136. löggjafarþing — 60. fundur,  17. des. 2008.

frjáls atvinnu- og búseturéttur launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins o.fl.

179. mál
[14:45]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Í þessu máli, eins og flestum öðrum, eru nokkur álitaefni sem mér þykir rétt að víkja aðeins að og fjalla um í tengslum við afgreiðsluna á því.

Fyrsta álitaefnið er hvort víkja eigi frá því sem um hefur verið samið varðandi sameiginlegan vinnumarkað gagnvart þessum tveimur ríkjum, Rúmeníu og Búlgaríu, og fresta því að þegnar þeirra hafi aðgang að íslenskum vinnumarkaði eins og þegnar annarra Evrópusambandsríkja.

Í frumvarpinu sem félagsmálaráðherra flutti er lagt til að samningsákvæði sem Evrópusambandið gerði við þessi ríki verði nýtt og aðgangi að sameiginlega vinnumarkaðnum frestað með þeim rökum að mikil óvissa sé á innlendum vinnumarkaði og atvinnuleysi hafi aukist hratt og erfitt sé að meta horfurnar til lengri tíma. Því sé rétt að bíða þess að horfurnar batni.

Ef við skoðum aðeins röksemdafærsluna, sem út af fyrir sig er góð og gild, er hún þannig að atvinnuleysi var um 4,4% í upphafi mánaðarins og samkvæmt því sem fram kemur í frumvarpinu er atvinnuleysi talið vera um 5% að meðaltali í desember samkvæmt mati Vinnumálastofnunar og geta orðið allt að 8% í lok febrúar. Það er mikið atvinnuleysi á okkar mælikvarða. Miklu meira en Íslendingar eru vanir á vinnumarkaði hér.

Það eru rökin fyrir því að grípa til þessara aðgerða og væntanlega, þótt það sé ekki sagt í greinargerðinni, með þeim rökum að ef þær milljónir manna sem búa í Búlgaríu og Rúmeníu hafa aðgang að íslenskum vinnumarkaði muni einhverjir þeirra koma hingað, sækja hér atvinnu og við það muni atvinnuleysi aukast. Það eru væntanlega rökin.

Þá vil ég í fyrsta lagi segja um þetta að þessi tillaga ríkisstjórnarflokkanna staðfestir að það voru mistök á vormánuðum 2006 að nýta ekki sambærilegt ákvæði við átta ný Evrópusambandsríki og fresta gildistöku ákvæða gagnvart þeim um sameiginlegan vinnumarkað á EES-svæðinu. Það voru Eystrasaltslöndin þrjú, Eistland, Lettland og Litháen. Það voru Pólland, Tékkland, Slóvakía, Slóvenía og Ungverjaland. Þá var ákveðið að nýta ekki ákvæði samnings Evrópusambandsins við þessi átta ríki um að heimilt væri að fresta uppfyllingu ákvæða um aðgang þeirra að sameiginlegum vinnumarkaði og sérstök lög voru samþykkt á vormánuðum 2006 og lét hæstv. félagsmálaráðherra til sín taka eins og vera ber og honum er lagið. Þá var niðurstaðan að fresta því ekki.

Þessi niðurstaða nú segir okkur að það voru mistök að fresta ekki gildistöku ákvæðanna um vinnumarkaðinn gagnvart þessum átta ríkjum. Vegna þess að þá og ef það hefði verið gert hefði verið unnt að fresta þeirri gildistöku með sannfærandi hætti eins og nú er verið að gera gagnvart þessum tveimur um þrjú ár, þ.e. fram til 1. maí 2009. Eins og fram kemur í frumvarpinu sem þá var til umræðu var sérstakt ákvæði í samningnum við þessi átta ríki sem gerði það að verkum að ef röskun yrði á vinnumarkaði yrði heimilt að fresta um tvö ár enn, fram til ársins 2011. Þannig að ef Íslendingar hefðu nýtt sér frestunarákvæðið gagnvart þessum átta ríkjum Evrópusambandsins í apríl 2006 hefðum við getað frestað því til apríl 2009 og síðan 2011.

