136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[17:04]
Horfa

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég átti erfitt með að sitja þegjandi undir ræðu hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar í ljósi þess að Framsóknarflokkurinn sat í 12 ár í heilbrigðisráðuneytinu, þar til eftir síðustu kosningar, og hann gagnrýnir nú m.a. komugjald á sjúkrahús. Ég ætla bara að minna á hvað Framsóknarflokkurinn gerði í bullandi góðæri. Þá var heldur betur rukkað á spítölunum því að við sitjum uppi með komugjöld á slysadeild. Mjög margir sjúklingar leggjast inn á spítala af slysadeild. Þar eru komugjöld frá Framsóknarflokknum. Á bráðadeildum kemur fólk líka inn á spítala og leggst inn. Þar eru komugjöld frá Framsóknarflokknum. (Gripið fram í.) Fjöldi manns sækir göngudeildarþjónustu á spítalana. Þar eru komugjöld frá Framsóknarflokknum og ekki voru þessi gjöld tekin af þegar þjóðin bjó við bullandi góðæri.

Hér er verið að samræma milli sjúklingahópa og sett samræmt komugjald á alla sem sækja spítalann. (ÁI: Samræmt komugjald?) Það er verið að setja komugjald á alla sjúklinga sem koma inn á spítalann, ekki bara þá sem koma inn á slysadeild, koma í gegnum bráðadeild og (Gripið fram í.) koma á göngudeild. (Gripið fram í.) Það sem er verið að gera um leið er að það verður sett þak yfir þannig að það verður hámark og öll þessi gjöld fara undir það hámark. (ÁI: 2020?) Nei, það verður gert núna á næstu mánuðum og það verður látið virka aftur fyrir sig þannig að útgjöld frá áramótum munu koma undir þetta þak. Það verður tryggt.

Ég vil líka minna á hvað gerðist í tíð Framsóknarflokksins, m.a var heimilt að leggja fólk inn á spítala án þess að innrita það (Forseti hringir.) og heimilt að taka af því allar greiðslur, læknisþjónustu, rannsóknarkostnað o.s.frv. (Forseti hringir.) Það voru verulega há útgjöld hjá mörgum sjúklingum, allt upp í tugi þúsunda áður en þeir lögðust inn.