136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[17:27]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir að hafa beðið um orðið og hún tekur þar fram fyrir marga af samráðherrum sínum þar sem við erum að ræða hér um mjög mikilvægt mál. Hæstv. ráðherra veifaði hér einhverju súluriti, um hlutfall í þróun lægstu launa, sem reyndar hækkuðu alveg gríðarlega á síðustu árum, við vitum það. Það fóru tugir milljarða inn í þann málaflokk á sínum tíma. Við getum deilt um hvort þeim hafi verið rétt skipt, við getum líka deilt um hvort þeir hafi verið nægilega miklir, en eitt er á hreinu að kjör allra bötnuðu á tímabilinu en margir vildu hafa það meira. Það getur vel verið að hæstv. ráðherra hafi þar að einhverju leyti eitthvað til síns máls. Ég get alveg staðið hér og viðurkennt það ef hæstv. ráðherra vill sýna mér dæmi um það. Það er enginn minni við að viðurkenna að eitthvað hefði betur mátt fara í fortíðinni.

Hæstv. ráðherra er búin að vera ráðherra félagsmála í 18 mánuði. Ég nefndi það í ræðu minni vegna þess að síðasta ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks gerði sérstakt viðmið, gerði sérstakan kjarasamning við aldraða og öryrkja og núverandi ríkisstjórn með hæstv. ráðherra, sem ég veit að meinar vel, og ákvað að breyta því viðmiði. Það lækkaði kjör aldraðra og öryrkja um 3,9 milljarða á þessu ári, á ársgrundvelli. Hæstv. ráðherra leggur nú til annan niðurskurð upp á 4,9 milljarða. Við erum að tala um niðurskurð upp 8,8 milljarða.

Ég ætla samt ekki að falsa það þannig að ekkert hafi komið í staðinn en ég fullyrði að það eru miklu lægri upphæðir en ég ræði um hér og kjör þessa hóps, og ég hvet hæstv. ráðherra þá til þess að koma með súlurit yfir það hvernig kjör aldraðra og öryrkja (Forseti hringir.) hafa þróast á sl. tólf mánuðum. Það er ekki glæsileg staðreynd, hæstv. forseti, og hæstv. ráðherra verður líka að viðurkenna þá staðreynd.