136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[14:47]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka varnaðarorð mín. Við erum að samþykkja 4,4 milljarða í niðurskurð á menntakerfinu. Ég ítreka varnaðarorð mín því þarna stöndum við frammi fyrir valkosti. Við þurfum að velta því fyrir okkur hvernig við komumst út úr þessari kreppu. Ég vara við því að við lokum ekki dyrum og ég óttast það, virðulegi forseti, að þessi niðurskurður gangi of nærri okkar góða menntakerfi, okkar góða vísindastarfi og við missum störf og möguleika á þekkingarsköpun og missum fólk úr landi af því að við göngum of nærri menntakerfinu. Því hef ég uppi þessi varnaðarorð hér þegar þessi niðurskurður verður samþykktur í þessari umræðu.