136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[14:53]
Horfa

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Mig langar til að leyfa mér í þessari atkvæðaskýringu minni að vitna til orða Runólfs Ágústssonar sem er framkvæmdastjóri fyrir nýstofnað háskólasetur, Keili á Suðurnesjunum en hann gagnrýnir þessa niðurskurðartillögu með svofelldum orðum, með leyfi forseta:

„Með fyrirhugaðri skerðingu á framlögum ríkisins til LÍN er verið að stofna til meiri kostnaðar annars staðar í ríkiskerfinu vegna þess að það er ódýrara fyrir ríkið að hafa fólk í námi en á atvinnuleysisbótum. Með fyrirhugaðri skerðingu eru möguleikar þeirra sem nú eru að hverfa af vinnumarkaði til að mennta sig skertir og sú hætta sköpuð að sumir þessara einstaklinga detti endanlega út úr atvinnulífinu og verði varanlegir þiggjendur samfélagsbóta. Með fyrirhugaðri skerðingu er dregið úr sveigjanleika þess vinnuafls sem við erum að missa af vinnumarkaði. Eftir 2–3 ár verður gott að fá inn stóra hópa af nýútskrifuðu fólki með fjölbreyttu námi af ýmsum skólastigum.“

Það er verið að koma í veg fyrir ýmsa af þeim hlutum sem þessi ríkisstjórn er þó búin að segjast standa fyrir. Þetta er afar alvarleg niðurskurðartillaga, hæstv. forseti.