136. löggjafarþing — 60. fundur,  17. des. 2008.

afstaða Sjálfstæðisflokksins til aðildar að ESB.

[13:30]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég hef áhuga á að spyrja hv. þm. Bjarna Benediktsson, formann utanríkismálanefndar, út í grein sem hann og hv. þm. Illugi Gunnarsson skrifuðu í Fréttablaðið á laugardaginn. Þar er komið inn á Evrópumál með þeim hætti að ég tel eðlilegt að þingið verði upplýst um hvað hér er á ferðinni því að þessi mál verða væntanlega mjög mikilvæg fyrir hagsmuni okkar til framtíðar.

Hæstv. utanríkisráðherra Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur gripið inn í innri málefni Sjálfstæðisflokksins á opinberum vettvangi með því að segja að komist Sjálfstæðisflokkurinn ekki að því að fara eigi í aðildarviðræður við Evrópusambandið sé sjálfhætt í ríkisstjórninni. Þannig að búið er að hóta ríkisstjórnarslitum ef Sjálfstæðisflokkurinn samþykkir ekki ákveðna stefnu sem er hæstv. utanríkisráðherra þóknanleg.

Í greininni sem mig langar að spyrja út í, sem er talsverð varnargrein, þá segja hv. þingmenn, með leyfi forseta:

„Verði það niðurstaða endurmats Sjálfstæðisflokksins að hagsmunum þjóðarinnar sé enn betur borgið utan ESB væri það engu síður mjög í samræmi við ríka lýðræðishefð í Sjálfstæðisflokknum að láta málið ganga til þjóðarinnar í kjölfar viðræðna.“

Hér er línan lögð. Skítt með hvað Sjálfstæðisflokkurinn samþykkir á landsfundi sínum. Ef hann samþykkir að við eigum frekar að vera utan ESB, skítt með það, við skulum samt fara í aðildarviðræður. Hvernig er hægt að komast að þessari niðurstöðu? Ef maður er í ríkisstjórnarflokki, hvernig ætlar maður að hunsa niðurstöður eigin flokks? En þetta telja hv. þingmenn Bjarni Benediktsson og Illugi Gunnarsson að sé mögulegt. Ég skil þetta ekki á neinn annan hátt en svo að Sjálfstæðisflokkurinn sé að leggjast algerlega flatur fyrir Samfylkingunni, algerlega. Þeir ætla ekki að taka mark á niðurstöðunni á landsfundi sínum, hver sem hún verður.