136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

fjáraukalög 2008.

239. mál
[20:07]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil taka undir orð hæstv. ráðherra undir lokin að frumvarpið er mjög seint fram komið og það er ámælisvert vegna þess að í frumvarpinu, eins og það er lagt hér fram, er í sjálfu sér ekkert nýtt frá síðustu tveim mánuðum. Einu gögnin og tölurnar sem þar koma fram lágu fyrir í byrjun október, því eins og hæstv. ráðherra sagði er ekki tekinn með neinn kostnaður sem tengist beint hruni bankanna.

Ég verð því að spyrja hæstv. ráðherra: Er það boðlegt að koma fram með fjáraukalagafrumvarp sem ekki tekur tillit til þess? Liggur ekki fyrir að ríkið komi með hlutafé inn í bankana? Liggur það ekki fyrir eða er það eitthvað óljóst? Er það ekki komið inn? Liggur ekki fyrir að ríkissjóður kom inn með fjármagn til styrkingar eigin fé upp á 380–400 milljarða kr., liggur það ekki fyrir? Eru ekki bankarnir meira að segja búnir að eyða því að hluta til að greiða peningamarkaðssjóðina?

Hvað fleira er það þá af þessum stærstu upphæðum sem mun standa út af, annar kostnaður við yfirtöku bankanna, vaxtakostnaður? Ég vil spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Hvað er svona óvíst við þessar tölur? Liggja þær ekki fyrir? Hvers vegna koma þær ekki fram í frumvarpinu? Eða með hvaða hætti hefur ráðherra hugsað sér að afgreiða fjáraukalagafrumvarp fyrir árið 2008 þar sem kveðið er á um útgjöld og skuldbindingar ríkissjóðs ef þessar tölur og aðrar sem tengjast (Forseti hringir.) bankahruninu á árinu eiga ekki að koma inn?