136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[16:27]
Horfa

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Hæstv. forsætisráðherra hóf mál sitt þegar hann mælti fyrir frumvarpi til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á því að benda á að margvíslegar ráðstafanir væru nauðsynlegar vegna hruns íslensku bankanna og skal ekki dregið úr því. Það er vissulega rétt að þannig er það. Spurningin er um hvort nóg sé að gert og hvort verið sé að gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru.

Að mínu mati er margt gott um frumvarpið að segja og það sem lagt er til, annað miður. Þannig er það stundum þegar lagðar eru til margvíslegar ráðstafanir og ætla ég að fara í gegnum það á eftir. Ég vil þó í upphafi geta þess, virðulegi forseti, að ég hefði talið að þurft hefði að gera mun víðtækari ráðstafanir mun fyrr en gert hefur verið. Ég hafði talið að strax þegar bankahrunið átti sér stað þann 6. október sl. og neyðarlögin voru sett mundi ríkisstjórnin þá þegar grípa til þess að mynda aðgerðahóp, fá fólk úr öllum stjórnmálaflokkum til að taka á þeim málum og vísa til þeirra atriða sem þyrfti svo virkilega að taka á. Það var ekki gert.

Hér stöndum við nokkru fyrir áramót að skoða hvað og hvernig, eftir þeim pípum sem ríkisstjórnin leikur á og þeim frumvörpum ríkisstjórnin hefur lagt fram, hvernig hægt er að forðast hin verstu áföll en við erum í raun ekki að stýra undan því áfalli sem við höfum lent í. Af því að við vorum áðan að ganga frá og vísa fjárlagafrumvarpi til fjárlaganefndar til 3. umr., liggur fyrir að verið er að afgreiða fjárlög með verulegum halla, allt upp undir 100 milljarða halla samkvæmt niðurstöðum frumvarpsins. Það er að mínu viti óásættanlegur halli og óásættanlegt að vísa kostnaði á framtíðarkynslóðir, á börnin okkar og barnabörnin. Við umræðuna í gær var vísað til ýmissa niðurskurðaraðgerða og hluta sem þyrfti að taka til. Ég vísaði til margvíslegra atriða sem ég taldi nauðsynlegt að yrði tekið á til að fjárlög yrðu ekki afgreidd með halla.

Það eru tvær leiðir í því sambandi, að draga saman útgjöldin eða hækka álögurnar eða hafa blöndu af hvoru tveggja. Ég tel að lengra verði ekki haldið, að ríkisútgjöld séu þegar orðin svo mikil og opinber útgjöld sem taka um helming þjóðarframleiðslu séu langt umfram það sem eðlilegt eða ásættanlegt geti talist.

Kallað hefur verið eftir því að við fengjum erlenda sérfræðinga til að aðstoða okkur í þessu ástandi, gera grein fyrir því hvað við eigum að gera. Einn slíkur var hér fyrir nokkrum dögum síðan, ekkert ómerkari maður en fyrrum forsætisráðherra Svía, Göran Persson, sem flutti ræðu í hátíðarsal Háskóla Íslands. Þarna er um að ræða forsætisráðherra sem fór með mál þegar Svíar þurftu að taka á sinni bankakreppu á sínum tíma. Hvað hafði þessi merki stjórnmálamaður að segja við okkur? Jú, hann sagði að við þyrftum að taka strax á okkar málum og þeim mun fyrr sem við gerðum það og ákveðnar þeim mun fyrr kæmumst við út úr þeirri kreppu sem við fyrirsjáanlega mundum lenda í.

