136. löggjafarþing — 60. fundur,  17. des. 2008.

afstaða Sjálfstæðisflokksins til aðildar að ESB.

[13:48]
Horfa

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Sú sem hér stendur telur þetta vera mikla „ekki-frétt“ sem matreidd hefur verið upp úr grein þeirra félaga, hv. þingmanna Bjarna Benediktssonar og Illuga Gunnarssonar, og ég rökstyð það með þessum orðum: Hugsa þeir sér í alvöru að það geti gerst að Íslendingar taki upp aðildarviðræður við Evrópusambandið, landi samningi og beri hann ekki undir atkvæði þjóðarinnar? Ef svo væri væri það mikið gerræði og hefur ekkert af þeim löndum sem gengið hafa inn í Evrópusambandið á síðustu áratugum látið sér detta í hug að gera annað en að fara með samninginn í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er auðvitað sá framgangsmáti sem hafður er.

Það er því sjálfsagt mál að ef farið yrði í aðildarviðræður og samningi yrði landað gerist það nánast án þess að maður þurfi að orða það að sá samningur yrði borinn undir þjóðaratkvæði. Mér þykir þetta því mikil „ekki-frétt“.

Hins vegar langar mig til að spyrja hv. þingmenn sem skrifuðu þá grein sem hér er til umræðu hvort þeir geti hugsað sér að þessi ríkisstjórn sem nú situr hafi til þess vald, ef hún ákveður það í einhverju innbyrðis makki, að sækja um aðild að Evrópusambandinu án þess að kosið hafi verið um það annað hvort í alþingiskosningum eða sjálfstæðri kosningu áður. Það er spurningin sem þessir hv. þingmenn þurfa að svara. Telja þeir að það væri réttlætanlegt og möguleiki að þessi ríkisstjórn kæmi sér saman um að sótt yrði um aðild?

Svo vil ég segja að klúbburinn sem hv. þm. Birgir Ármannsson er ekki tilbúinn til að ganga inn í — og ég ekki heldur — er auðvitað með þeim hætti að maður plokkar þar ekki eitthvað af einhverju hlaðborði og tekur einn réttinn en hafnar öðrum. Við þekkjum öll stefnu Evrópusambandsins (Forseti hringir.) og vitum hvað þyrfti að innleiða í þeim efnum.