136. löggjafarþing — 60. fundur,  17. des. 2008.

afstaða Sjálfstæðisflokksins til aðildar að ESB.

[13:53]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Þessi umræða snýst dálítið um að kalla eftir því á hvaða vegferð Sjálfstæðisflokkurinn er í þessum Evrópumálum. Við vitum það og það er staðreynd að búið er að flýta landsfundi flokksins um marga mánuði. Honum er ekki flýtt til þess að samþykkja óbreytta stefnu, virðulegi forseti, enda hefur varaformaður flokksins tekið af skarið í gegnum fjölmiðil sinn í Noregi og sagt: Við ætlum að fara inn í Evrópusambandið. Það er línan sem búið er að leggja fyrir flokksmenn Sjálfstæðisflokksins í aðdraganda flokksþings sem verður núna í næsta mánuði.

Í öðru lagi var sárlega undan því kvartað í ályktun fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Vestmannaeyjum í gærkvöldi hvernig flokkurinn stendur að þessu máli. Það er fundið að því að flokkurinn láti undan dulbúnum hótunum samstarfsflokksins og hvatt til þess að hann geri það ekki. Það er harmað alveg sérstaklega að enginn af 14 verkstjórum málefnahópanna skuli koma af landsbyggðinni heldur eiga þeir allir lögheimili á höfuðborgarsvæðinu. Það er harmað sérstaklega að sjávarútvegsmál eru ekki tekin fyrir sem sjálfstæður málaflokkur í Evrópumálum hjá flokknum heldur felldur undir auðlindamál. Það er dálítið athyglisvert í ljósi þess að í atkvæðagreiðslu Samtaka atvinnulífsins kemur í ljós að 94% félaga í Samtökum fiskvinnslustöðva eru á móti aðild að Evrópusambandinu og 97,6% félaga í Landssambandi íslenskra útvegsmanna. Þessi hópur, sem er fjölmennur innan Sjálfstæðisflokksins, er settur til hliðar. Það er það sem fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna í Vestmannaeyjum harmar alveg sérstaklega í ályktun sem send hefur verið (Forseti hringir.) fjölmiðlum, virðulegi forseti.