136. löggjafarþing — 60. fundur,  17. des. 2008.

greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

28. mál
[14:19]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég kem hér upp til að gera grein fyrir þeim fyrirvara sem ég hef við nefndarálit sem er að finna á þskj. 351, 28. mál, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, með síðari breytingum, þ.e. sá fjárhagsgrundvöllur sem Fjármálaeftirlitinu er ætlað að starfa eftir. Ég skrifa undir nefndarálitið með fyrirvara.

Við vitum öll hversu mikilvægt það hlutverk er sem Fjármálaeftirlitinu var ætlað eftir setningu neyðarlaganna og við hljótum að horfast í augu við það hér, rúmlega tveimur mánuðum síðar, að Fjármálaeftirlitið nýtur ekki þess trausts sem nauðsynlegt er að það hafi fyrst það hefur það hlutverk með höndum sem raun ber vitni. Ýmislegt hefur orðið til þess á undanförnum vikum að trú og traust manna á Fjármálaeftirlitinu er ekki mikið. Nærtækasta dæmið er vitneskja og viðurkenning forstjóra Fjármálaeftirlitsins á því að hann hafi ekki gert sér grein fyrir þeim hagsmunatengslum sem vissulega hlutu að vera til staðar þegar KPMG-endurskoðunarfyrirtækinu var falið að endurskoða aðdraganda bankahrunsins í gamla Glitni en það endurskoðunarfyrirtæki hafði verið aðalendurskoðandi stærstu eigenda bankans, um 40% af eigendum bankans, og þar á meðal Stoða, sem áður voru FL Group, og Baugs. Það er dapurlegt ef forustan í Fjármálaeftirlitinu gerir sér ekki grein fyrir slíkum hlutum. Það er líka að mínu viti gersamlega óskiljanlegt að ekki skuli vera búið að endurskipuleggja starfsemi skilanefndanna en hún fer öll fram á ábyrgð Fjármálaeftirlitsins.

Ég geri ekki athugasemdir við það þegar reynt var að setja upp skilanefndir eða rekstrarstjórnir fyrir þrotabú, sem þá var talað um, gömlu bankanna á kannski 24 klukkustundum eða einum til tveimur sólarhringum. Það var úr vöndu að ráða og sópa þurfti saman fólki til þessara vandasömu starfa, einn tveir og þrír. Það var gert. En tíu vikum síðar stenst þessi gjörningur enga krítik og það sem meira er að í skilanefndum bankanna hefur einstaklingum verið skipt út, að minnsta kosti fjórum einstaklingum, og það verður að segjast eins og er að enn eru í skilanefndunum lykilmenn sem áður störfuðu við gömlu bankana og réðu þar lögum og lofum í tilteknum þáttum bankastarfseminnar.

Ég hef nefnt hér tvö atriði sem hafa á síðustu vikum orðið til þess að draga verulega úr trú og trausti á Fjármálaeftirlitið og það er mjög alvarleg staða vegna þess mikilvæga hlutverks sem því er falið með neyðarlögunum. Ég vil taka undir og hrósa hv. þm. Guðfinnu Bjarnadóttur fyrir innlegg hennar um viðbrögð við krísu á þessu stofnanastigi, sem er Fjármálaeftirlit, Seðlabanki og náttúrlega ráðuneyti sem hún ræddi þó ekki um í ræðu sinni hér áðan.

Það er rétt að komið hefur fram sú hugmynd að sameina Fjármálaeftirlitið aftur Seðlabanka Íslands og ég tel að það sé allrar athugunar virði. Það er hins vegar furðulegt að lesa það í blöðum, haft eftir hæstv. forsætisráðherra, að ekki sé hægt að gera það einn tveir og þrír vegna þess að breyta þurfi lögum. Datt einhverjum í hug, frú forseti, að hægt væri að endurskipuleggja starfsemi Fjármálaeftirlitsins og flytja það inn í Seðlabankann án þess að breyta lögum? Ég held að það sé fráleit hugsun. Auðvitað þarf að breyta lögum og það tekur tíma en það er alveg ljóst að efla þarf Fjármálaeftirlitið en fyrst og fremst að endurskipuleggja það. Ég vil leyfa mér að segja úr þessum ræðustól að endurmanna þurfi allar lykilstöður, bæði í stjórn og forustu embættismanna Fjármálaeftirlitsins, til þess að það öðlist tiltrú og traust almennings í landinu.

