136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[15:48]
Horfa

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta ákvæði er liður í því að gera stjórnendum þessara stofnana betur kleift að gæta samræmis milli sjúklinga eða þess fólks sem leitar til þeirra. Það er greitt fyrir mikið af þeirri þjónustu sem fólk fær, t.d. á Landspítalanum, göngudeildarþjónustu og aðra þjónustu sem ekki kallar á innlögn. Spurningin er með hvaða hætti sé best hægt að nýta það fjármagn sem ríkið veitir í þessa mikilvægu þjónustu. Það er mat mjög margra að til að hægt sé að gera það með sem skynsamlegustum hætti eigi að vera samræmi í þessum hlutum. Út á það gengur þetta mál.

Ég er ekki á því að þarna verði mikilvægur tekjustofn fyrir sjúkrahúsin eða ríkissjóð enda er málið ekki hugsað sem slíkt. Hins vegar minnir mig að það hafi verið talað um rúmar 300 millj. kr. yfir árið hjá öllum þeim spítölum sem þarna gætu átt hlut að máli. Málið snýst um að geta nýtt tæki og mannafla spítalans á sem hagkvæmastan hátt þannig að ekki verði óeðlileg stýring í þá þjónustu sem ókeypis er frá þeirri sem greitt er fyrir. Þetta er kjarni málsins.