136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[15:17]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Þeir liðir sem menn greiða nú atkvæði um snúa að fjármálaráðuneytinu og ýmsum stofnunum sem undir það heyra, m.a. ríkisskattstjóra. Menn hafa haft á orði að taka eigi til í íslensku samfélagi, gera það gagnsærra og heiðarlegra, þar á meðal í allri skattheimtu. Og hvert er þá fyrsta verk ríkisstjórnarinnar? Það er náttúrlega að skera niður við ríkisskattstjóra um einhverja tugi milljóna.

Ég vek athygli á því að framlag sem ætlað er til jafnréttismála, jafnréttisfulltrúa, er skorið niður. Menn kunna að hafa skýringar á því að þeir séu færðir undir ýmis ráðuneyti en gagnvart þeim er líka verið að skera niður og skilaboðin eru þau að nú skuli þau einhvers staðar einhvern veginn finna pening. Það er með öðrum orðum verið að skera niður til jafnréttismála. Hvað skyldi formaður Samfylkingarinnar, (Forseti hringir.) hæstv. utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, segja um það? (Forseti hringir.) Hvernig skýrir hún það eða samflokksmenn hennar og að sjálfsögðu einnig sjálfstæðismenn, meiri hlutinn á Alþingi?