136. löggjafarþing — 60. fundur,  17. des. 2008.

afstaða Sjálfstæðisflokksins til aðildar að ESB.

[13:57]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Frú forseti. Það er gaman að hlusta á þessar umræður og ég fagna því eiginlega að þær skuli vera komnar inn í þingsal. Og mikið rosalega er ég glöð að vera í flokki þar sem ekki allir eru sammála, glöð að tilheyra hópi fólks sem þorir að hafa sjálfstæðar skoðanir og láta ekki kúga sig af einum eða neinum og þora að segja það upphátt. (Gripið fram í: En það er líka í Sjálfstæðisflokknum.) Það er meira en margur getur sagt.

Ég er ein þeirra sem er fylgjandi því að farið verði í aðildarviðræður við Evrópusambandið, að kannaðir verði kostir og gallar þess sambands fyrir íslenska þjóð. Það verði síðan lagt í þjóðaratkvæðagreiðslu til þess að þjóðin geti sjálf tekið ákvarðanir um örlög sín. Það er það sem skiptir máli.

Ég get líka upplýst hér og nú svo að það fari ekki á milli mála að ég er sjálf fylgjandi aðild að ESB, það er ekkert flókið. Það er enginn holur hljómur í þeirri skoðun og það er ekki holur hljómur í þeim sem segja svo í Sjálfstæðisflokknum. Við sem viljum þessa leið segjum það upphátt og erum ekki að fela eitt eða neitt í þeim efnum. Hins vegar er ferli okkar þannig að það er landsfundur sem leggur ákveðnar línur og það verður gert á landsfundi 29. janúar. Þá tökumst við á, þeir sem eru hlynntir aðildarviðræðum og hinir. Þá kemur í ljós hvor hópurinn verður ofan á.

Ekki væna fólk um holan málflutning eða segja að það þori ekki eða hafi ekki kjark til þess að segja skoðanir sínar. Það væri fróðlegt að vita hvað hv. þm. Siv Friðleifsdóttir vill segja í Evrópumálum síns flokks, Framsóknarflokksins. Þar hafa menn farið út og suður og gengið í burtu af því að þeir hafa ekki haft kjark til þess að taka umræðuna.