136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[17:13]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Birki J. Jónssyni fyrir að gefa mér tækifæri til með ræðu sinni áðan að bera saman hvernig aldraðir og öryrkja hafa það í landinu þegar við jafnaðarmenn erum við stjórnvölinn og þegar framsóknarmenn eru við stjórnvölinn. Ég vil bara segja, virðulegi forseti: Guð hjálpi þessari þjóð að það séu ekki framsóknarmenn núna við stjórnvölinn í þeim hremmingum sem við erum.

Ég ætla að byrja á því að rifja upp nokkrar stærðir fyrir hv. þingmann. Þegar frumvarp til fjárlaga var lagt fram var 57 milljarða halli á fjárlögum. Það stendur núna í 215 milljarða halla, það er enginn smáviðsnúningur. Niðurskurðurinn sem verið er að fara í núna er um 43–45 milljarðar. Mig langar til að hv. þingmaður svari einni spurningu: Er þetta of mikill niðurskurður, er þetta of lítill niðurskurður og hvar hefði hv. þingmaður borið niður ef hann hefði verið við stjórnvölinn?

Hv. þingmaður ræðst með miklu offorsi á það hvernig lífeyrisþegar koma út úr þeim tillögum sem við erum að ræða í þeim viðsnúningi sem hér er. Ég held að hv. þingmaður verði, ef hann sýnir einhverja sanngirni, að halda því til haga að við erum að bæta í fjárlagafrumvarpið að því er varðar lífeyrisbætur eða lífeyristryggingar almannatrygginga frá því að frumvarp til fjárlaga var lagt fram, tveimur milljörðum. Til lífeyrisþega og öryrkja, þ.e. til lífeyrisgreiðslna þeirra, er því ekki varið einungis 5,5 milljörðum eins og átti að gera heldur tveim milljörðum meira en gert var ráð fyrir þegar frumvarpið var lagt fram, eða 7,5 milljarðar. (BJJ: Þetta var nú bara bull.) Við settum á lágmarksframfærsluviðmið 1. september sl. sem fór í 150 þús. kr. og það sem nú er verið að gera er að það er hækkað upp í 180 þús. kr. Þeir sem hafa 150 þús. kr. í dag munu hækka um 30 þús. kr. um áramótin.

Þegar núverandi ríkisstjórn tók við voru lágmarksgreiðslur í almannatryggingakerfinu fyrir þá sem ekkert höfðu úr lífeyrissjóðum 126 þús. kr. Hvað verður þetta lágmarksframfærsluviðmið um áramótin? Það fer úr 126 þús. kr. í 180 þús. kr., það hækkar um 50 þús. kr. Á sama tíma hefur daglaunatrygging hjá fólki á almennum vinnumarkaði hækkað um 25% og mun fara sennilega í 153 þús. kr. þegar dagvinnulaunatryggingin hækkar næst, þ.e. 1. mars.

Hvernig voru lægstu bætur lífeyrisþega árið 1995, þegar Framsóknarflokkurinn tók við, samanborið við dagvinnutrygginguna sem núna hefur hækkað um 50 þús. kr. eða um 50%? Ég vil biðja hv. þingmenn að taka eftir því að 1995 voru lægstu bætur lífeyrisþega samanborið við dagvinnutrygginguna, ef við miðum við 100, 103. Þegar Framsóknarflokkurinn tók við lækkaði þetta alveg niður í 80 á góðæristímum, þegar uppsveifla var í samfélaginu. Þegar lágmarksframfærsluviðmiðið er komið í 180 þús. kr. er þetta sem var lægst meðan Framsóknarflokkurinn stjórnaði árið 2001, 80 komið í tæplega 114 eða 113,6.

Þetta lágmarksframfærsluviðmið hefur aldrei frá upphafi verið hærra en það verður um næstu áramót, aldrei verið hærra, og við erum í bullandi kreppu og hremmingum. Getur hv. þingmaður haldið því með réttu fram að við séum að ráðast á kjör þeirra í almannatryggingunum sem verst hafa það? Nei, auðvitað getur hv. þingmaður ekki gert það.

Við erum að bæta kjör þeirra sem eru yfir 180 þús. kr. á mánuði um 9,6%. Það er enginn í landinu sem er með verðtryggingu í þessari verðbólgu nema lífeyrisþegar og það er vel. En ég ætla líka að halda því til haga að þegar Framsóknarflokkurinn tók við 1995 var eitt hans fyrsta verk að kippa úr sambandi almannatryggingum við launavinnu og þá byrjaði það sem þetta súlurit sýnir, það sést glöggt hvað skeður með því að þessu var kippt úr sambandi.

