136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[17:00]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör og hvet hann til að eiga áfram samskipti við bændur, sérstaklega í framhaldinu því að það er eins og hæstv. ráðherra benti á ekki sama hvernig menn halda á málum á næstunni. Ég held að hæstv. ráðherra hljóti að vera mér sammála um það í ljósi þess að hér er verið að skerða framlög vegna þessara samninga um 800 millj. kr. Þetta er mjög skuldsett stétt og lágtekjustétt og það er óumflýjanlegt að hluti eða jafnvel stærstur hluti af þessum 800 millj. kr. fari með einhverjum hætti út í verðlagið. Það er mikilvægt líka fyrir okkur sem störfum hér að við áttum okkur þá á afleiðingum þess. Hvað mun það þýða ef matvælaverð hér á landi, lambakjöt, mjólk og aðrar nauðsynjavörur, mun hækka? Mun það ekki af sjálfu sér leiða til þess að verðbólgan hækki í framhaldinu, lán heimilanna líka og þar fram eftir götunum? Hér er um stórmál að ræða og ég hvet hæstv. ráðherra til að íhuga vel hvernig að þessum málum verður staðið í framhaldinu en við á vettvangi efnahags- og skattanefndar munum að sjálfsögðu reyna að fá svör við því hvaða áhrif þetta muni hafa á verðbólguna og lán Íslendinga. Þau eru að hækka gríðarlega þessi missirin með hárri verðbólgu og það bætir náttúrlega gráu ofan á svart ef þessi aðgerð leiðir til þess að verðbólgan muni aukast enn meir.