136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[18:37]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að reyna að einskorða mig við afmörkuð dæmi. Sagt var að rangt sé að komið hafi tilskipun um 10% niðurskurð. Í bréfi frá fjármálaráðuneytinu til ráðuneyta 14. nóvember segir, með leyfi forseta:

„Núverandi áætlanir benda til að ná þurfi það miklum árangri að því er beint til ráðuneyta að vinnuviðmið þeirra verði að útfæra tillögur um lækkun útgjalda sem nemi að minnsta kosti 10% af veltu, miðað við fjárlagafrumvarpið 2009.“

Þetta var sent til heilbrigðisstofnana, og ég er með lista yfir þær stofnanir frá heilbrigðisráðuneytinu, og þar segir m.a.:

„Eins og ykkur öllum er ljóst er íslenskt efnahagslíf í alvarlegum vanda. Meðfylgjandi er bréf sem ráðuneytinu barst fyrr í dag þar sem farið er fram á að útfærðar verði tillögur um lækkun útgjalda sem nema a.m.k. 10% af veltu miðað við fjárlagafrumvarpið 2009.“ — Síðan kemur frá heilbrigðisráðuneytinu líka, með leyfi forseta: „Heilbrigðisráðherra vill nota þetta tækifæri til að þakka forstöðumönnum hve hratt og örugglega þið hafið brugðist við tilmælum þeim sem þið fenguð í kjölfar tilmæla fjármálaráðuneytisins um 10% samdrátt útgjalda stofnana ríkisins vegna þeirrar alvarlegu kreppu sem riðið hefur yfir íslenskt þjóðfélag.“

Er ég að fara með staðlausa stafi? Eða er hæstv. heilbrigðisráðherra að fara með staðlausa hafi? (Gripið fram í.) Síðan hef ég séð þessar tillögur. Því miður er það svo að hæstv. heilbrigðisráðherra hefur farið með rangt mál. Hann hefur gert það áður en hér er ég með gögnin. (Gripið fram í.) Ég er með þessi gögn. Ég óska eftir því að ráðherrann kveðji sér þá máls í ræðu eða beri af sér sakir. Ég er að vitna í gögn frá fjármálaráðuneytinu til ráðuneyta. Ég er að vitna í gögn sem komu frá heilbrigðisráðuneytinu og þakkir þess ráðherra sem hér stendur og hefur sakað mig um að fara með staðlausa stafi. (Gripið fram í: Hver er niðurstaðan ... ?) Niðurstaðan er sú að hæstv. heilbrigðisráðherra hefur ekki sagt satt og rétt.