136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

niðurskurður í mennta- og heilbrigðismálum.

[14:16]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Það er augljóst að hv. formannsefni Framsóknarflokksins, Höskuldur Þórhallsson, er svo upptekinn við kosningabaráttuna að hann fylgist ekkert með því sem er að gerast. Hv. þingmaður kemur hingað og hefur augljóslega ekki lesið fjárlagafrumvarpið þó að hann kjósi að nota þennan ræðustól til þess að tala um það. Hv. formannsefni ræðir um hvað verið sé að gera til þess að efla rannsóknir fyrirtækja.

Það vill svo til, herra forseti, að þessi ríkisstjórn hefur t.d. gert samning við Atvinnuleysistryggingasjóð sem gerir það að verkum að sprotafyrirtækjum sem eyða verulegum hluta af sinni veltu í rannsóknir hefur nú tekist að ráða til sín næstum því 300 nýja starfsmenn. Skiptir það ekki máli, hv. formannsefni? Skiptir það ekki máli að á sama tíma og hér er verið að skera niður vegna kreppu eru menn samt sem áður að láta ósnert það sem fer til rannsókna í gegnum Rannsóknarsjóð og ekki bara það, það er verið að auka framlagið?

Hv. formannsefni ætti kannski að kynna sér stöðu Tækniþróunarsjóðs. Þar er ekki verið að skera þar niður, þar er verið að auka við um nærfellt 100 milljónir. Þetta ætti formannsefnið að kynna sér áður en hann fer og ber sér á brjóst yfir því hvað hann veit mikið um vonsku þessarar ríkisstjórnar. Það, herra forseti, er ekki vænlegt fyrir formannsefnið ætli hann sér að ná einhverju brautargengi í hinum ágæta flokki Framsóknarflokknum. Menn verða að vita hvað þeir tala um áður en þeir koma og belgja sig út.

Ég kom hingað hins vegar [Hlátur í þingsal.] til þess að svara hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur sem var með málefnalega gagnrýni og álasaði ríkisstjórninni fyrir að hafa staðið fyrir niðurskurði til menntamála. Það er samt sem áður þannig að það er ekki hægt að halda því fram að verið sé að draga úr möguleikum fólks til þess að koma í háskólana. Það hafa aldrei jafnmargir stundað nám í háskólum og núna, það er staðreyndin. Það hefur aldrei verið jafnmikið átak í að lyfta menntunarstigi þjóðarinnar og (Forseti hringir.) núna. 1.500 nýir nemar hafa skráð sig í háskólana. Það hlýtur að skipta máli. (Gripið fram í.)