136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[17:36]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Hæstv. forsætisráðherra hóf mál sitt í framsögu fyrir frumvarpi til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á því að víkja nokkrum orðum að aðdraganda frumvarpsins, þ.e. að bankahruninu.

Mig langar til að rifja aðeins upp stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar sem er eins og hálfs árs gömul eða svo og varpa nokkru ljósi á það hvaða augum menn litu verkefni sitt fyrir einu og hálfu ári. En þar segir m.a. í kaflanum um trausta og ábyrga efnahagsstjórn, með leyfi forseta:

„Eitt brýnasta verkefni nýrrar ríkisstjórnar er að tryggja stöðugleika í efnahagslífinu í þágu heimila og atvinnulífs. Markmið hagstjórnarinnar er að tryggja lága verðbólgu, lágt vaxtastig, betra jafnvægi í utanríkisviðskiptum, jafnan og öflugan hagvöxt og áframhaldandi trausta stöðu ríkissjóðs.“

Það má auðvitað öllum vera ljóst að þetta eru öfugmæli miðað við stöðuna í dag. Og það er auðvitað öllum ljóst og það er skiljanlegt að forsvarsmönnum ríkisstjórnarinnar sem svona skrifuðu fyrir einu og hálfu ári finnist að nú þurfi að fara að endurskoða stjórnarsáttmálann. Í kaflanum um kraftmikið atvinnulíf segir, með leyfi forseta:

„Íslenskt atvinnulíf mun einkennast í sívaxandi mæli af þekkingarsköpun og útrás.“

Og síðar segir í sama kafla:

„Í umbreytingu íslensks atvinnulífs á undanförnum árum felst meðal annars aukið vægi ýmiss konar alþjóðlegrar þjónustustarfsemi, þar á meðal fjármálaþjónustu. Ríkisstjórnin stefnir að því að tryggja að slík starfsemi geti áfram vaxið hér á landi og sótt inn á ný svið í samkeppni við önnur markaðssvæði og að útrásarfyrirtæki sjái sér áfram hag í að hafa höfuðstöðvar á Íslandi. Áhersla verður lögð á að efla Fjármálaeftirlitið til þess að íslenski fjármálamarkaðurinn njóti fyllsta trausts. Tímabært er að leysa úr læðingi krafta einkaframtaksins svo að íslensk sérþekking og hugvit fái notið sín til fulls í útrás orkufyrirtækja.“

Ég endurtek, frú forseti, að það er ósköp skiljanlegt að þeir sem standa fyrir þessari ríkisstjórn vilji endurnýja þennan stjórnarsáttmála. Þeir vilja kannski strika yfir allt daðrið við útrásina og fjármálamarkaðinn eins og málum er nú komið í landinu. Alla vega er þetta ekki stefna sem eðlilegt er að fara fram með við núverandi aðstæður og var væntanlega þegar hún var sett jafnvitlaus og hún er í dag.

Margt í þessari stefnuyfirlýsingu er þvert á það sem ríkisstjórnin boðar í dag, m.a. hvað varðar frekari lækkun skatta, aukna notkun á upplýsingatækni til að bæta opinbera þjónustu, að endurskoða tekju- og verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga til þess að efla sveitarstjórnarstigið, að lengja fæðingarorlofið og fleira og fleira.

Allt er þetta nú á fallanda fæti vegna hruns bankanna og ekki síður vegna þeirra miklu skulda og þess skuldaklafa sem ríkisstjórnin hefur bundið um háls þjóðarinnar og mun koma niður á fjárlögum næstu ár ef ekki heilan áratug. Þá er ég sérstaklega að vísa til þess að menn leyfðu sér að kyngja afarkostum Evrópusambandsins og gangast undir kröfur Breta og Hollendinga um að íslenska ríkið stæði að fullu undir skyldutryggingu samkvæmt EES-sáttmála, um skyldutryggingar innlána, enda þótt engin ákvæði séu um slíkt í þeirri tilskipun.

Þessi dýra skuldsetning upp á allt að 660 milljarða kr. var síðan aðgangseyririnn að lánum hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Og ekki bara að lánum hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum heldur líka að þeim skilyrðum sem sjóðurinn hefur sett Íslandi og ætlar nú að koma hér á þriggja mánaða fresti og athuga hvernig gengur að framfylgja. Það er því miður þannig að það frumvarp sem við ræðum hér í dag ber þessa merki.

