136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[15:54]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Hæstv. forsætisráðherra hóf mál sitt á að ræða vandann sem við stöndum frammi fyrir vegna mikils tekjufalls hins opinbera vegna samdráttar í hagkerfinu og hruns bankanna og afleiddra afleiðinga þeirra óskapa sem yfir okkur hafa gengið í efnahagslegu tilliti. Ekki er deilt um að þar er mikill vandi á ferð og merkilegt að menn skuli nenna að leggja leið sína í ræðustólinn og saka einhverja þingmenn um að vera ómeðvitaða um það eða horfa alveg fram hjá því þó að þeir hafi sjónarmið fram að færa um hvernig skynsamlegast sé að bregðast við og hvernig réttast sé að reyna að dreifa byrðunum. Þannig skil ég umræðurnar sem hér voru í gær um fjárlagafrumvarpið og eru nú í dag um þetta frumvarp.

Út af fyrir sig er umhugsunarefni af hverju tekjusamdráttur ríkisins verður jafnharkalegur og mikill og raun ber vitni þegar veltan dregst saman í þjóðfélaginu, eins og nú er að gerast. Skyldi það ekki vera í einhverjum tengslum við breytingar sem gerðar hafa verið undanfarin ár á skattkerfi landsmanna og hvernig menn kusu að fjármagna ríkissjóð og samneysluna á óráðsíuárunum? Orðið óráðsía á við þegar miklar tekjur flutu inn í ríkissjóð af viðskiptahalla og erlendri skuldasöfnun. Hvað gerðu menn þá? Þeir slógu um sig og voru miklir karlar — miklir menn skulum við segja, kerlingar voru líka eitthvað með í þessu — og lækkuðu kerfisbundið og ítrekað hina beinu og traustu tekjustofna ríkisins. Menn lifðu með öðrum orðum á gróðatekjunum, sköttum af viðskiptahalla og skuldasöfnun í allt of ríkum mæli. Það kemur mönnum nú í koll í formi miklu harkalegri tekjusamdráttar hins opinbera en hefði orðið ef menn hefðu ekki verið orðnir jafnháðir sveiflugjörnum tekjustofnum og raun ber vitni. Sjálfsagt hefur enginn áhuga á því að velta þessu lengur fyrir sér af því að menn eru ekki mikið fyrir að horfa í eigin barm og velta fyrir sér hvort þeir hafi hugsanlega gert einhver mistök en ég verð þó að segja eins og er að athyglisvert er ef ekki einu sinni þetta kemst á dagskrá núna þegar valkostirnir eru — hverjir? Að ganga jafnharkalega fram í sársaukafullum niðurskurði á ýmsum sviðum og nú á að gera. Að sjálfsögðu hljóta menn í viðbrögðum sínum að gæta ýtrasta aðhalds og reyna að spara peninga þar sem það er hægt. En gríðarlega miklu máli skiptir hvernig það er gert. Það skiptir kannski aðallega máli af tvennum ástæðum. Annars vegar að menn hafi félagslega hugsun og réttlætissjónarmið að leiðarljósi í þeim efnum hvernig byrðunum er dreift og hins vegar að menn séu á varðbergi gagnvart því að grípa ekki til aðgerða, jafnvel vanhugsaðra og fljótræðislegra aðgerða sem auka á vandann og búa til vandamál annars staðar um leið og menn þykjast vera að leysa þau á einum stað. Þar á ég alveg sérstaklega við hættuna á að dýpka kreppuna og auka atvinnuleysi umfram það sem ella væri mögulegt að verjast.

Ég held því miður að þrátt fyrir tal á undanförnum mánuðum þar sem menn hafa sagst ætla að reyna að forðast uppsagnir, verja atvinnustigið og mannaflsfrekar framkvæmdir lendi þeir í því að gera í mörgum tilvikum hið gagnstæða. Það gagnrýni ég og finnst vanhugsað og fljótræðislegt og þar sýnist mér hæstv. ríkisstjórn hafa valið þá einföldu útleið að taka við skilmálum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eins og þeir koma hráir af skepnunni og reikna þá meira og minna flatt yfir rekstur hins opinbera. Það held ég að sé ekki gæfuleg aðferð og gæti leitt til þess að við misstum atvinnuleysisstigið hærra en ella þyrfti að vera og gæti leitt til annars og enn verri hlutar sem er verulegur landflótti. Hversu dýrt verður það íslensku samfélagi ef við missum kannski 5% til 8% mannaflans úr landi? Við vitum alveg hvaða hluti íbúanna er hreyfanlegastur og líklegastur til þess að fara. Það er ungt og gjarnan vel menntað fólk sem á auðveldara með að höndla tækifærin í öðrum löndum og sem er hreyfanlegast af búsetuástæðum og þannig á vegi statt í sínu lífi að það getur kannski með auðveldari hætti en aðrir breytt til ef það er ekki bundið á klafa þess að eiga húsnæði sem það borgar af o.s.frv.

