136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[18:40]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Hér hafa menn rætt frumvarp ríkisstjórnarinnar um sérstakar ráðstafanir í ríkisfjármálum sem fela í sér ýmsar lagabreytingar til að hægt sé að koma á auknum skerðingum í ýmsum málaflokkum í tengslum við þá stefnu ríkisstjórnarinnar að helst sé að bregðast við efnahagsvandanum með niðurskurði og sérstaklega á þeim þáttum sem snúa að velferðarkerfinu.

Þau afmörkuðu atriði sem ég ætla að taka fyrir í stuttri ræðu minni eru í fyrsta lagi það sem lýtur að framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, þ.e. að með lagaaðgerð á að kippa ákveðnum þáttum búvörusamninganna úr sambandi, samninga sem gerðir voru við samtök bænda, annars vegar við nautgripabændur og hins vegar við sauðfjárbændur og reyndar einnig við garðyrkjubændur.

Það er hollt að hafa í huga um hvers konar samninga hér er að ræða. Þetta eru samningar við bændur, framleiðendur matvæla- og landbúnaðarvara, um að þeir tryggi öruggt framboð af matvörum, mjólk, mjólkurvörum, kjöti og kjötvörum og grænmeti, að þeir tryggi ákveðið magn af þessum vörum á íslenskum markaði. Við gerum okkur grein fyrir því að sjálfstæði og öryggi þjóðar er ekki hvað síst fólgið í fæðu- og matvælaöryggi. Þessi samningur sem gerður hefur verið við landbúnaðarframleiðendur miðar einmitt að því að tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar. Það er hinn pólitíski vilji sem Alþingi og ríkisstjórn hefur farið með gagnvart þessum atvinnuvegi.

Á hinn bóginn er markmið þessa samnings að tryggja atvinnugreininni ákveðinn fjárhagsgrundvöll, ákveðinn fjárhagsstuðning til að geta staðið við ábyrgðir sínar í fæðuöryggi þjóðarinnar. Þessir samningar hafa verið fullkomlega gagnkvæmir með þeim hætti að þeir eru undirskrifaðir og ég veit að af hálfu Bændasamtakanna a.m.k. er litið svo á að þeim sé ekki hægt að breyta öðruvísi en bera þær breytingar undir samtök bænda sem gáfu þá samningaheimild og staðfestu þá samninga sem hér um ræðir. Á sama hátt hefur verið litið á að ríkisvaldið, Alþingi, ríkisstjórn, væri líka skuldbundið til að standa við þessa samninga og gæti ekki breytt þeim einhliða. Það gerir hins vegar ríkisstjórnin í þessu frumvarpi því að með frumvarpinu er verið að kippa úr sambandi hluta af grunnþáttum þessa samkomulags sem er verðtryggingin eða hluti hennar með þeim hætti að greiðslur samkvæmt þessum samningi geta skerst miðað við áætlaða verðbólgu á næsta ári um 800–1.000 milljónir. Þetta er hluti af ráðstöfunum í ríkisfjármálum. Við gerum okkur öll grein fyrir að vandinn þar er mikill. Okkur greinir hins vegar á í fyrsta lagi um forgangsröðun í þeim efnum. Það að ætla að ráðast að einum grunnþætti öryggis þjóðarinnar, sem er matvælaframleiðslan, er að minni hyggju mjög óskynsamlegt. Okkur ber einmitt nú að standa sem klettur að baki íslenskum landbúnaði, mjólkurframleiðslu, kjötframleiðslu og grænmetisframleiðslu, því að í þessa framleiðslu sækjum við styrk, byggjum upp innviði íslensks samfélags, sköpum atvinnu, öflugan matvælaiðnað og treystum fæðuöryggi þjóðarinnar. Jafnvel eru möguleikar á útflutningi á þessum góðu hágæða landbúnaðarvörum í breyttu gengi. Að mínu mati er það röng forgangsröðun af hálfu ríkisstjórnarinnar að ráðast með þeim hætti að íslenskum landbúnaði eins og hér er verið að gera.

