136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[15:43]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Sú blekking sem höfð var í frammi þegar verið var að selja almenningi það að best væri að selja Landssímann sýnir nú best hversu fáránleg salan var. Eitt af því sem átti m.a. að verja stórfé í og var mikið gert úr var bygging hátæknisjúkrahúss sem átti að byggja að stórum hluta fyrir söluandvirði Símans þá. Ekki sést neitt til þeirrar byggingar og ég er viss um að landsmenn, ekki síst úti um hinar dreifðu byggðir, vildu heldur að ríkið, samfélagið, ætti nú sinn Landssíma þannig að hægt væri að tryggja öruggan framgang fjarskipta, háhraðanettenginga og símasambands um allt land.

Það hefur gengið sorglega hægt og eins og hæstv. forsætisráðherra kom inn á áðan hafa allar áætlanir um það verið sviknar. Var það ekki 2007 sem átti að vera komin háhraðanettenging um allt land, á alla bæi? Mig minnir það.

Það er einmitt þetta sem skiptir svo miklu máli fyrir jöfnuð og jafnrétti í landinu, fyrir jafna möguleika allra til þess að þróa og byggja upp sitt atvinnulíf. Jöfnun búsetunnar felst einmitt í þessum fjarskiptum. Ég vil ítreka að það hefði verið nær að landsmenn ættu Landssímann. Ég vil kannski spyrja í lokin: Hver er staða Landssímans og eigna hans í því umróti sem orðið hefur á eignamarkaðnum? Það voru einhver ákveðin fyrirtæki sem eignuðust Landssímann og ég spyr hæstv. forsætisráðherra: Hver á núna (Forseti hringir.) Landssímann?