136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[17:34]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi af því að hv. þingmaður minnist á að ég hafi kallað á minn fund forsvarsmenn Öryrkjabandalagsins og aldraðra, þá er það rétt. En hv. þingmaður getur þess ekki, fyrst hann er að tala um þennan fund, hver voru viðbrögð aldraðra og öryrkja á þessum fundi við því sem ég fór í gegnum með þeim og núna er hér í fjárlagafrumvarpinu. Ég ætla ekkert að upplýsa um það nema að einu leyti, þeir fóru ekki óánægðir út. Ég gæti sagt meira en af því að hv. þingmaður nefnir þennan fund, þá vil ég bara staðfesta að þessir aðilar komu á minn fund. Ég ætla ekkert að segja um innihald fundarins nema að þeir fóru ekki óánægðir út. Hv. þingmaður verður að muna það að þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram 1. október, áður en þessar hremmingar gengu yfir, var gert ráð fyrir 9,6% hækkun á fjárlögum til aldraðra og öryrkja, sem sagt fullar vísitölubætur.

En þarf nokkurn að undra þótt það sé skoðað að þeir sem hafa betri kjörin líka í þessum hópi og fá að halda þessum 9,6%, að kjör þeirra séu að einhverju leyti skert? Við bætum að fullu hjá þeim sem voru með 150 þús. að 180 þús. Og mér finnst, miðað við þá stöðu sem við erum í, vel viðunandi. Auðvitað hefði ég viljað hafa málin þannig að við hefðum getað bætt hverjum einasta lífeyrisþega að fullu 20% vísitöluhækkanir. Ég hefði viljað að við gætum bætt hverjum einasta láglaunamanni í landinu þessar vísitölubætur að fullu. En staðan er einfaldlega ekki þannig. Og hv. þingmaður verður að skilja að það lætur eitthvað undan þegar viðsnúningur á fjárlögum er frá 57 milljarða halla upp í 215 milljarða halla. Það hlýtur eitthvað að láta undan. Og mér finnst það ósanngjarnt (Forseti hringir.) ef hv. þingmaður kemur hér upp í ræðustól og segir að við í ríkisstjórninni höfum ekki staðið vörð um kjör þeirra verst settu.