136. löggjafarþing — 60. fundur,  17. des. 2008.

afstaða Sjálfstæðisflokksins til aðildar að ESB.

[13:55]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Þetta eru nú ekki dulbúnar hótanir sem formaður Samfylkingarinnar hefur verið með, þetta eru beinar hótanir. Stálhnefinn er settur fram og sagt við Sjálfstæðisflokkinn: Ef þið samþykkið ekki aðildarviðræður þá er sjálfhætt. Þetta er ekkert flókið, þetta skilja allir.

Hvað gerist síðan? Varaformaður Sjálfstæðisflokksins, hæstv. menntamálaráðherra, segir: Við förum inn í Evrópusambandið. Hún segir það í Noregi. Hvað segir hæstv. forsætisráðherra, Geir H. Haarde? Hann talar um þá sem eru andsnúnir Evrópusambandinu, (Gripið fram í: Hvað segir þú?) að þeir geti þá bara farið í VG. Hann segir: Vesgú, farið þið í VG. (Gripið fram í: Hvað segir þú?) Þetta hefur verið sagt á opinberum vettvangi.

Sá eini sem hefur að mínu mati sagt sannleikann í dag í stjórnarliðinu í þessu máli er hv. þm. Birgir Ármannsson. (Gripið fram í: Nú ...) Hann segir: Það fer enginn í aðildarviðræður í klúbbi sem maður vill ekki tilheyra. En það er það sem hv. þingmenn, Illugi Gunnarsson og Bjarni Benediktsson, vilja gera. (Gripið fram í.) Það þurfa að koma rök fyrir þessari skoðun. Hvernig er hægt að færa rök fyrir því að segi Sjálfstæðisflokkurinn nei, að ekki beri að fara inn í Evrópusambandið, eigi samt að fara í aðildarviðræður? Það er svo holur hljómur í þessu.

Þegar við förum í aðildarviðræður — og ég held að það verði — þurfa menn að vilja að reyna að ná samningi. Þá hljóta menn að reyna að komast þarna inn með ákveðnum skilyrðum en ekki að reyna að fara í sambandið. Sagt er: Nei, við ætlum ekkert inn en við erum samt að „snakka“ við Evrópusambandið. Þetta er svo fáránlegur málflutningur, virðulegur forseti.

Eina röksemdin sem getur legið að baki þessari skoðun er sú að hluti Sjálfstæðisflokksins er skjálfandi á hnjánum gagnvart Samfylkingunni og þorir ekki að segja annað fyrir landsfundinn en að fari svo að hann samþykki ekki að (Forseti hringir.) fara inn í Evrópusambandið eigi samt að fara í aðildarviðræður, annars sé ríkisstjórnin steindauð.