Þess vegna óskaði ég eftir því að hæstv. félagsmálaráðherra kæmi hingað þótt hann sé önnum kafinn til þess að bera undir ráðherrann þessi sjónarmið og kalla eftir því hvort ekki sé rétt skilið hjá mér að ef frestunin hefði verið nýttur 2006 fyrir þessi átta ríki mundi ráðherrann hafa lagt til núna að fresta þeim aftur um tvö ár gagnvart þessum átta ríkjum eins og nú er lagt til gagnvart þessum tveimur ríkjum, Rúmeníu og Búlgaríu. Það er spurning mín til hæstv. ráðherra.

Er ekki rétt skilið að ráðherrann hefði lagt til áframhaldandi frestun um tvö ár til 2011 gagnvart þessum átta ríkjum ef menn hefðu valið þann kostinn þá að nýta sér heimild til frestunar?

Ég vildi draga fram, virðulegi forseti, að miðað við það mat ríkisstjórnarinnar núna að nauðsynlegt sé að fresta aðgangi Rúmena og Búlgara að íslenskum vinnumarkaði vegna aðstæðna þá leiðir það sjálfkrafa til sama mats gagnvart þeim átta ríkjum sem fengu aðgang að vinnumarkaðnum árið 2006.

Í öðru lagi vil ég víkja að spurningum sem félagsmálanefnd lagði fyrir ráðherrann að mínu undirlagi og ég þakka nefndinni fyrir að gera spurningarnar að sínum og jafnframt þakka ég ráðherranum fyrir svörin. En í svörunum kemur mjög skýrt fram að mat ráðherrans eða ráðuneytisins sé að ekki sé hægt að beita hinu almenna öryggisákvæði EES-samningsins, 112. gr., til þess að takmarka aðgang vinnuafls frá Evrópusambandsríkjunum að íslenskum vinnumarkaði meðan svona ástand er uppi sem nú er. Niðurstaða ráðuneytisins er að það sé ekki hægt. Þannig gætum við t.d. ekki beitt öryggisákvæðinu núna til að draga úr aðgangi að íslenskum vinnumarkaði á þessu ári eða komandi árum. Það er mat ráðherrans.

Ég held það þurfi að fara yfir það mál. Augljóslega munu koma upp aðstæður í framtíðinni, eins og núna, þegar menn vildu gjarnan geta gripið til ráðstafana til að takmarka aðgang að vinnumarkaðnum og draga þannig úr atvinnuleysi hér á landi. Það hefði örugglega verið vilji ríkisstjórnarinnar til að grípa til slíkra aðgerða, t.d. gagnvart þessum átta ríkjum sem lagasetningin 2006 átti við, til þess að létta á íslenskum vinnumarkaði. En mat ráðuneytisins er að það sé ekki hægt. Með öðrum orðum að þegar menn eru einu sinni komnir inn í kerfið er ekki hægt að snúa til baka.

Aðstæður geta komið upp eftir nokkur ár, fimm eða tíu þar sem árar illa í íslensku efnahagslífi og mikið atvinnuleysi er og menn kunna að vilja takmarka aðganginn. Er það hægt með því að beita fyrir sig 112. gr. EES-samningsins?

Skilningur ráðuneytisins er — alla vega miðað við aðstæður núna — að það sé ekki hægt þar sem atvinnuleysið stefnir í 8%. Það er ekki nægilega mikil röskun á íslenskum vinnumarkaði til að hægt sé að beita öryggisákvæðinu. Er þá vísað til þess að meðaltalsatvinnuleysi í Evrópusambandinu er ekki mikið minna, eða um 7%.