Ég vil vísa, frú forseti, til þriðja atriðisins sem dregið hefur úr trausti á Fjármálaeftirlitinu og það er svar viðskiptaráðherra við fyrirspurn hv. þm. Atla Gíslasonar um launakjör stjórnenda Fjármálaeftirlitsins en skriflegt svar er að finna á þskj. 333. Hv. þm. Atli Gíslason spurði hver væru launakjör forstjóra, aðstoðarforstjóra og yfirmanna fjögurra verkefnasviða Fjármálaeftirlitsins og hver væru launakjör aðalmanna og varamanna í stjórn Fjármálaeftirlitsins en frá upphafi hefur stjórn Fjármálaeftirlitsins unnið þannig að varamenn hafa setið þar alla stjórnarfundi og tekið þátt í afgreiðslu mála.

Í þessu svari, frú forseti, kemur fram að stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins hefur 260 þús. kr. á mánuði fyrir stjórnarformennskuna og að sú tala var tvöfölduð frá 1. júlí sl. Sem sagt, frá 1. júlí sl. eru mánaðarlaunin 520 þús. Aðrir stjórnarmenn hafa 130 þús. kr. í laun og sú upphæð hefur verið tvöfölduð frá 1. október sl. Varamenn hafa síðan 90 þús. kr. í laun og ráðherra hefur tvöfaldað hana frá 1. október sl. Tvöföldun á launum þessara stjórnarmanna er rakin til þess mikla álags sem fylgdi fjármálakreppunni og nýjum verkefnum m.a. vegna neyðarlaganna sem eins og fram kemur í svarinu hefur margfaldað fundartíðni og leitt til þess m.a. að stjórn Fjármálaeftirlitsins hefur þurft að funda um helgar, á kvöldin og á nóttunni.

Í svarinu kemur einnig fram að forstjóri Fjármálaeftirlitsins, frú forseti, er með 1.700 þús. kr. mánaðarlaun og þar að auki með 100 þús. kr. kaupauka sem er 6,5% tillegg í lífeyrissjóð, viðbótarframlag umfram almenn framlög þannig að mánaðarlaunin fyrir utan venjulegt lífeyrissjóðsframlag eru um 1.800 þús. kr. Ekki kemur fram í þessu svari hvort önnur fríðindi, svo sem bíll eða annað, fylgja þessu starfi en ljóst er, frú forseti, að hér er enn við lýði ofurlaunastefnan sem smitaði inn í stofnanir ríkisins og þarf að taka á og breyta. Aðstoðarforstjóri hjá Fjármálaeftirlitinu hefur 1.250 þús. kr. á mánuði og sviðsstjórar sem spurt var um hinna fjögurra verkefnasviða Fjármáleftirlitsins hafa laun á bilinu 850–970 þús. kr. á mánuði.

Ég rek þetta, frú forseti, vegna þess að kröfurnar sem gerðar eru til Fjármálaeftirlitsins eru auðvitað gríðarlega miklar af tveimur ástæðum, vegna stöðu þess og hlutverks í samfélaginu og í fjármálalífinu, vegna mikilvægis þess, en líka vegna þess að þeir sem þarna sýsla um og eru í vinnu eru ansi vel launaðir og ættu að geta sinnt starfi sínu án þess að þurfa að vera að vasast í öðru. Þess vegna er það að sá slappleiki sem komið hefur fram hjá eftirlitinu á undanförnum 10 vikum, þegar mikið og mest hefur á reynt, hrópar í himininn og hrópar á það sem ég sagði áðan að skipt verði út mönnum bæði í stjórn og í forustuliði starfsmanna.

Svo ég víki aðeins nánar að efni frumvarpsins þá hef ég annan fyrirvara. Ég vil taka fram, það sem þingmenn væntanlega vita, að kostnaður við starf Fjármálaeftirlitsins er borinn uppi af þeim sem Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með. Ekki er um fjárframlög frá hv. Alþingi að ræða. En það hefur komið fram í þessari umræðu að ekki er þörf á auknu fjármagni til Fjármálaeftirlitsins við þessar aðstæður þrátt fyrir aukin verkefni og ný, m.a. eftirlit með innheimtustarfsemi og eftirlit með gjaldeyrishöftunum sem sett voru á með lögum fyrir skemmstu, vegna þess að það hefur dregið svo mikið úr umsvifum Fjármálaeftirlitsins við eftirlit með erlendri starfsemi bankanna.