Hitt er svo atriði líka að þetta er hluti af tekjugrunni og tekjuöryggi bænda, og 4–5 þúsund bændur, eða hvort þeir eru einu sinni svo margir, og grænmetisbændur munar um það ef tekjur þeirra hrökkva saman um 1 milljarð. Aðföng hafa hækkað, ekki síst vegna breyttrar gengisskráningar hafa erlend aðföng hækkað, áburður, olía o.s.frv. sem bændurnir verða þá að taka af launalið sínum. Hér er verið að koma inn með skerðingu á tekjum upp á 800 millj. eftir því sem hér er tilgreint að gæti orðið og gæti breyst eftir því hver verðbólgan verður og þá numið nokkur hundruð þúsundum króna á hvert býli eða hvern bónda í landinu og eru þeir ekki vel haldnir fyrir. Þetta er gert með því að brjóta einhliða þennan samning. Ríkið brýtur einhliða samning sem er að mínu viti eins konar kjarasamningur við bændur samtímis því að vera öryggissamningur um að tryggja fæðuframboð og fæðuöryggi á Íslandi.

Í vor þegar talað var um að nú ætti að fara í þjóðarsáttarumræður og tilkynnt var að stofnaður hefði verið samráðsvettvangur af hálfu ríkisstjórnarinnar og helstu aðila vinnumarkaðarins, gott og vel með það, þá spurði ég hæstv. forsætisráðherra á Alþingi af hverju bændur hefðu ekki verið kallaðir til líka og beðnir um að koma að þessu borði, hringborði þar sem ræða ætti hvernig bregðast ætti við aðsteðjandi efnahagsvanda þá í mars fyrr á þessu ári. Þá gerði hæstv. forsætisráðherra frekar lítið úr Bændasamtökunum og viðurkenndi að það væri alveg rétt að þau væru ekki með og sagði orðrétt, með leyfi forseta: „Það er fullt af samtökum sem ekki eru með. Það er ekki hægt að taka alla að sama borðinu.“

Ég minnist þess að í þjóðarsáttarsamningunum frægu gegndu einmitt bændur lykilhlutverki. Þeir tóku á sig miklar byrðar og var umdeilt hversu miklar byrðar þeir tóku, en hlutverk bænda í íslenskum þjóðarbúskap og ekki síst þegar herðir að er mikið eins og ég hef rakið. Ég hef ítrekað lagt til að ríkisstjórnin ætti að koma fram af heilindum og að hún hefði átt að kalla Bændasamtökin að slíkri þjóðarsáttarumræðu sem síðan reyndar rann því miður út í sandinn og ekki síst vegna þess að það virtist aldrei hugur fylgja máli.

Ég legg áherslu á að mér finnst þessi vinnubrögð óásættanleg af hálfu ríkisstjórnarinnar og mér finnst þau vanhugsuð. Ég spurði hæstv. forsætisráðherra í andsvari hvort gerð hefði verið úttekt á því hvaða afleiðingar þessi tekjuskerðing hefði á hlut landbúnaðarins og hvort gerð hefði verið úttekt á því hvaða áhrif þetta hefði á matvælaverð og fæðuöryggi þjóðarinnar. Svar forsætisráðherra var nei, hann vissi ekki til þess og var hann þó að mæla fyrir frumvarpinu. Og þegar ég spurði hvort hann hefði ekki gert sér grein fyrir því hvaða áhrif þetta hefði á afkomu bænda og hvernig þeir væru í stakk búnir til að taka þessari tekjuskerðingu, þá var líka svarið hjá hæstv. forsætisráðherra: Nei, hann vissi ekki til þess að það hefði verið gert. Þetta sýnir hversu handahófskennd vinnubrögðin eru og hversu óábyrg þau eru. Ég mótmæli því að gengið sé fram með þessum hætti í að skerða grunn landbúnaðarins með því að skera af honum þessi samningsbundnu réttindi.