Þá vil ég víkja að öryggisákvæðinu vegna þess að ég er ekki alveg sammála hæstv. ráðherra um túlkun á því. Í EES-samningnum segir um öryggisákvæðið í gr. 112, með leyfi forseta:

„Ef upp eru að koma alvarlegir efnahagslegir, þjóðfélagslegir eða umhverfislegir erfiðleikar í sérstökum atvinnugreinum eða á sérstökum svæðum, sem líklegt er að verði viðvarandi, getur samningsaðili gripið einhliða til viðeigandi ráðstafana.“

Þetta er einfalt. Samningsaðilinn getur einhliða gripið til ráðstafana sem hann telur viðeigandi. Þetta er skýrt svo frekar í skýringum með þessari grein. Þar segir og er sérstaklega undirstrikað að samningsaðilarnir sjálfir meti hvort skilyrðin eru fyrir hendi. Þannig að Ísland mundi sjálft meta hvort skilyrði væru fyrir hendi til að beita 112. gr.

Ef ríkið beitir 112. gr. þá á að gera það samkvæmt ákveðinni aðferð sem er lýst í 113. og 114. gr. og hægt er að skjóta umfangi aðgerðanna til gerðardóms sem getur kveðið upp úr með hvort ráðstafanir séu meiri en ástæða er til eða ástæða fyrir hendi. En eitt getur gerðardómur ekki gert. Hann getur ekki lagt mat á hvort ríki sem beitir öryggisákvæðinu hafi gert rétt eða ekki vegna þess að það er ekki á valdi neins að meta það nema ríkisins sjálfs.

Sem þýðir, virðulegi forseti, að EES-samningurinn segir hvað okkur varðar að félagsmálaráðherra einn metur hvort unnt sé að beita öryggisákvæðum 112. gr. Enginn getur vefengt það mat, hvorki innan lands né utan. Þess vegna verður hæstv. ráðherra að vera þess meðvitaður hvað felst í EES-samningnum og hvaða tæki öryggisákvæðið er til að vernda atvinnustigið á íslenskum vinnumarkaði. Með því að flytja frumvarpið núna segir ráðherrann að aðstæður séu það slæmar að nauðsynlegt sé að grípa til verndunaraðgerða. Það er ákveðinn mælikvarði á það hvenær ráðherrann telur nauðsynlegt að grípa til aðgerða. Atvinnuleysi er tiltölulega lítið á evrópskan mælikvarða, það er innan við 5% miðað við síðustu tölur sem við sáum.

Því vil viðbótar lagði Ísland fram — ég held meira að segja að núverandi félagsmálaráðherra hafi líka verið félagsmálaráðherra þegar samið var um þetta við Evrópusambandið — einhliða yfirlýsingu um túlkunina á þessum öryggisákvæðum. Sú yfirlýsing var lögð fram við viðsemjendur okkar og í skýringum við frumvarpið um EES-samninginn segir, með leyfi forseta:

„Yfirlýsing þessi varð ekki tilefni gagnyfirlýsingar af hálfu annarra samningsaðila og verður því að líta svo á að þessi túlkun ákvæðisins sé óumdeild.“

Þannig að viðsemjendur okkar gerðu ekki ágreining um þessa yfirlýsingu. En hún er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Yfirlýsing ríkisstjórnar Íslands um beitingu öryggisráðstafana samkvæmt EES-samningnum. Vegna einhæfs atvinnulífs og fámennis lýsir Ísland þeirri túlkun sinni að það geti í samræmi við skyldur sínar samkvæmt samningnum gripið til öryggisráðstafana ef af framkvæmd samningsins leiðir einkum:

alvarlega röskun jafnvægis á vinnumarkaði vegna meiri háttar flutninga starfsfólks sem beinast að sérstökum svæðum, störfum eða atvinnugreinum; eða

alvarlega röskun jafnvægis á fasteignamarkaði.“

Alvarlega röskun jafnvægis á fasteignamarkaði, er yfirlýsing sem þáverandi félagsmálaráðherra hefur væntanlega samið eða komið að og komið í hendurnar á þáverandi utanríkisráðherra um hvernig við skildum öryggisákvæði EES-samningsins. Það er svona. Að beita eigi því við þessar aðstæður.

