratryggðra fyrir lyf. Þannig á að taka af sjúklingum sem þurfa á lyfjum að halda 410 millj. kr.

Samtals er því hér um að ræða, herra forseti, 1.100 millj. kr. nýja sjúklingaskatta. Ég hlýt að kalla eftir því hvað hv. formaður fjárlaganefndar segir um þetta atriði. Eins og ég sagði þá sakna ég þess að hv. formaður heilbrigðisnefndar hefur ekki treyst sér til að taka þátt í umræðum hér í dag. Þetta er eitt af því sem ég hefði svo sannarlega viljað spyrja hann um.

Bandormurinn sem hér var kynntur í kvöld tekur til miklu fleiri liða en þeirra sem ég nefndi, þetta var innan við milljarður sem ég var hér að nefna. Hann tekur til 45 milljarða kr. niðurskurðar. Ég vil taka undir það sem hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði hér í kvöld að það að menn skuli standa hér blóðugir upp að öxlum í niðurskurði í velferðarþjónustunni og setja á sjúklingaskatta með þessum hætti til þess að skera hallann á ríkissjóði úr 205 milljörðum niður í kannski 160–170 er smáatriði og smánarlegt með tilliti til þess hvað vantar í fjárlagafrumvarpið. Vextirnir einir og sér af því sem fyrirhugað er að taka að láni geta á næsta ári numið einhvers staðar á bilinu 70–100 milljörðum kr. Ekki er stafkrókur í fjárlagafrumvarpinu um það hvernig á að mæta því, ekki til í því, heldur horfa menn á matarholur í velferðarkerfinu og í heilbrigðisþjónustunni. Þar eru menn að leita að brauðmolum til þess að safna upp í niðurskurðinn fyrir Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

Ekki er nema von að hæstv. ríkisstjórn og ráðherrar reyni að beina athygli fjölmiðla og landsmanna að öðru en verkunum sem þeir standa í hér á hv. Alþingi á hverjum degi, reyni að beina athyglinni að stólaskiptum, að einhverri andlitslyftingu á ríkisstjórninni eða lýtaaðgerð, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kallaði það hér í dag.

Það hefur verið sagt að endurnýja þyrfti stjórnarsáttmálann og ég held að það væri ágætt að ljúka þessari ræðu minni, herra forseti, með því að rifja aðeins upp nokkur atriði úr stjórnarsáttmálanum, til að mynda það sem segir um barnvænt samfélag, að fæðingarorlofið verði lengt í áföngum. Bandormurinn, sem ég nefndi áðan, gerir ráð fyrir því að skera niður um 400 millj. kr. í fæðingarorlof á næsta ári.

Í liðnum Hvetjandi skattaumhverfi er nefnt að stefnt skuli að frekari lækkun skatta á einstaklinga á kjörtímabilinu, m.a. með hækkun persónuafsláttar. Hvað þýðir það? Það þýðir jöfnuður í skattkerfinu. Hér er þvert á móti verið að fara í átt til ójafnaðar þvert á það sem segir í stjórnarsáttmálanum.

Ekki er nóg, herra forseti, að skipta um einn eða tvo eða þrjá eða fjóra ráðherra í ríkisstjórninni. Það er ekki nóg að gefa ríkisstjórninni andlitslyftingu og það er ekki nóg að breyta stjórnarsáttmálanum eða endurskapa hann eins og oddvitar stjórnarflokkanna hafa sagt. Nei, herra forseti, það þarf að skipta um ríkisstjórn og það þarf að leyfa þessari þjóð að kjósa, kjósa þessa vondu ríkisstjórn burt.