136. löggjafarþing — 60. fundur,  17. des. 2008.

frjáls atvinnu- og búseturéttur launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins o.fl.

179. mál
[15:44]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar ég lýsti því hér áðan að ég teldi ekki ástæðu til að beita þessu ákvæði núna miðað við atvinnustigið hér á landi er það betra en víða í nágrannalöndum okkar þar sem algengt atvinnuleysi er 6, 7 og 8%, a.m.k. í augnablikinu þó að það stefni í að versni en ég geri mér grein fyrir því að þolmörk okkar gagnvart atvinnuleysinu eru öðruvísi í okkar fámenna landi en í öðrum löndum. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því.

Ég get ekki svarað spurningu hv. þingmanns um það hve mikið atvinnuleysi þurfi að vera til að þessu ákvæði verði beitt. Við þurfum að skoða það í miklu víðtækara samhengi og jafnvel þó að ég væri félagsmálaráðherra þegar kæmi að því að beita slíku ákvæði eru það eins og ég fór yfir áðan aðilar vinnumarkaðarins, ríkisstjórn og utanríkisráðuneytið sem sameiginlega tækju ákvörðun um að beita þessu ákvæði. Það getur eins og hv. þingmaður tók undir með mér haft alvarlegar afleiðingar fyrir Íslendinga líka ef önnur lönd beittu ákveðnum gagnaðgerðum gagnvart Íslendingum. Þessu held ég að afar mikilvægt sé að halda til haga en ég undirstrika rækilega að við munum fylgjast grannt með ástandinu og hvort ástæða sé til að beita ákvæðinu en við hljótum þá að meta afleiðingarnar af því.

Þótt stefni núna í eða áætlað sé að 10 þús. útlendingar verði hér um áramót vitum við auðvitað ekkert hver staðan verður á næsta ári, hvort þeir verða færri eða ekki. Aðalatriðið í mínum huga er að við fylgjumst vel með þróuninni og metum (Forseti hringir.) á hverjum tíma hvort ástæða sé til að beita þessum neyðarrétti.