136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

niðurskurður í mennta- og heilbrigðismálum.

[14:12]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Því er ekki að neita að erfiðir tímar eru fram undan. Mig langar þó að setja nokkrar staðreyndir í samhengi við þá umræðu sem hér er um heilbrigðismál. Gert er ráð fyrir 11 þús. millj. kr. meira í heilbrigðismál núna heldur en það sem við settum í heilbrigðismál í síðustu fjárlögum. Þetta er gert þrátt fyrir að við stöndum frammi fyrir einni dýpstu kreppu sem dunið hefur á Íslandi fyrr og síðar — 11 þús. millj. meira í heilbrigðismál núna heldur en við settum í síðustu fjárlög.

Frá því að þessi ríkisstjórn tók við völdum hefur margt jákvætt gerst í heilbrigðismálum. Mun fleiri fá núna þjónustu BUGL en nokkurn tíma áður. Fráflæðisvandinn á Landspítalanum, þ.e. sá fjöldi fólks sem býr á spítalanum, er nánast úr sögunni. Ráðist hefur verið í markvissa aðgerð á sviði lyfjamála og síðasta haust hafði lyfjakostnaður lækkað um einn milljarð króna. Fjármagn til heimahjúkrunar átti að aukast um helming frá árinu í fyrra en fjármagnið fyrir þetta ár var sex sinnum hærra en það sem varið var í heimahjúkrun 2005. Biðlistar hafa styst. Bið eftir hjartaþræðingu hefur styst hvað mest samkvæmt upplýsingum frá landlækni. Sameining heimahjúkrunar og félagslegrar þjónustu í Reykjavík er núna að verða að veruleika. Við höfum sett löggjöf um stofnfrumurannsóknir, náð samningum við hjartalækna. Nú í fyrsta skipti er verið að styðja sálfræðiþjónustu fyrir börn.

Þessi upptalning sýnir að heilbrigðismál hafa verið í forgangi í þessari ríkisstjórn en því er ekki að neita að við stöndum frammi fyrir mjög erfiðum tímum. Tekjur ríkisins eru að lækka mjög hratt. Þess vegna reynum við að mæta þessum vanda með annars konar forgangsröðun, við reynum að verja velferðina og höfum reyndar fengið þá gagnrýni að skera ekki nógu mikið niður. En það er ábyrgðarhluti að gera eins og Vinstri grænir að vísa nauðsynlegum niðurskurði á framtíðarkynslóðir ef það er tillaga Vinstri grænna. Við þurfum að taka á þessum vanda sjálf með réttri forgangsröð þar sem velferðin er í forgrunni við þessar afskaplega erfiðu aðstæður.