136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

afbrigði um dagskrármál.

[14:37]
Horfa

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Svo háttar til að stjórnarmeirihlutinn er einstaklega fjölmennur. Þar eru 43 þingmenn en stjórnarandstaðan hefur eingöngu 20. Stjórnarþingmenn hafa haft aðstöðu til og kynnt sér þau frumvörp sem koma fram af hálfu ríkisstjórnarinnar en við sem erum í stjórnarandstöðu erum rétt að sjá þau núna þegar dagur rennur þar sem frumvarpinu var dreift mjög seint í gærkvöldi. Mér finnst að ítrekað tekinn sé af mér lýðræðislegur réttur sem þingmaður á Alþingi Íslendinga þegar ríkisstjórnin kastar inn hverju stórfrumvarpinu á fætur öðru og það kom fram við umræður á fjárlögum í gær að þar hafi verið kastað inn tillögum og þær ekki fengist ræddar í fjárlaganefnd en ætlast var til þess að þetta yrði afgreitt á einu bretti.

Ég hef orðið þess áskynja að Alþingi Íslendinga hefur ekki frumkvæði heldur er þetta ríkisstjórnarmiðað þing. En það er útilokað að við sættum okkur (Forseti hringir.) við þau vinnubrögð að taka við öllu sem að okkur er rétt. Þess vegna segi ég nei.