136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

niðurskurður í mennta- og heilbrigðismálum.

[14:19]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það er vissulega ábyrgðarhluti að fjalla um fjárlög en það er líka ábyrgðarhluti að skuldbinda komandi kynslóðir til að greiða allar skuldir bankanna, til þess að greiða Icesave-skuldbindingarnar. Mér finnst það satt að segja vera stærsti ábyrgðarhlutinn hér og það er fullkomlega eðlilegt að við reynum að sporna gegn því að verið sé að skera niður menntamál og menningarmál um 4,4 milljarða.

Þó að það sé vissulega rétt sem sagt hefur verið að þau framlög hafi aukist á undanförnum árum er nú ekki lengra síðan en í síðustu viku að við ræddum frumvarp til laga um fullorðinsfræðslu þar sem fram kom að menntastig hér á landi er lágt, lægra en í þeim löndum sem við berum okkur saman við, og innbyrðis munur í menntakerfinu er mikill. Þess vegna finnst mér þetta alvarlegt mál.

Ég geri mér alveg grein fyrir því að þetta er ekki gert með neinni gleði í hjarta en mér finnst mjög mikilvægt að fólk átti sig á því að þessi fjárlög eru sett í því samhengi að íslenskur almenningur er að greiða skuldir, skuldir fjármálastofnana, skuldir banka. Það er hinn stóri ábyrgðarhluti. Mér finnst það líka ábyrgðarhluti ef þetta á að vera okkar leið út úr kreppunni að efla hér menntun, vísindi og rannsóknir að við týnum ekki þeim lykli, að við tálgum ekki undirstöðuna svo mikið að hún verði feyskin og byggingin hrynji ofan á okkur. Hættan með svona niðurskurði er að við göngum of langt. Þá óttast ég, virðulegi forseti, að við fremjum óafturkræf spjöll á menntakerfinu.

Ég nefndi áðan framlög til rannsókna í öllum háskólum sem hefur verið skotið á frest og ég nefndi lánasjóðinn. Það hlýtur að skipta máli fyrir þá nemendur sem vilja komast í nám núna í þessu atvinnuástandi sem fyrir hendi er að framlög til hans eru skorin um 1,5 milljarða. Ég get því ekki séð annað en að þetta sé ansi róttækur niðurskurður og það er líka ábyrgðarhluti.