Í þriðja lagi verða menn að horfa til þess hvernig við ætlum að auka verðmætasköpun og umsvif í þjóðarbúskapnum á nýjan leik þannig að við eigum einhverja von til að ráða við skuldirnar sem hæstv. ríkisstjórn setur á herðar landsmanna þessa mánuðina.

Rætt var um niðurskurð til menntunar fyrr í dag og bent á þá hættu að ef við höldum ekki einu sinni þeim dyrum opnum að þeir sem eru að missa atvinnuna geti þá notað tækifærið og farið í nám — vel að merkja á eigin kostnað að verulegu leyti, með því að taka til þess námslán hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna — þá ýtum við beinlínis þeim sem ekki eiga kost á slíku eða telja sig ekki búnar aðstæður til þess yfir í annað tveggja — það er augljóst — atvinnuleysi eða brottflutning af landinu. Þetta er að mínu mati stóra hættan sem hæstv. ríkisstjórn tekst ekki á við af neinni alvöru, eða hvar er stóra planið? Hvar er áætlun ríkisstjórnarinnar í þessum efnum? Hvar er hin heildstæða hugsun? Hver reynir að hafa yfirsýn yfir þetta í heild sinni? Enginn innlendur aðili. Biblían er hér, starfsmannaskýrsla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem ég er farinn að halda að ískyggilega fáir hafi haft rænu á að lesa en ætti þó að vera grundvallarlesning þeirra sem eru að reyna að átta sig á hlutunum. Þangað er leitað því að engu slíku er til að dreifa hjá hæstv. ríkisstjórn. Hún kemur algerlega úrræða- og tillögulaus, ber á borð flatan og meira og minna órökstuddan niðurskurð fyrir utan það litla sem segja má að eigi að reyna að gera til að verja kjör þeirra allra verst settu innan almannatryggingakerfisins, sem vissulega er þarna til staðar, en að því slepptu er þetta sorglega lítið hugsað og sorglega flatt.

Í bandormi þessum sem hæstv. forsætisráðherra mælti fyrir er byrjað á að fara inn í löggerning, samning við bændur, sem ég tel að orki mjög tvímælis af tveimur ástæðum. Annars vegar vegna þess að bændur eru með tekjulægstu stéttum landsins og miklir rekstrarerfiðleikar eru í landbúnaðinum og hafa þeir verið til umræðu á undanförnum missirum. Landbúnaðurinn fékk á sig kannski umfram flestar aðrar atvinnugreinar gríðarlegar kostnaðarhækkanir á undangengnu einu og hálfu ári og allir vita að tekjur t.d. sauðfjárbænda eru mjög lágar. Allir vita að kúabændur eru mjög skuldsettir vegna fjárfestinga í þeirri grein á undanförnum árum og jafnvel talið að allt að þriðjungur þeirra sé í reynd gjaldþrota, a.m.k. bókhaldslega séð. Búvörusamningurinn byggir á lögum og á ákveðnu ferli, bændur afla samningsumboðs frá umbjóðendum sínum og gera bindandi samning, löggerning, við ríkið um grundvöll greinarinnar fram í tímann og bera síðan samningsniðurstöðuna undir atkvæði félagsmanna sinna. Það þýðir að búvörusamningurinn hefur að þessu leyti ekki bara stöðu sem löggerningur heldur líka hliðstæða stöðu og kjarasamningur. Það þýðir að bændaforustan hefur ekkert umboð til að gera á honum breytingar nema bera það undir félagsmenn sína. Hér tel ég teflt á tæpasta vað og ég gef ekki mikið fyrir þá lögfræði sem hér er að finna í umsögnum um lagagreinina að þetta megi teljast í lagi gagnvart 72. gr. stjórnarskrárinnar eða eins og þar stendur, með leyfi forseta:

„Verður því ekki talið að þessi breyting stríði gegn 72. gr. stjórnarskrárinnar jafnvel þótt gripið yrði inn í gildandi samninga ríkis og bænda.“

Einhverjar skrúplur hafa menn haft yfir því úr því að þeir þurftu að setja þetta orðalag inn í frumvarpið.

Í öðru lagi er vikið að fjármálum sveitarfélaganna og þar er lögð til hækkun á útsvari til þeirra upp á hálft prósentustig og ég vil segja alveg eins og er að jafnmikið og við höfum talað fyrir því að staða sveitarfélaganna sé styrkt við þessar aðstæður og þeim gert kleift að sinna mikilvægu hlutverki sínu þá er ég ekki andvígur þessari breytingu. Einhvers staðar verður að afla þeirra tekna og útsvarið er langstærsti tekjustofn sveitarfélaganna, um 60% að meðaltali af tekjum þeirra koma frá útsvari þannig að erfitt er að gera stóra hluti þar nema hreyfa því eitthvað til. Þetta dugar hins vegar skammt eins og afkomu margra sveitarfélaga er háttað. 0,25% af hækkun tekjuskatts eiga síðan að renna til jöfnunarsjóðs til að mæta niðurskurði, sem áður hafði verið ákveðinn gagnvart sveitarfélögum upp á 1.400 millj. kr. í sérstökum jöfnunarframlögum og vegna þess að ríkið hyggst lækka greiðslu fasteignaskatts til sveitarfélaganna. Eftir stendur því að hagur sveitarfélaganna verður mjög erfiður við þessar aðstæður á sama tíma og þau fá á sig stórauknar byrðar.

