136. löggjafarþing — 60. fundur,  17. des. 2008.

frjáls atvinnu- og búseturéttur launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins o.fl.

179. mál
[15:42]
Horfa

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. félagsmálaráðherra fyrir greinargóða ræðu. Það er eitt atriði sem mér finnst ástæða til að spyrja um, sérstaklega af því tilefni sem var gefið þar sem hæstv. félagsmálaráðherra ræddi um að atvinnuleysi hér væri ekki orðið það mikið, eins og ég gat skilið hana, að unnt væri að beita ákvæði 112. gr. Þá spyr ég: Hve mikið þarf atvinnuleysið að verða til þess að mati hæstv. félagsmálaráðherra að unnt verði að beita ákvæði 112. gr.? Mér finnst í sjálfu sér það sem hæstv. félagsmálaráðherra hafði um málið að segja gefa tilefni til að spyrja þessarar spurningar.

Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að það að beita undanþáguákvæði sem þessu kann að hafa víðtæk áhrif og það getur að sjálfsögðu hitt okkur sjálf fyrir. Þess vegna skipti svo miklu máli á sínum tíma að nýta það undanþáguákvæði sem við höfðum gagnvart níu ríkjum Evrópusambandsins og tekin var ákvörðun um árið 2006 að nýta ekki með þeim afleiðingum sem orðið hafa. Eins og hæstv. félagsmálaráðherra benti á komu um 18 þús. manns til vinnu hingað og það er búist við því að um 10 þús. manns verði hér eftir um næstu áramót. Þeir eru töluvert fleiri í dag og þetta er eingöngu tilgáta, það er meira en helmingur eftir. Meginatriðið er að ég gat ekki skilið hæstv. félagsmálaráðherra öðruvísi en að hún teldi okkur í raun heimilt að beita undanþáguákvæðum á bókuninni og varðandi 112. gr. og þar væri um töluvert víðtækan rétt að ræða. Ég þakka henni fyrir þá skýringu.