Ég ætla líka að halda því til haga að í góðærinu, þegar Framsóknarflokkurinn stjórnaði, sl. tólf ár, lækkuðu barnabætur og vaxtabætur hlutfallslega miðað við það sem þær voru 1995. Ég ætla að leyfa mér að halda því hér fram að í þeirri miklu kreppu sem við erum í núna þar sem þarf að taka á alls staðar þar sem það er mögulegt, hafa kjör lífeyrisþega sem lægst hafa launin aldrei verið betri. Þau eru betri núna í 215 milljarða halla en var í 80–100 milljarða góðæri þegar Framsóknarflokkurinn stjórnaði. Ég leyfi mér að halda því fram vegna þess að við erum með gögnin fyrir framan okkur sem sýna þetta.

Við erum ekki að skerða barnabætur eða vaxtabætur, við erum að auka þær núna. Við stöndum við það sem var samið um í síðustu kjarasamningum að barnabætur mundu hækka, mig minnir að ég fari rétt með að það séu 3–4 milljarðar. Það er ekki farin sú leið sem framsóknarmenn fóru þegar þeir stjórnuðu að hækka tekjuskattinn og skerða skattleysismörkin sem fyrst og fremst … (BJJ: Hækka tekjuskattinn? Þið lækkuðuð tekjuskattinn.) lækka tekjuskattinn, alveg rétt, lækkuðum tekjuskattinn en skattleysismörkin hækkuðu, takk fyrir að benda mér á þetta. Það leiddi til þess að þeir sem hæstar höfðu tekjurnar, og það sýna allar skoðanir sem hafa verið gerðar á þessu máli, t.d. hjá ríkisskattstjóra, að það bætti kjör þeirra sem mest hafa, þ.e. þeir fengu mestu skattalækkunina en skattbyrði lægst launaða fólksins, líka almannatryggingaþeganna, jókst á þessum tíma. Ég spyr: Er þetta eitthvað til þess að státa sig af?

Nú verjum við skattleysismörkin en hækkum eilítið tekjuskattinn sem ekki bitnar á lægst launaða fólkinu. (BJJ: Nú?) Nei, það bitnar ekki á lægst launaða fólkinu, þ.e. því fólki sem við erum að tala um, skattar þess hækka ekki vegna þess að skattleysismörkin verja það. (Gripið fram í.) Skattleysismörkin verja lægstu launin. Ég er meira að segja með dæmi sem sýnir að 800 þús. kr. maðurinn hækkar ekkert voðalega mikið. Hann hækkar t.d. um 5 þús. kr. á mánuði, það er nú ekki meira en það.

Því skal líka haldið til haga að allar þær aðgerðir sem við fórum í á sl. ári til þess að bæta kjör almannatryggingaþega, svo sem makabætur, frítekjumark vegna atvinnutekna, sem var 25 þús. kr. í góðærinu, fór í 100 þús. kr., skerðingarhlutfall sem var lækkað úr 30% í 25%, eignarskattur á íbúðarhúsnæði var felldur niður og tryggt var að uppbót vegna lágra greiðslna úr lífeyrissjóði allt að 25 þús. kr. mundi ekki skerða bætur almannatrygginga, þetta heldur allt. Vasapeningar voru hækkaðir verulega. Þetta heldur allt og við förum ekki í að skerða þetta, fyrir utan það að séreignarlífeyrissparnaður, sem skerti almannatryggingar meðan hv. þingmaður var við stjórnvölinn, mun ekki skerða bætur almannatrygginga um næstu áramót. Það er einn af þeim ávinningum sem við náðum fram og þessu höldum við.

Við förum í tvær breytingar á því sem við gerðum og hv. þingmaður nefndi það réttilega og ég ætla ekkert að koma mér hjá að nefna það. Það er að frítekjumark fyrir 70 ára og eldri, sem var ótakmarkað meðan það var takmarkað í 100 þúsund hjá 67–70 ára og hjá öryrkjum en fer núna undir sama 100 þús. kr. þakið. Frítekjumark öryrkja, sem átti að renna út um áramótin, er framlengt um heilt ár.

