136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[17:06]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að Samfylkingin átti sig ekki á því að hún er að verða búin að vera í ríkisstjórn í bráðum tvö ár. Samt kemur alltaf sama bilaða platan hér upp. Ég ætla að minna hv. þingmann, sem virtist vera hreykin af því að hér væri verið að samræma þannig að allir þyrftu að greiða, á að forstjóri Landspítalans sagði á dögunum að það ætti að hagræða í rekstri. Ríkisstjórnin hefur boðað það. Í hverju var sú hagræðing fólgin? Jú, hún var m.a. fólgin í því að auka framboð á göngudeildum, að fólk yrði ekki lagt eins mikið inn. Hvað þýðir þetta á íslensku? Það er ekki verið að hagræða. Nei, ríkið ætlar að rukka fólk í stórauknum mæli fyrir þessa þjónustu. Það er sem sagt verið að breyta kostnaðarhlutdeildinni frá því að ríkið borgi og í það að almenningur borgi. Er hv. þingmaður stolt af þessu? Það sem ég segi er að við erum bara að sjá toppinn af ísjakanum í hagræðingaraðgerðum ríkisstjórnarinnar þegar kemur að velferðarmálum.

Hæstv. forseti. Ég gleymdi óvart 1 milljarði. Með leyfi forseta stendur í greinargerð:

„Í þriðja lagi eru lagðar til breytingar á málefnum aldraðra og almannatryggingum varðandi aukin áhrif fjármagnstekna á lífeyristryggingar, auk þess sem frítekjumarki 70 ára og eldri er breytt til samræmis við frítekjumark annarra hópa. Samtals lækka þessar breytingar útgjöld ríkissjóðs um rúman 1 milljarð kr.“

Þetta er ofan á þessa 3,9 sem ég fór ranglega með. Þetta eru 4,9. Ég spyr hv. þingmann hvort hún ætli að koma hér upp og halda áfram að rifja upp 12 ára valdatíð Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks eða hvort hv. þingmaður ætli að fara að kannast við sín verk. Hér er stórfelldur niðurskurður gagnvart þeim sem hvað lakast standa. Við hv. þingmann vil ég segja það að íslensk heilbrigðisþjónusta og framlög til velferðarmála (Forseti hringir.) jukust um tugi milljarða í tíð síðustu ríkisstjórnar. Það sem við erum að gagnrýna (Forseti hringir.) hér er samdráttur um marga milljarða kr.