136. löggjafarþing — 60. fundur,  17. des. 2008.

afstaða Sjálfstæðisflokksins til aðildar að ESB.

[13:42]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Vegna síðustu orða fyrri ræðumanns þá tek ég undir með honum að vonandi tekur Evrópusambandið Íslandi opnum örmum eins og Svartfellingum (Gripið fram í: Já.) [Hlátur í þingsal.] þegar þar að kemur. En á ögurstundu í lífi þjóðar er forustumönnum hennar skylt að kanna til hlítar alla þá kosti sem henni gefast um heill og hamingju. Við Íslendingar höfum aldrei staðið á annarri eins ögurstundu í efnahagsmálum og það er fagnaðarefni að forustumenn úr Sjálfstæðisflokknum, eins og hv. þm. Bjarni Benediktsson og Illugi Gunnarsson, skuli gefa út þá yfirlýsingu (Gripið fram í.) að sjálfsagt sé að fara í aðildarviðræður enda er það skylda okkar sem erum þjóðkjörin á þing að beita okkur fyrir aðildarviðræðum við Evrópusambandið og kanna þá kosti sem þjóðin á og leggja málin síðan í dóm þjóðarinnar. Til þess hafa þjóðkjörnir alþingismenn ekki aðeins umboð heldur beinlínis skyldu vegna þess að allir sem sitja á Alþingi Íslendinga viðurkenna að sterk málefnaleg rök eru fyrir því að við kunnum að vera best komin innan veggja Evrópusambandsins (Gripið fram í.) og að úr því verði ekki skorið nema með aðildarviðræðum. Þess vegna er skylda okkar við þjóðina, hvað sem líður umræðum eða ályktunum á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í janúar, að ganga til þeirra aðildarviðræðna, ljúka þeim og leggja niðurstöðuna í dóm þjóðarinnar og ég fagna því að tveir óbreyttir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafi sýnt þann kjark og þá forustu að lýsa því yfir í grein sinni í Fréttablaðinu á laugardag.