136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

afbrigði um dagskrármál.

[14:36]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Þannig háttar til um þetta mál að því var dreift seint í gærkvöldi þegar hallaði mjög á kvöldið og styttist í miðnættið. Engu að síður eru í þessum bandormi að hluta til ákvæði sem varða lögheimildir vegna skerðinga og breytingartillögur eru fluttar um nú við 2. umr. fjárlagafrumvarps. En að hluta til eru þar á ferðinni atriði sem boðað er að muni koma við 3. umr. fjárlagafrumvarps. Það sannar að þessi svokallaða 2. umr. um fjárlagafrumvarpið var auðvitað ómarktæk og málin engan veginn tæk eða boðleg til umræðu.

Í reynd er á borðum þingmanna nýtt fjárlagafrumvarp, búið að henda hinu sem flutt var 1. október. Þetta nýja frumvarp frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og ríkisstjórninni kallar síðan á ýmsar skerðingar á lögum og nú loksins koma stjórnarliðar fram með þennan bandorm á eftir fjárlagafrumvarpinu og ætlast til að fá hann tekinn á (Forseti hringir.) dagskrá og til umræðu nánast fyrirvaralaust. Það er ekki boðlegt, virðulegi forseti, og væri eðlilegast að sérstaklega forseti Alþingis ýtti á rauða hnappinn og sýndi með því að hann vill ekki láta Alþingi bjóða Alþingi þessi vinnubrögð.