136. löggjafarþing — 58. fundur,  16. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[02:03]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Gunnar Svavarsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil hér í lokin eftir 15 klukkutíma ræðuhöld þakka ræðumönnum, hv. þingmönnum, fyrir málefnalegur ræður í allan dag. Farið hefur verið yfir mjög vítt svið, menn hafa litið í allar áttir í ræðum sínum, komið víða við og vissulega má segja að umræðan um fjárlögin að þessu sinni, 2. umr., sé mjög sérstök. Ég efa að nokkru sinni áður hafi álíka umræða verið og hér hefur verið í dag.

Ég ætla ekki að afsaka það á einn eða neinn hátt. Ég hef sagt að ég beri fulla ábyrgð á því að meirihlutaálitið er með þessum hætti. Tekin var ákvörðun um það af meiri hlutanum að taka tillögur ríkisstjórnarinnar sem bárust í síðustu viku beint inn í álitið og leggja þær hér fram í umræðuna. Það er ákvörðun sem við stöndum við og væntanlega verður síðan gengið til atkvæða um þessar tillögur síðar í vikunni.

Margt er vissulega óljóst í umræðunni og fram kemur í nefndarálitinu að von sé á því að þeir hlutir komi fram við 3. umr. Einnig kom hér fram á þinginu í dag hvort tveggja fjáraukalagafrumvarp fyrir árið 2008 og títtnefndur bandormur sem varpaði örlítið betra ljósi á það umhverfi sem við fjöllum um.

Ég ítreka þakkir mínar til nefndarmanna, ekkert síður nefndarmanna í minni hluta fjárlaganefndar, stjórnarandstöðunnar, og ekki hvað síst starfsfólks Alþingis sem hefur aðstoðað hvoru tveggja, meiri og minni hluta við störfin á umliðnum vikum. Ég ítreka þakkir mínar til hv. þingmanna fyrir málefnalega umræðu í dag þar sem ég hef orðið vitni að og verið upplýstur um fjölmargt sem ég vissi ekki áður.