Hitt sem ég ætla að gera að umtalsefni er svo Landssíminn. Lagt er til í þessu frumvarpi að þau sérstöku lög sem sett voru um ráðstöfun á söluandvirði Landssímans þegar hann var seldur verði felld úr gildi. Ég minnist þess, og ég hygg að þingheimur og landsmenn allir minnist þeirra átaka sem stóðu um sölu Landssímans. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs stóðum hér og börðumst gegn sölu Landssímans. Við töldum að þjóðinni væri miklu betur borgið með því að eiga sín fjarskiptafyrirtæki, sinn Landssíma. En hann var seldur gegn vilja mikils meiri hluta þjóðarinnar. Ég vil þess vegna spyrja nú þegar verið er að nema þessi lög úr gildi: Hvað stendur þá eftir ógert af því fé sem áætlað var að ráðstafa í vegaframkvæmdir upp á 15 milljarða kr. af ráðstöfunarfé Landssímans? Hvar stendur það sem áætlað var að verja til Fjarskiptasjóðs? En samkvæmt þeim ákvæðum var áætlað að verja 2,5 milljörðum kr. til nýs fjarskiptasjóðs sem hefði það hlutverk að stuðla að uppbyggingu á sviði fjarskiptamála, bættri fjarsímaþjónustu á landsbyggðinni og víðtækari dreifingu stafræns sjónvarps um gervihnött og átaki í háhraðatengingum á landinu, eins og segir í lögunum. Ég spyr: Hvar eru þessi mál stödd árið 2007? Samkvæmt fjarskiptaáætlun og þeim loforðum sem gefin voru á sínum tíma við sölu Landssímans áttu að vera komnar háhraðatengingar á öll heimili í landinu. Ég er hér með mjög góða grein eftir Jón Jónsson þjóðháttafræðing sem býr á Hólmavík, um stöðu háhraðanetstenginga hér á landi. Greinin er á vefnum strandir.is og þar segir, með leyfi forseta:

„Nú hefur um nokkurn tíma staðið til að koma háhraðaneti til fólks og fyrirtækja í dreifbýli á Íslandi, samtals um það bil 1.200 staða þar sem heilsársbúseta er til staðar eða starfandi fyrirtæki. Þessir staðir eru fyrir utan þau svæði þar sem ráðist hefur verið eða verður í slíka uppbyggingu á markaðsforsendum fjarskiptafyrirtækjanna. Fjölmargir af þessum stöðum sem enn eru án sambands eru á Vestfjörðum. Samkvæmt fjarskiptaáætlun 2005–2010 átti þessu verkefni að vera lokið í lok ársins 2007 og hluti af söluandvirði Símans var settur í þetta framfaramál og Fjarskiptasjóður átti að sjá um framkvæmdina.“

Ég hvet þingmenn til að lesa þessa ágætu grein en henni lýkur með þessum orðum:

„Uppbygging háhraðanets í dreifbýlinu er í senn réttlætismál og eitt af þeim verkefnum sem er allra mikilvægast fyrir verðmætasköpun í dreifbýlinu, mannlíf, menningu og atvinnulíf. Það eiga allir íbúar landsins að sitja við sama borð í upplýsingasamfélagi nútímans, dreifbýlisbúar eiga að hafa jöfn tækifæri á við aðra til að nýta þau sóknarfæri sem gefast …“

Nú þegar Landssíminn og þessi lög (Forseti hringir.) hafa verið lögð af þá er það lágmark að ríkisstjórnin komi og biðjist afsökunar á því að hafa selt Landssímann og í öðru lagi svari fyrir þau verkefni sem var lofað að yrðu gerð og unnin og tímasett fyrir söluandvirði Símans, frú forseti.