136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[19:51]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Ég bið forláts, ég ætla meira að segja að fá mér vatnsglas sem ég held að ég hafi aldrei gert í þessum stóli en það er ýmislegt sem er að gerast í fyrsta sinn. Það er í fyrsta sinn verið að setja í lög ákvæði þess efnis að fólk sem leggst inn á Landspítalann eða önnur sjúkrahús í landinu verði rukkað um gjald og það finnst mér harla dapurlegt. Ég verð að trúa hæstv. forseta fyrir því að þegar ég sé frumvarp af þessu tagi vildi ég óska að í landinu væri félagshyggjustjórn. Ég held nefnilega að félagslega sinnað fólk hefði ekki sett fram tillögu af þessu tagi en hér sé á ferðinni einhver málamiðlun á milli aðila.

Við heyrðum hæstv. forsætisráðherra lýsa því að það væri gert til þess að koma á samræmi í bókhaldi innan heilbrigðiskerfisins, að gæta janfræðisreglu. Fyrst rukkað væri á einum stað hlytum við að rukka á öllum stöðum í stað þess að fara í gagnstæða átt og afnema gjaldtöku innan heilbrigðiskerfisins eins og við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði viljum stuðla að. Við viljum að öll þau skref sem tekin eru varðandi gjaldtöku verði í þá átt, að nema gjöldin brott.

Hæstv. heilbrigðisráðherra blandaði sér í umræðuna áðan. Sannast sagna er framlag hans umhugsunarvert. Hann hristi ákaft höfuðið undir ræðu minni áðan og þegar hann síðan kom í pontu í andsvari við mig sagði hann að ég hefði farið með staðlausa stafi eða frjálslega með staðreyndir, eins og það var orðað. Þegar gengið var eftir því í hverju það væri fólgið varð fátt um svör nema að hann vísaði til þess að við hefðum ranglega haldið því fram að ríkisstjórnin hefði fyrirskipað 10% niðurskurð innan velferðarþjónustunnar frá því sem fram hefði komið í fjárlögunum. Ég vek athygli þeirra sem vilja kynna sér þessi mál á því að þeir geta skoðað þingskjöl þar sem vísað er í bréf fjármálaráðuneytisins og svo aftur í gögn frá heilbrigðisráðuneytinu þar sem vitnað er til afstöðu hæstv. heilbrigðisráðherra. Með því móti geta menn sannfærst um að það var ég sem fór með rétt mál en ekki hæstv. heilbrigðisráðherra. Það er nokkuð sem hlýtur að vera mjög alvarlegt fyrir hann og hans flokk og fyrir ríkisstjórnina þegar ráðherrar verða uppvísir að því að fara beinlínis með rangt mál.

Einnig var vísað í nefnd sem starfar undir formennsku hv. þm. Péturs H. Blöndals en ég á einnig sæti í þeirri nefnd og sá hæstv. forseti sem nú stýrir þessum fundi. Ég vitnaði í þá vinnu sem þar fer fram og aftur taldi hæstv. heilbrigðisráðherra mig fara með rangt mál en þegar á hann var gengið kom í ljós að hann gat ekki fundið orðum sínum stað. Aftur, hæstv. forseti, þykir mér það vera alvarlegt að ráðherra í ríkisstjórninni verði uppvís að því að fara með staðlausa stafi.

Því miður er ræðutími minn á þrotum en ég hef engu að síður komið sjónarmiðum mínum á framfæri. Ég tel þetta mikið óheillaspor sem verið er að stíga, að hefja gjaldtöku á fólki sem leggst sjúkt inn á sjúkrahús landsins.