136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[15:22]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Í kaflanum um iðnaðarráðuneytið í fjárlagafrumvarpinu kemur glöggt fram að ríkisstjórnin er að horfa til framtíðar. Hún er að horfa til þeirrar þróunar sem þarf að verða í atvinnulífi Íslendinga til þess að Ísland geti aftur orðið öflugt á sviði atvinnulífsins. Það kemur fram þarna að ekki er verið að skera neitt niður til sprotastarfsemi, nýsköpunar eða rannsókna sem þeim tengjast og ekki heldur til ferðamála. Þarna er gefið í, það er verið að bæta við Tækniþróunarsjóð og það er verið að fimmfalda það fjármagn sem verið er að eyða til að sækja ferðamenn til Íslands. Með öðrum orðum er verið að skjóta nýjum stoðum undir gjaldeyrisöflun til skamms tíma og það er verið að verja fé til að byggja upp nýtt atvinnulíf til langs tíma.