136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

fjáraukalög 2008.

239. mál
[20:53]
Horfa

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er afar vonsvikin með þessi svör hæstv. ráðherra og mér finnst hann svara með hroka þegar hann segir að ég sem þingmaður eigi að vita hvernig farið sé með bótaliði af þessu tagi í fjáraukalagafrumvarpinu. Það kann vel að vera að ég eigi að vita það, en það þýðir ekki að hæstv. fjármálaráðherra þurfi ekki að svara þeim spurningum sem lagðar eru fyrir hann úr ræðustóli. (Gripið fram í.) Þetta er mál ríkisstjórnarinnar sem ríkisstjórnin þarf að bera ábyrgð á og hæstv. fjármálaráðherra er í forsvari fyrir fjáraukalagafrumvarpið. Hann á að vera búinn að kynna sér vel þá liði sem hér eru, ég tala nú ekki um þegar það eru liðir upp á annað hundrað milljónir króna, hann á að geta svarað fyrir þá betur en hann gerir hér.

Ég vil segja þetta við hæstv. fjármálaráðherra: Ég krefst þess að þetta mál verði skoðað í nefndum þingsins á milli umræðna og ég treysti því og vona svo sannarlega að þingheimur komi til með að reka af okkur slyðruorðið eða þessari ríkisstjórn og fara í þetta mál með öðrum hætti en hér er lagt til.