136. löggjafarþing — 60. fundur,  17. des. 2008.

afstaða Sjálfstæðisflokksins til aðildar að ESB.

[13:39]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Hæstv. forseti. Ég held að Framsóknarflokkurinn þurfi ekki að óttast það að Sjálfstæðisflokkurinn liggi flatur fyrir einum eða neinum, hvorki í Evrópumálum né öðru. Við sjálfstæðismenn stöndum keikir og vitum hver stefna okkar er í Evrópumálum eins og öðrum málum (Gripið fram í: Jæja, já.) og Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki skipt um stefnu í Evrópumálum. Stefna Sjálfstæðisflokksins er skýr eins og hún er og það þarf að breyta henni á landsfundi ef menn ætla að taka einhverja pólitíska U-beygju í tengslum við Evrópumálin.

Það er hins vegar alveg rétt að ýmsir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, fulltrúar hans og félagar eru þeirrar skoðunar að við eigum að sækja um aðild að Evrópusambandinu eða fara í aðildarviðræður við Evrópusambandið. Það er fullkomlega eðlilegt að fólk hafi þá skoðun, sérstaklega ef það telur að aðild Íslands að Evrópusambandinu leysi þann vanda sem steðjar að íslensku þjóðfélagi í dag. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að aðild okkar og aðildarviðræður að Evrópusambandinu leysi ekki þann vanda sem að okkur steðjar. Hér er fjármálakreppa og gjaldeyriskreppa og ef við viljum ganga í Evrópusambandið mun það taka fjögur ár ef marka má orð stækkunarstjóra Evrópusambandsins og við gætum þá tekið upp evru eftir sex til sjö ár í gegnum myntbandalagið. Ég hefði talið miklu eðlilegra að við tækjum alvöruumræðu um það hvort Ísland ætti að taka einhliða upp annan gjaldmiðil. Það er úrræði sem mundi leysa úr gjaldeyriskreppunni, leysa þann vanda sem að okkur steðjar með miklu markvissari og fljótvirkari hætti heldur en aðild að Evrópusambandinu. Menn hafa talað um að það sé ekki hægt vegna þess að þá föllum við í pólitíska ónáð hjá Evrópusambandinu. Sjáið þið bara Svartfellinga. Þeir tóku einhliða upp evru árið 2000 og nú fagnar Evrópusambandið og ætlar að taka þeim opnum örmum. Hvers vegna skyldi það sama ekki gilda um Íslendinga?