Ég er sannfærður um að þessi sjónarmið og ráðleggingar Görans Perssons eru rétt, að brýna nauðsyn beri til að taka með ákveðnum hætti og af festu á þeim málum sem um er að ræða, gera það strax, láta höggið koma og við verðum öll að sætta okkur við það. Þess vegna þurfti strax í október að fara ákveðið í gegnum alla útgjaldaliði fjárlaga, skoða hvernig hægt væri að taka á þeim til að draga úr útgjöldum ríkisins þannig að fjárlög yrðu afgreidd hallalaus. Sjaldan hefur verið eins mikil nauðsyn á því, virðulegi forseti, að afgreiða hallalaus fjárlög en einmitt núna þegar aðstæður eru þær sem um ræðir í okkar þjóðfélagi. Það hefur þurft að skera niður útgjöld, takmarka millifærslur, fara í allar þær sparnaðarleiðir sem hægt hefur verið að koma við.

Venjulegir einstaklingar, heimilin í landinu, hafa ekki möguleika á að eyða meira en tekjurnar leyfa nema að taka lánsfé. Ef mikið er gert af því endar það alltaf með ófarnaði, skuldirnar vaxa heimilunum eða einstaklingnum yfir höfuð. En það sama gildir um ríkið, sama gildir einfaldlega um að þegar farið er fram með þessum hætti er ekki verið að gera neitt annað en prenta seðla og taka lán hjá framtíðinni. Ég tel að staða okkar sé þannig að óásættanlegt sé að fara þá leið. Það þurfi að vera mun alvarlegri aðstæður uppi en þær sem nú eru til að ásættanlegt sé að afgreiða fjárlög með 100 milljarða halla eins og gert var við atkvæðagreiðslu eftir 2. umr. fjárlaganna í dag.

En þá er spurningin: Er möguleiki eða tilefni til að hækka álögur á fólkið í landinu? Þá segi ég: Þar er svigrúmið ekki fyrir hendi. Af hverju ekki? Vegna þess að í fyrsta lagi eru skattar á almenning í landinu þegar það háir, beinir skattar eru það háir og óbeinu skattarnir eru með því hæsta sem þekkist. Við erum með virðisaukaskatt upp á 24,5% og það sem fólkið í landinu stendur frammi fyrir, sem nánast hver einasti einstaklingur verður að horfast í augu við, er launalækkun, kjara- og eignarýrnun vegna verðbólgu, lífskjaraskerðing vegna hækkunar lána vegna verðbólgunnar þar sem verðtryggingin étur upp andvirði eigna og eins er um að ræða hækkað vöruverð. Það þýðir að ráðstöfunartekjur einstaklinganna eru mun minni en ella væri.

Þrátt fyrir að fólkið í landinu verði nú fyrir verulega mikilli lífskjaraskerðingu er lagt til í 3. gr. frumvarpsins að hækka útsvar um 0,25% og í 8. gr. er lagt til að hækka tekjuskatt um 1,25%. Hvað þýðir það? Það þýðir að samtala tekjustofna sveitarfélaga og tekjuskatts til ríkisins nemur hvorki meira né minna en 37,28% af tekjum einstaklinganna. Til viðbótar við það er síðan þvingaður sparnaður til lífeyrissjóða, sem virðast hafa að hluta til það markmið að fólki geti hugsanlega liðið vel í ellinni þó að því eigi að líða jafnvel illa í dag, en þá erum við að tala um 37,28% sem ríki og sveitarfélög taka til sín í beinum sköttum. Þar ofan á koma 12% framlag til lífeyrissjóða eða 49,28% sem þannig er. Það sem um er að ræða er að verið er að leggja þær byrðar á alla launþega í landinu að greiða helming tekna sinna í opinber gjöld og til lífeyrissjóða. Það er einfaldlega of mikið, fólk hefur ekki tök á því í mörgum tilvikum að hafa bjargráð þegar ríkisvaldið eða hið opinbera tekur jafnmikið.