Ég ætla að nefna hér tvennt. Annars vegar þá fáránlegu tillögu um að selja inn á sjúkrahúsin, að selja aðgang að sjúkrahúsunum, að selja aðgang að sjúkrarúmunum í landinu. Og hins vegar hvernig á að svína á bændum og gera þá að nýjum misgengishóp. Það er margt annað sem ræða mætti í frumvarpinu en ég ætla að takmarka mig við þetta tvennt.

Ég ætla að byrja á bændunum. Í fjárlagafrumvarpinu er við það miðað í samræmi við búvörusamninga um sauðfjárrækt, mjólkurframleiðslu og garðyrkjuafurðir, að ríkið greiði ríflega 10 milljarða kr. til bænda samkvæmt sérstökum samningi og hann skal verðtryggður, taka mánaðarlegum breytingum samkvæmt vísitölu neysluverðs. Hann er sem sagt vísitölutryggður. Hér hefur ríkisstjórnin fundið leið sem fasteignaeigendur og þeir sem skulda húsnæðislán hafa verið að kalla eftir. Ríkisstjórnin hefur hér fundið sér leið til að setja þak á vísitöluhækkanir ársins 2009. Og ríkisstjórnin segir að fyrst ekki sé um sértæka heldur almenna skerðingu að ræða, fyrst hún sé tímabundin, þ.e. út árið 2009, og af því að þetta sé neyðarráðstöfun sem ríkinu er nauðugt að ráðast í vegna þeirra miklu efnahagsáfalla sem yfir þjóðina hefur dunið, þá verði ekki talið að þessi skerðing á vísitölugreiðslum brjóti eða stríði gegn 72. gr. stjórnarskrárinnar um eignarréttinn. Þar með hefur hæstv. forsætisráðherra sagt að það sé í lagi að grípa inn í gildandi samning ríkis og bænda.

Frú forseti. Þetta er nákvæmlega það sama og gert var 1983 þegar búinn var til misgengishópur þáverandi íbúðarkaupenda og þeirra sem skulduðu húsnæðislán annars vegar og voru launþegar um leið með því að launavísitölunni var kippt úr sambandi en vísitalan hélt áfram að hækka húsnæðislánin. Þetta er að gerast með íbúðarkaupendur núna og þó jafnvel verra í raun vegna þess að verðmæti fasteignanna minnkar líka þannig að húsnæðiseigendur eiga sífellt minna í húseignum sínum.

Ég hlýt að benda á það hér að bændur eru allir, leyfi ég mér að fullyrða, nær allir er kannski betra að segja, með öll sín lán verðtryggð, öll sín lán til uppbyggingar á býlum sínum hvort heldur er um að ræða íbúðarhúsnæði, gripahús eða hvað það er. Þetta eru örugglega allt saman verðtryggð lán. Það stendur ekki til af hálfu ríkisstjórnarinnar að skerða þá vísitölu. Nei, það á að búa til nýjan misgengishóp bænda á Íslandi með því að skerða laun þeirra. Með því að skerða samningsbundin laun, skerða vísitöluna þar en ekki á lánum þeirra og alls ekki á lánum annarra fasteignaeigenda heldur. Hér á sem sagt að taka 800 millj. kr. af launalið bænda og miða við að vísitöluhækkunin á næsta ári sé 5,7% eins og hún var fyrirhuguð í fjárlagafrumvarpinu þegar það var lagt fram 1. október sl. þegar staðreyndin er sú að nýjustu tölur frá Seðlabankanum benda til að vísitalan muni verða 14,1%. Það er það sem skuldir bænda munu hækka um en launin þeirra verða miklum mun lægri.

Ég hvet hv. efnahags- og skattanefnd til að skoða þá leið sem ríkisstjórnin hefur hér fundið og nota hana, sé hún tæk, til að skera verðbólgukúfinn af húsnæðislánum í landinu. Það hefur verið kallað eftir því í samfélaginu að gripið verði til aðgerða til að skera af þann kúf sem verður núna vegna hækkandi vísitölutryggingar á húsnæðislánum. Menn hafa fullyrt í þessum stól að það yrði of dýrkeypt og það væri ekki hægt að gera. En ríkisstjórnin hefur hér komið fram með leið sem ætti að gagnast, ef hún á að geta gagnast gagnvart bændum hlýtur hún að geta gagnast gagnvart lánum þeirra líka, fyrst hún gerir það gagnvart launaliðnum.