Við förum líka út í það að fjármagnstekjuskattur sem skerti bætur almannatrygginga um 50% skerði þær um 100%. Ég spyr: Er það eitthvað sem er hægt að gera ofboðslega mikið veður út af í þeim hremmingum sem við erum í? Ég held ekki, virðulegi forseti. Miðað við þá stöðu sem við erum í, þær hremmingar sem við erum í og þann mikla viðsnúning sem hefur orðið þá ætla ég að leyfa mér að halda að okkur hafi tekist bærilega að verja kjör lífeyrisþega.

Undir þetta 180 þús. kr. þak, sem er hækkað úr 150 þús. kr. í 180 þús. kr. falla tólf þúsund lífeyrisþegar, þar af milli sjö til átta þúsund aldraðir og fjögur til fimm þúsund öryrkjar. Ég held að ég geti staðið alveg sæmilega keik hér vegna þess að í þessari ríkisstjórn höfum við náð að verja kjör þessara lægst launuðu hópa, sem hafa hækkað helmingi meira en daglaunatryggingin á bara rúmu ári, einu og hálfu ári.

Virðulegi forseti. Mér finnst þessi gagnrýni, harða gagnrýni sem kemur að mínu viti úr hörðustu átt frá hv. þm. Birki J. Jónssyni, ekki vera sanngjörn þegar við lítum til almannatryggingakerfisins, barnabóta og vaxtabóta sem hér eru varðar. Ég tel það afar mikilvægt í þessari stöðu að við höldum því og því verði ekki breytt nú við lokaafgreiðslu fjárlaga að vaxtabætur verði skertar. Það er afar þýðingarmikið í þeirri stöðu sem við erum í að halda í vaxtabætur og auka í þær eins og við erum að gera. Í raun og sanni hefðum við líka þurft að hækka vaxtabæturnar, staðan er með þeim hætti og við munum við fyrsta tækifæri fara í það að hækka vaxtabæturnar. En það er mikilvægt að þurfa ekki að skerða þær og líka að við getum staðið við barnabætur vegna þess að eins og staðan er nú skipta barnabæturnar og vaxtabæturnar öllu máli fyrir barnafólkið í landinu.

Við höfum náttúrlega farið í gegnum þetta, ég og hv. þingmaður áður, þetta var raunverulega svo komið að miðað við þá uppsveiflu sem við vorum í og hvernig var farið í raunverulega öryggisnet almannatryggingakerfisins á tólf ára valdaferli Framsóknarflokksins með Sjálfstæðisflokknum þá vorum við farin að fjarlægjast skandinavíska velferðarkerfið, við vorum komin meira í átt til bandaríska velferðarkerfisins og velferðarkerfið var orðið meira ölmusukerfi en sjálfsagður réttur fólks. Ég vildi svo sannarlega að okkur hefði tekist á tímum þeirrar uppsveiflu sem var, þar sem voru tugir milljarða afgangur af ríkissjóði, að gera velferðarkerfið þannig úr garði að það gagnaðist líka fólki með meðaltekjur sem það þarf sannarlega að gera núna, að gagnast fólki með meðaltekjur en ekki bara lægst launaða fólkinu. Ef við hefðum gert það, staðið betur vörð um velferðarkerfið þegar við höfðum efni á því hefðum við verið miklu betur stödd á þessari stundu, virðulegi forseti.

Ég held að ég hafi ekki fleiri orð um þetta en mér ofbauð ræða hv. þingmanns áðan, hvernig hann talaði og var raunverulega með blekkingarleik. Ég er ekkert að draga úr því að við erum ekki að bæta að fullu um 20% hjá öllum lífeyrisþegum, við erum ekki að því, hjá lífeyrisþegum sem sumir eru kannski með 300 þús. kr., 350 þús. kr., sem eru þó nokkrir, við erum ekki að því. En það er þó verið að bæta kjör þeirra sem eru með langminnst úr tryggingakerfinu. Ég held að það sé eitthvað, miðað við þessar aðstæður, virðulegi forseti, sem við getum verið bærilega sátt við og að takast líka að standa vörð um skattleysismörkin.

Ég skal síðan, virðulegi forseti, ljósrita þetta hér til þess að gefa hv. þingmanni sem minningu um tíð Framsóknarflokksins á tólf ára valdaferli hans, hvernig hann fór með almannatryggingakerfið og lífeyrisþega.