Fyrst og fremst gagnrýni ég framgöngu ríkisstjórnarinnar hvað varðar tekjuöflun, ekki vegna þess að reynt sé að afla tekna. Það er sjálfsagt mál við þessar aðstæður að reyna að leita leiða til að styrkja tekjugrundvöll ríkis og sveitarfélaga en það á að gera á sanngjarnan hátt. Ég gagnrýni að ríkisstjórnin skuli ekki einu sinni leggja hugsun í að þeirra tekna sé aflað þannig að meira sé lagt á þá sem betur eru aflögufærir, t.d. með þrepaskiptum tekjuskatti eða upptöku einhvers konar hátekjuálags í tekjuskatti. Heldur ódýrt er að skríða bak við þessa flötu hækkun með óbreyttum skattleysismörkum, sem samið var um fyrir meira en ári síðan, sem þýðir áframhald á þeirri lágtekjuskattspíningarstefnu sem fyrri ríkisstjórn gat sér frægð fyrir að endemum að ástunda.

Hér er einnig lagt til að fella niður lög um ráðstöfun á söluandvirði Landssímans. Þar með lýkur hinum dapurlega kafla einkavæðingar Pósts og síma, sem seinna varð Íslandspóstur og Landssími, og nú veltir maður fyrir sér: Var sá leiðangur til fjár? Var ekki Landssíminn gott og traust almannaþjónustufyrirtæki nær skuldlaust í opinberri eigu með opinberar þjónustuskyldur, veitti góða þjónustu og greiddi eiganda sínum, ríkinu, tvo, þrjá og upp í sjö milljarða kr. í arð á hverju ári? Hvar er hann í dag? Er hann ekki í höndunum á einhverju illa settu og kafskuldugu eignarhaldsfélagi einhvers staðar úti í bæ og hæstv. forsætisráðherra veit ekki einu sinni hvar? Þar er undir að uppistöðu til nánast allt dreifikerfi landsmanna í fjarskiptum. Væri kannski ekki betra að eiga trausta og góða, skuldlausa eign í Landssímanum og dreifikerfið í höndum þjóðarinnar sjálfrar þannig að m.a. væri hægt að beita því með félagslega og byggðalega hugsun að leiðarljósi við núverandi aðstæður?

Almannatryggingakaflinn er dapurlegur vegna þess að þar er um að ræða mikla skerðingu á alla sem ekki eru á lágmarkstryggingunni og athyglisvert er hvernig uppreikningur viðmiðunarfjárhæða er, þar er allt á rúi og stúi. Grunntrygging er hækkuð um 20%, aðrar bætur um 9,6%, viðmiðunarupphæðir barnabóta og vaxtabóta um 5,7%, sjómannafrádráttur um 12,9% og þar fram eftir götunum. Hvar er samræmið? Hvaða reiknitölu ætlar ríkisstjórnin almennt að nota eða stendur til að skekkja þetta innbyrðis milli þessara aðila? Já, niðurstaðan er sú, það á í reynd að skerða barna- og vaxtabætur umtalsvert með því að nota þar lægri uppreikningstölu en á öðrum stöðum í frumvarpinu.

Að síðustu um hinn nýja sjúklingaskatt upp á 360 millj. kr. Það á að selja inn á sjálf sjúkrahúsin og hver var málflutningur og rök hæstv. forsætisráðherra þar? Þetta var ekki aðallega hugsað sem tekjupóstur. Nei, þetta var samræmingaratriði, réttlætismál eða hvað? Þá er það orðið þannig að fyrst innleiða menn sjúklingaskatta, komugjöld og gjaldtöku hér og þar í kerfinu, koma svo og segja: Heyrðu, við verðum að samræma þetta og taka þetta upp alls staðar þannig að borgað verði fyrir heilbrigðisþjónustuna alls staðar á Íslandi. Var það einhvern tíma ætlunin? Gengu einhvern tíma einhverjir fram og sögðu við kjósendur sína: Við viljum að menn borgi alls staðar hvort sem þeir eru komnir á heilsugæslustöð, inn á sjúkrahús, eru fárveikir eða fullfrískir og sækja sér þjónustu (Forseti hringir.) á eigin fótum úti í bæ. Nei, ég held að það hafi ekki verið gert þannig að auðvitað nota menn falsrök til þess að innleiða enn einn sjúklingaskattinn (Forseti hringir.) í íslenska heilbrigðiskerfinu.