136. löggjafarþing — 60. fundur,  17. des. 2008.

afstaða Sjálfstæðisflokksins til aðildar að ESB.

[13:50]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta er góð umræða og tímabær. Hér hefur verið velt upp þeirri spurningu hvort núverandi ríkisstjórn hafi til þess umboð að sækja um aðild að Evrópusambandinu á eigin spýtur án undangenginna kosninga eða þjóðaratkvæðis. Svar mitt við þeirri spurningu er afskaplega einfalt og það er já. Ríkisstjórnin hefur til þess fulla heimild, algjörlega fulla og óskoraða heimild. Ég vænti þess að ríkisstjórnin geri það vegna þess að allt annað mundi tefla bráðum þjóðarhagsmunum í tvísýnu. Okkur liggur á að hefja aðildarviðræður, það er mikilvægt að gera það við fyrsta tækifæri þannig að (Gripið fram í.) það á gerast strax, eins fljótt og unnt er á á næsta ári.

Það sem síðan er von til er að við getum haldið þjóðaratkvæðagreiðslu um niðurstöðu aðildarsamnings seint á næsta ári ef gríðarlega vel gengur, annars fljótlega á árinu 2010. Það er hinn eðlilegi framgangsmáti enda ómögulegt að fara í kosningabaráttu við draugasögur af þeim toga sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir byrjaði á áðan um hvað væri í vændum í aðildarsamningum. Það er ómögulegt að fara í kosningabaráttu um órökstuddar væntingar. Við verðum að fara í baráttu um kosti og galla aðildarsamnings sem fyrir liggur þar sem ljóslega liggur fyrir innihald samningsins. Það er hinn eðlilegi framgangsmáti, það er hinn lýðræðislegi framgangsmáti. En að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu áður en lagt er af stað í aðildarviðræður er ekki skynsamleg aðferðafræði.

Ég deili skoðunum hv. þm. Ögmundar Jónassonar í þessu efni sem talaði fyrir réttri aðferð, þ.e. að fyrst yrði sótt um og síðan yrðu niðurstöður samninga lagðar fyrir þjóðaratkvæði. Það er hinn eðlilegi framgangsmáti í málinu, þá liggur fyrir niðurstaða samninga. Við skulum því vona að hlutir gangi fram svo að við náum að leggja inn umsókn strax í febrúarmánuði næstkomandi.