136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[14:40]
Horfa

Magnús Stefánsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Umfang breytingartillagna við fjárlagafrumvarpið er með þeim hætti að í raun liggur fyrir nýtt frumvarp. Ég gagnrýni harkalega vinnubrögð við fjárlagagerðina. Fjárlaganefndin kom nánast ekkert að því verki. Það var alfarið unnið hjá ríkisstjórninni og tillögupakkanum var síðan skutlað inn í fjárlaganefnd formsins vegna. Það liggur ekki fyrir endurskoðun á mikilvægum áætlunum sem eru grunnforsendur frumvarpsins.

Fjárlaganefndin fékk lítinn tíma til að fjalla um frumvarpið og ég gagnrýni það. Það vantar allan rökstuðning meiri hlutans fyrir frumvarpinu og við þingmenn Framsóknarflokksins teljum ekki forsvaranlegt að Alþingi afgreiði tillögurnar við þær aðstæður og munum ekki greiða atkvæði við þessa atkvæðagreiðslu.

Herra forseti. Mér finnst frekar á ferðinni grínleikur en ábyrg vinnubrögð löggjafarvaldsins.