136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[18:32]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson fór nokkuð frjálslega með staðreyndir eins og oft áður. Hann talaði um að hér væri verið að breyta miklu frá því sem verið hefði og að menn hefðu lofað gjaldfrelsi í heilbrigðismálum en nú sé eitthvað allt annað upp á teningnum. Til upplýsingar, ég hélt að vísu að allir væru meðvitaðir um þetta sem á annað borð fjalla um heilbrigðismál á þessum vettvangi, þá er kostnaðarþátttaka almenna reglan, og sérstaklega á Norðurlöndunum. Síðan er það verkefni hvernig henni er best fyrir komið. Mér fyndist eðlilegt að hv. þm. Ögmundur Jónasson ræddi þetta málefnalega vegna þess að hér er nefnd að störfum með fulltrúum allra stjórnmálaflokka og við eigum að leggja mikið upp úr því að það náist eins góð sátt og mögulegt er um það endurgreiðslukerfi sem við byggjum upp. Verkefnið er einfaldlega þetta, við viljum sjá til þess að þeir sem veikastir eru og þurfa mest á þessari þjónustu að halda, langveikir og slíkir, þurfi ekki að bera of miklar byrðar. Það er þetta sem menn leggja upp með. Hins vegar er það sársaukalítið fyrir þann sem hér stendur og þá sem hér eru inni, með fullri virðingu fyrir því ágæta fólki, að þurfa að leggja eitthvað út þegar við lendum í því að þurfa á þessari góðu þjónustu að halda. Þetta hefur alltaf verið brot af því sem þjónustan kostar. Það er alla vega sársaukalaust af minni hálfu að þurfa að leggja eitthvað fram þegar maður lendir í slíku. En við viljum koma í veg fyrir að þeir sem virkilega þurfa á þjónustunni að halda beri of miklar byrðar. Til þess er nefndin sett á laggirnar.