Þegar frumvarpið var afgreitt hér á vormánuðum 2006, eins og ég gat um áðan, var formaður félagsmálanefndar Dagný Jónsdóttir og mælti hún eðlilega fyrir nefndaráliti meiri hluta félagsmálanefndar og formaður nefndarinnar rekur í máli sínu það sem fram kemur í nefndarálitinu. Þar segir, með leyfi forseta:

„Vert er að taka fram að þegar aðildarríki hefur tekið upp hinar sameiginlegu reglur um frjálsa för launafólks er ekki ætlast til að settar verði strangari takmarkanir síðar nema ef um röskun eða fyrirsjáanlega röskun á innlendum vinnumarkaði verði að ræða.“

Þá var túlkun félagsmálanefndar að á grundvelli almennra ákvæða EES-samningsins væri hægt að að grípa til takmarkana á innlendum vinnumarkaði ef um röskun eða fyrirsjáanlega röskun á innlendum vinnumarkaði væri að ræða. Þetta var meiri hluti félagsmálanefndar, átta af níu, og meðal þeirra sem stóðu að meiri hlutanum voru fulltrúar Samfylkingarinnar í nefndinni.

Einn fulltrúi hennar, Kristján Möller hæstv. samgönguráðherra, gekk eftir því í umræðunum og kallaði eftir því að formaður félagsmálanefndar skýrði ummælin frekar þannig að ekki færi á milli mála hvað við væri átt. Segir hann, með leyfi forseta:

„Mig langar að spyrja talsmann nefndarinnar: Um hvaða fyrirsjáanlegu röskun á innlendum vinnumarkaði er verið að ræða sem gæti breytt þessum ákvæðum?“

Framsögumaður nefndarinnar og formaður svarar því til, með leyfi forseta:

„Þarna er settur sá fyrirvari að stjórnvöld geti gripið til aðgerða ef, eins og það er orðað, röskun verður á vinnumarkaði. Það er verið að tala um það að stjórnvöld verði að meta slíkt ástand eða yfirvofandi ástand og hafa samráð við aðila vinnumarkaðarins. Það er þá verið að tala um það að ef svo stór hópur útlendinga kemur hingað til lands að við verðum engan veginn í stakk búin til að taka á móti þeim. Einnig er verið að hugsa um atvinnuástandið í landinu o.s.frv. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að við séum með þessa heimild í lögunum og það má líka geta þess að þetta eru rýmri heimildir en í Evrópusamningnum þannig að ég tel mjög gott að stjórnvöld hafi þennan varnagla.“

Með öðrum orðum. Það er ekki bara samningurinn heldur eru í lögum rýmri ákvæði sem gefa stjórnvöldum tækifæri til þess að takmarka aðgang að innlendum vinnumarkaði. Alveg skýrt er, virðulegi forseti, að sú túlkun sem kom fram hér á Alþingi fyrir tveimur og hálfu ári er mun rýmri á öryggisákvæðunum en ráðherra í svari sínu til félagsmálanefndar og túlkun ráðherrans nú á öryggisákvæðunum þrengri en fram kemur í ákvæðunum sjálfum og skýringum með þeim.

Nú mun líða tíminn, virðulegi forseti, eins og óhjákvæmilegt er — nema ef heimurinn ferst vegna tilrauna með öreindahraðal, eða eitthvað slíkt — að allir fyrirvarar falla úr gildi sem menn kunna að hafa og menn hafa þá ekkert annað en samninginn sjálfan, EES-samninginn og 112. gr. til að vinna úr. Þá skiptir máli hvernig félagsmálaráðherra á hverjum tíma lítur á þetta ákvæði og hvenær hann getur beitt því. Ráðherrann, eða starfsmenn fyrir hans hönd, hefur sagt núna að núverandi ástand á vinnumarkaði sé ekki nægilega slæmt til að hægt sé að beita öryggisákvæðinu. En hann telur ástandið samt það slæmt að það verði að beita öðrum ákvæðum sem tök eru á til að takmarka aðgang að vinnumarkaði og draga úr atvinnuleysi hér innan lands.

Hvenær telur ráðherrann unnt að beita ákvæðum 112. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið? Hversu mikið þarf atvinnuleysi á Íslandi eða fall á fasteignamarkaði að vera til (Forseti hringir.) að það verði virkt?