136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[17:11]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að hv. þingmaður hafi nefnt Framsóknarflokkinn mun oftar á nafn en aldraða og öryrkja í málflutningi sínum. Þetta kannski sýnir hugarfarið hjá Samfylkingunni í þessari umræðu, hún er föst í fortíðinni. Staðreyndin er sú að við Íslendingar búum við eina bestu heilbrigðisþjónustu í heimi. Um það verður ekki deilt.

Síðasta ríkisstjórn varði tugmilljörðum til að bæta þá þjónustu á meðan kostnaðarhlutdeild sjúklinga — (ÁRJ: Á kostnað sjúklinga.) Ekki á kostnað sjúklinga, það er rangt hjá hv. þingmanni og ég mun ræða það betur við hana í framhaldinu á Alþingi Íslendinga. Hv. þingmaður minntist ekki á það þegar síðasta ríkisstjórn var með ákveðin viðmið í kjarasamningnum gagnvart öldruðum og öryrkjum og núverandi ríkisstjórn breytti og sparaði sér þannig 3,9 milljarða hjá öldruðum og öryrkjum. (ÁRJ: Andskotans bull er þetta.) Andskotans bull, segja hv. þingmenn og passa ekki mál sitt í þessum sal en þeir segja það þó gagnvart forustumönnum aldraðra, öryrkja og Alþýðusambandi Íslands. Ég spyr: Er Samfylkingin alveg búin að missa jarðtenginguna gagnvart forustumönnum Alþýðusambands Íslands? Síðan er hér lagt til að tekjur aldraðra og öryrkja lækki um aðra 4,9 milljarða — ofan á 3,9. Við erum að verða komin upp í allverulegar upphæðir hjá þessari ríkisstjórn sem gumar af því að aldrei hafi verið staðið eins vel að kjörum þessara hópa. Ég held að þessi ríkisstjórn lifi í draumi, hæstv. forseti.