136. löggjafarþing — 60. fundur,  17. des. 2008.

afstaða Sjálfstæðisflokksins til aðildar að ESB.

[13:37]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Þessi umræða er nokkuð sérkennileg. Ég vil verja rétt hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins, sem hafa sumir hugsjónalega andstöðu við Evrópusambandið, til að fá að endurmeta hagsmuni þjóðarinnar og komast kannski að þeirri niðurstöðu að þjóðarhagsmunir kunni að vera fyrir því að sækja um aðild að Evrópusambandinu, þrátt fyrir að þeir hafi haft fyrirvara á því máli. Það er algerlega fráleitt að stilla málum upp eins og þjóðaratkvæðagreiðsla hafi farið fram um aðild að Evrópusambandinu í síðustu þingkosningum. Í síðustu þingkosningum tóku kjósendur afstöðu til mála eins og þau stóðu í því þjóðhagslega ástandi sem við bjuggum þá við. Nú eru aðrir tímar og önnur vandamál sem steðja að okkur. Auðvitað er það fagnaðarefni að stjórnmálaflokkar skuli nálgast þessi mál með opnum hætti, Sjálfstæðisflokkurinn sem aðrir, og mikilvægt að fram fari umræður innan flokkanna þannig að þeir nái að þróa nýja stefnu í þessu brýnasta hagsmunamáli þjóðarinnar.

Virðulegi forseti. Það er einfaldlega þannig að miklu máli skiptir að Sjálfstæðisflokkurinn komi með í vegferð á leið til Evrópu. Flokkurinn er stór og á víða rætur og þess vegna held ég að mjög mikilvægt sé að styðja það góða starf sem þar er hafið í því að endurmeta hagsmunamatið hvað varðar aðild að Evrópusambandinu.

Varðandi ummæli hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur áðan um orð hæstv. utanríkisráðherra sem hún reyndi að túlka sem einhverja sérstaka hótun, vil ég segja að engin hótun felst í þeim. Stjórnarflokkarnir hófu samstarf á forsendum peningamálastefnu sem þeir hafa rekið í góðri sátt síðan. Við núverandi aðstæður er öllum ljóst að framtíð íslenskrar krónu er ekki möguleg sem grundvöllur peningamálastefnu til lengri tíma litið. Við þær aðstæður þurfa flokkarnir að ná saman um nýja peningamálastefnu og ef þeir ná ekki saman um hana leiðir það auðvitað af sjálfu að ríkisstjórnarsamstarfið er sjálfhætt.