Í 7. gr. frumvarpsins er talað um fæðingar- og foreldraorlof, um að hámark fæðingarorlofs fari úr 480 þús. niður í 400 þús. kr. Ég hef átt afskaplega erfitt með að átta mig á því velferðarkerfi sem komið var á fyrir ríkt fólk í landinu. Ég tel eðlilegt að velferðarkerfið sé fyrst og fremst fyrir þá sem þurfa á því að halda. Eins og nú háttar til í þjóðfélaginu þurfum við að einbeita okkur að því að halda við því velferðarkerfi þannig að allt fólk geti haft það þannig að það líði ekki skort, að það búi við þokkaleg lífskjör en við eigum ekki að vera með velferðarkerfi hinna sem ekki þurfa á því að halda. Hér er verið að tala um að skerða fæðingar- og foreldraorlof úr 480 þús. niður í 400 þús. og þá spyr ég: Á hvaða forsendum? Hvaða rök mæla með því að hafa hærri greiðslur fyrir fæðingar- og foreldraorlof en fyrir öryrkja og aldraða? Við verðum einhvers staðar að setja okkur mörk í velferðinni. Hvort sem okkur líkar það betur eða verr hafa þeir sem ungir eru fleiri möguleika og bjargráð en hinir sem eru öryrkjar og aldraðir. Það verður að hyggja að því á tímum eins og þessum. Þess vegna hefði ég talið að það eðlilegra að hafa fæðingar- og foreldraorlof með öðrum hætti en hér er gert.

Í 9. gr. frumvarpsins er verið að fjalla um sjómannaafsláttinn og hækkun hans. Þar getur verið um eðlilegan hlut að ræða en í raun þegar það er skoðað er fyrst og fremst verið að tala um að ríkisvaldið niðurgreiði launakostnað útgerðarinnar. Með þessum hætti, sem og með svo mörgum öðrum, er verið að rétta fram peninga almennings í landinu til hjálpar kvótagreifunum, til hjálpar sægreifunum, og það er ekki ásættanlegt. Ég hefði talið eðlilegra að vísa þessum málum og launakerfinu í heild þannig að þeir stæðu undir því sem eiga að gera það.

Síðan eru það önnur atriði eins og t.d. varðandi sölu Landssímans og komið hefur til umræðu. Hv. þm. Jón Bjarnason gerði athugasemd við að Landssíminn hefði verið seldur á sínum tíma og velti fyrir sér ýmsum hlutum í því sambandi. Ég verð að segja að sem betur fer var Landssíminn seldur á sínum tíma vegna þess að hefði það ekki verið gert væru verðmæti Landssímans til muna minni í dag en á þeim tíma þegar Landssíminn var seldur. Ég taldi það fyrirsjáanlegt þegar Landssíminn var seldur að seinna mætti það ekki vera vegna þess að þær breytingar voru að verða í fjarskiptum að ríkinu lá á að koma þessum verðmætum í verð meðan þau voru virkileg verðmæti. Ég verð því að segja að ég tel að mjög vel hafi tekist til við sölu Landssímans enda fjarskiptamálum þannig háttað að engin ástæða var til að ríkið stæði í þeim rekstri áfram.

Ég tel það jákvæða breytingu sem lögð er til í 13. gr. frumvarpsins hvað varðar að lög um ráðstöfun og sölu Landssímans verði felld niður. Ég sé ekki að þau eigi við miðað við stöðuna í dag.

Það eru nokkur atriði sem ég vil sérstaklega benda á sem ég tel vera til verulegra bóta. Þá vil ég sérstaklega taka 10. og 12. gr. frumvarpsins þar sem verið er að fjalla um hækkun barnabóta og að ekki sé heimilað að skuldajafna við kröfur ríkissjóðs. Ég tel það til verulegra bóta. Það sem hér kemur fram er ekki með öllu illt en það sem ég vara sérstaklega við og hlýt að mæla eindregið á móti og berjast gegn er að enn skuli eiga að hækka gjöld á almenning í landinu. Það er óásættanlegt og almenningur í landinu hefur ekki svigrúm til að taka slíkri gjaldahækkun.