136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[19:45]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Þetta mál um ráðstafanir í ríkisfjármálum sem felur í sér að verið er að breyta allmörgum lögum til að hægt sé að koma við niðurskurði hefur verið rætt mjög ítarlega. Hér er verið að sækja heimildir fyrir því að taka megi upp komugjöld á sjúkrahúsin, þ.e. selja aðgang að sjúkrahúsunum. Þar með er jú brotið blað í íslenskri samhjálp og heilbrigðisþjónustu þegar farið er að selja inn á sjúkrahús.

Til viðbótar er verið að flytja frumvarp til laga sem heimilar ríkisstjórninni að skerða kjarasamning við bændur upp á ein 800 þúsund til milljarð kr. á næsta ári sem ég hef harðlega gagnrýnt. Það er virkilega gagnrýnisvert hvernig þessi ríkisstjórn veður áfram án þess að gera sér nokkra grein fyrir því hverjar afleiðingarnar verða í niðurskurði á velferðarmálum og grunnstoðum atvinnulífsins.

Landbúnaðurinn og bændur hafa staðið við sitt. Þeir hafa ávallt staðið við sitt en þeir munu kunna því illa þegar brotnir eru á þeim samningar og kjör þeirra skert einhliða eins og ríkisstjórnin er að gera í þeim samningum sem hér eru. Verið er að skerða einhliða kjör bænda af hálfu ríkisstjórnarinnar, hóps í landinu sem býr við einar lægstu tekjurnar en eina mikilvægustu starfsemina sem er landbúnaðarframleiðslan, matvælaframleiðslan og fæðuöryggi þjóðarinnar. Þessi aðgerð ríkisstjórnarinnar gagnvart bændum er ekki aðeins ámælisverð, ég tel að hún sé líka brot á þeim kjarasamningi sem ríkisstjórnin hefur gert við bændur og bændur hafa staðfest í fjöldaatkvæðagreiðslu.

Nú er verið að afnema þau lög sem sett voru um ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands. Tekist var hart á um sölu Landssímans, hlutafélagavæðingu eða einkavæðingu hans og síðan sölu hans. Meginþorri þjóðarinnar vildi eiga Landssímann. Hann var gott fyrirtæki í öflugri uppbyggingu og þjónustu, skilaði arði til ríkisins, skilaði arði til samfélagsins og bar uppi samfélagsþjónustu.

Strax eftir að Landssíminn var seldur var þjónustustöðvun lokað og þjónustan skert. Ég minnist þess að þjónustustöðvum á Blönduósi, Sauðárkróki, Siglufirði, þjónustuveri Símans á Ísafirði og símsvörun var lokað og þannig var það vítt og breitt um landið. Lofað hafði verið var að söluandvirði Landssímans færi í að styrkja m.a. fjarskiptaþjónustuna úti um land og jafnframt var lofað að fyrir árið 2007 væri búið að háhraðatengja öll býli í landinu. Enn þá eru stórir landshlutar eftir sem ekki hafa eðlilegt fjarskiptasamband né símasamband. Ég benti á mjög góða grein sem Jón Jónsson þjóðháttafræðingur, sá sem setti á stofn Galdrasetrið á Ströndum, skrifar á strandir.is þar sem hann rekur þessa stöðu.

Það er dapurt til þess að vita að nú er svo komið að við erum búin að missa Landssímann. Forsætisráðherra vissi ekki einu sinni hver ætti hann lengur. Ég spurði hæstv. forsætisráðherra: Hver á Landssímann í dag? Hæstv. forsætisráðherra svaraði að það væri nú ekki gott fyrir hann að vita hvar hinar einstöku eignir og einkafyrirtæki væru niður komin. Mér er ekki sama um það og ég tel að það væri best að við næðum Landssímanum aftur í samfélagslega eigu, til samfélagsins, til ríkisins. Við gætum þá endurvakið traust á þessu fyrirtæki og endurvakið styrk hans til þess að efla fjarskipti og (Forseti hringir.) símasamband um allt land. Það væri kannski það besta sem hefði átt að standa í þessum lögum en því miður er ekki svo. Ríkisstjórnin (Forseti hringir.) hugsar um það eitt hvernig hún geti skorið niður þjónustu og ekki hvað síst á landsbyggðinni.