Það frumvarp sem hér er til umræðu byggist að mestu á samkomulagi milli þeirra sem eiga að greiða gjaldið og standa undir rekstri Fjármálaeftirlitsins og það kemur fram í nefndarálitinu að frá árinu 2006 hefur eftirlitsgjaldið, þ.e. kostnaður við rekstur Fjármálaeftirlitsins, aukist um 90% og því er ætlað að verða tæpur milljarður á næsta ári eða 826 millj. kr. Ég gerði þann fyrirvara við þessar tillögur um fjárframlag að eftirlitsgjaldið sem gömlu bankarnir, Kaupþing banki hf., Glitnir banki hf. og Landsbanki Íslands hf., verði föst fjárhæð, 4 millj. kr. á hvern banka. Ég vil benda á það, frú forseti, að hér er um að ræða 12 millj. kr. alls sem dugir ekki voðalega langt miðað við þau launakjör sem þarna eru í starfsmannahaldi, 12 millj. kr. af 826 millj. kr. er ætlað að standa undir starfsemi Fjármálaeftirlitsins við eftirlit með gömlu bönkunum. Ég tel þetta algerlega vanáætlaða fjárhæð. Ég hefði viljað hafa þessar fjárhæðir miklu hærri því það er alveg ljóst að það þarf miklu meira til að hafa eftirlit með starfsemi þessara banka en upphaflega var áætlað. Það var talað um það að setja þessa gömlu banka í gjaldþrot. Nú er talað um það opinskátt á fundum hv. viðskiptanefndar að þeir muni jafnvel vera í rekstri undir greiðslustöðvun í 3–5 ár. Þá er ljóst að eftirlitsgjaldið dugir skammt, eftirlitið sem Fjármálaeftirlitið þarf að hafa verður vitaskuld miklu mun meira heldur en fyrirhugað var.

Ég vil leyfa mér að rifja upp, frú forseti, úr nefndaráliti hv. allsherjarnefndar sem ég hef þó því miður ekki við höndina — skildi það eftir í sæti mínu af vangá — það sem þar segir um sérstakan ríkissaksóknara og verkefni hans að það er sérstök staða sem Fjármálaeftirlitið er í við rekstur þessara gömlu banka, skilanefndanna. Skilanefndirnar starfa á ábyrgð Fjármálaeftirlitsins beint og þær eru valdar af Fjármálaeftirlitinu og starfa í umboði þess. En Fjármálaeftirlitinu er jafnframt ætlað að hafa eftirlit með þessum skilanefndum og starfsemi þeirra og starfsemi bankanna. Eins og hér kemur fram, frú forseti, þá er þetta eftirlit metið á 12 millj. kr. á næsta ári og það er mikil vanáætlun.

Ég tel mjög brýnt að stokka upp það fyrirkomulag sem ákveðið var, út úr neyð, þann 6. október sl. Ef ætlunin er að reka gömlu bankana ég tala nú ekki um í 3–5 ár þá verður að klippa þarna á milli. Það er ekki hægt að Fjármálaeftirlitið beri ábyrgð á rekstri þessara banka með skipan skilanefnda og ákvörðun um það hvernig þær starfa og hafi á sama tíma með höndum eftirlit með þeirri starfsemi. Í þessu, frú forseti, eru fyrirvarar mínir fólgnir. Það þarf að skipta út starfsmönnum Fjármálaeftirlits og stjórn. Það þarf að flytja og endurskipuleggja Fjármálaeftirlitið og flytja það jafnvel inn í Seðlabankann eins og bent hefur verið á og skera þarf á tengsl milli reksturs og eftirlits bankanna gömlu.

Það er alveg ljóst að við Vinstri græn teljum að setja eigi þessa gömlu banka í þann farveg sem ætlað var við setningu neyðarlaganna, þ.e. með því að stýra þeim í gjaldþrot. Við höfum bent á að þær ákvarðanir sem hér voru teknar um aðra leið, að keyra þá í greiðslustöðvun til allt að 24 tíma, standist ekki ákvæði stjórnarskrár. En það er annað mál sem ekki verður afgreitt með afgreiðslu þessa frumvarps.

Frú forseti. Ég mæli með því að frumvarpið verði samþykkt og hef gert grein fyrir þeim fyrirvörum sem ég hef við það.