136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[15:11]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Hér eiga undir tvær mikilvægustu heilbrigðisstofnanir landsmanna, þ.e. Landspítalinn og Sjúkrahúsið á Akureyri, tvær stærstu stofnanirnar. Þær á báðar að skerða verulega, Sjúkrahúsið á Akureyri beint um tæpar 200 millj. kr. auk þess sem færa á talsvert fé frá stofnuninni yfir í pott og Landspítalann um 1.740 millj. kr. eða þar um bil. Þetta er gert án þess að neinar upplýsingar liggi fyrir frá stjórnendum þessara stofnana, frá hæstv. heilbrigðisráðherra, frá formanni heilbrigðisnefndar um hvernig þetta er hægt. Það þekkja allir álagið og rekstrarerfiðleika þessara stofnana á undanförnum missirum og það gríðarlega miðlæga hlutverk sem þær gegna í heilbrigðisþjónustu landsmanna. Það er algerlega óboðlegt að standa svona að verki og að ekki skuli liggja fyrir einhverjar áætlanir um hvernig þetta eigi að framkvæma án stórkostlegrar skerðingar á þjónustu, án þess að stofna heilbrigðisöryggi landsmanna beinlínis í hættu og/eða án þess þá að til blóðugra uppsagna komi og verulegrar fækkunar starfa. Hér er illa að verki staðið, herra forseti.