Mig langar síðan til að víkja að máli sem hefur verið mikið í sviðsljósinu í dag og það er að nú á að fara að selja inn á sjúkrahúsin fyrir 360 millj. kr. á næsta ári. Ég harma það að hvorki hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir né hv. formaður heilbrigðisnefndar eru í salnum. — Fyrirgefið, hér situr á forsetastóli hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir. — En ég hlýt að harma það að hæstv. heilbrigðisráðherra og hv. formaður heilbrigðisnefndar eru ekki í salnum.

Ég tek fram að hér hefur margt rangt verið sagt um það hvernig háttað er greiðslum fyrir þjónustu á sjúkrahúsum. Það er ekki lengra síðan, frú forseti, en 16. september síðastliðinn, það eru sléttir þrír mánuðir síðan Alþingi samþykkti lög um sjúkratryggingar og þar segir í 18. gr., með leyfi forseta:

„Sjúkratryggingar taka til ókeypis vistar að ráði læknis í sjúkrahúsum sem rekin eru af ríkinu eða samkvæmt samningum skv. IV. kafla, þ.m.t. á fæðingarstofnunum …“ — Síðan kemur undanþágan sem vísar til læknisþjónustu erlendis.

„Sjúkratryggingar taka til ókeypis vistar að ráði læknis í sjúkrahúsum“, sem sagt það er ókeypis að vera á sjúkrahúsum á Íslandi samkvæmt þessum lögum. Í 29. gr. sömu laga er fjallað um gjaldtöku. Þar er listað upp það sem heimilt er að taka gjald fyrir. Þar segir í 2. tölulið að taka megi gjald samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur fyrir almenna og sérhæfða heilbrigðisþjónustu á göngudeild, dagdeild, slysadeild og bráðamóttöku sjúkrahúsa sem veitt er „án þess að um innlögn á sjúkrahús sé að ræða“ — án þess að um innlögn á sjúkrahús sé að ræða. Hvað þýðir það? Það þýðir að ef maður er lagður inn á bráðadeild eða slysadeild og hann fer síðan í innlögn á sjúkrahús þá er hann ekki rukkaður fyrir komugjald. Þessu hafa hæstv. forsætisráðherra sem og hæstv. heilbrigðisráðherra neitað hér í dag, kannast ekki við sín eigin lög. Það er þannig að þurfi menn að leggjast inn á sjúkrahús á Íslandi þurfa þeir ekki að borga, hafa ekki þurft að borga. Það eru lög í landinu sem segja að þeir eigi ekki að borga en nú á að breyta því.

Ég held því fram að fara þurfi inn í sjúkratryggingalögin og breyta 18. gr. um sjúkrahúsþjónustu, ef menn ætla að halda áfram með þetta sem hér er fyrirhugað, að selja inn á sjúkrahúsin fyrir 360 millj. kr. á næsta ári.

Ég hef í umræðu um gjaldtökuákvæði sjúkratrygginga mótmælt því hvernig Landspítalinn sérstaklega og önnur sjúkrahús reyndar líka, hafa leyft sér að taka gjald fyrir rannsóknir sem eru hluti af aðgerðum, þ.e. þegar læknir fyrirskipar að sjúklingur eigi, til að mynda eins og sú sem hér stendur, að fara í beinaskann áður en hann fer er í aðgerð og þá skuli sjúklingurinn greiða úr eigin vasa beinaskannið og allar rannsóknir sem eru undanfari aðgerðarinnar samkvæmt ákvörðun læknis sem leggur sjúklinginn inn. Ég hef gagnrýnt þetta og mótmælt þessu og ég mun halda því áfram (Forseti hringir.) og mér þykir miður að í þessu frumvarpi er þetta atriði, sem ég tel stríða gegn lögum, (Forseti hringir.) notað sem rökstuðningur fyrir því að fara nú að selja inn á sjúkrahúsin.